Ferðasaga: Bragaþing á Húsavík – landsmót hagyrðinga.

Fosshótel Húsavík laugardaginn 25. Ágúst 2012

Á  norðurleið til þings:

Norður til Bragaþings á Húsavík óku saman í Subaru Sigmundur Benediktsson, Helgi Zimsen og Rangar Ingi Aðalsteinsson er sat undir stýri.

Stöðug virðist stefnan nú
stýrir Ragnar Ingi
sínum góða subaru
senn að Bragaþingi.     (HZ)

Á leiðinni var ákveðið að taka hús hjá Jóa í Stapa en ekki voru menn vissir um að hann væri heima enda mögulega farinn á Bragarþing.  Jói var þó heima og hugði ekki á þingferð.

Hér er fögur fjallasýn,
feginn augum gjóa.
Andans gleði ekki dvín
ef við finnum Jóa.    (HZ)

Á Blönduósi á norðurleið orti Sigmundur, en hann og Helgi sátu hljóðir yfir ostborgurum sínum á meðan Ragnar Ingi vitjaði frænku sinnar hvar hann át sitt jurtafæði:

Þó að fæðist lítt af ljóðum
lítið sé um málaþras
við rennum niður réttum góðum
en Ragnar Ingi bítur gras.    (SB)

Þegar komið var að Akureyri hringdi Ragnar Ingi í systur sína Sídu.  Reyndist hún vera nýbúin að baka kleinur.  Sjálfsagt þótti að renna í hlað með vísu á vör.

Sída inni situr hér
sjá það má af einu
Ylmur fréttir okkur ber
allt er þar í kleinu.    (HZ) 

Er ferðalangar nálguðust Húsavík var ekið fram hjá eyðibýli heldur hrörlegu.  Hafði þá Ragnar Ingi á orði að fyrst ekki væri við haldið væri réttast að ryðja því niður því þetta væri eins og lík sem gleymst hefði að jarða.  Helgi greip hugmyndina á lofti og orti:

Bygging hékk af hrörleik rík
hefði þörf á farða.
Hún er eins og liðið lík
sem láðst hefur að jarða.    (HZ) 

Á Húsavík tók Sigmundur eftir því að Ragnar Ingi var með opna buxnaklauf og snaraði fram á staðnum:

Óskin stór er alltaf nærri,
á sér hefur mikla trú.
Opin búð og frúin fjarri:
Fer hann sér að voða nú?     (SB)

 

Á þinginu

Yrkisefni á Bragaþingi voru: Náttfari, hvalir og túr-hestar.

Þáttur Helga Zimsen

Náttfari:

Helga fannst hann í fyrstu fátt hafa um Náttfara að segja og leist illa á sín yrkingarmál.

Nú skal yrkja um Náttfara
Naskur mátti í sátt hjara.
Hans mál læt ei hátt fara
og héðan skal því brátt fara.     (HZ)

En við nánari athugun komst hann að því að líklegast bjó Náttfari á Íslandi í friði í áratugi með sambýliskonu sinni áður en hann var hrakinn í Náttfaravík.

Náttfari er nam hér parta
norðurlands að kanna.
Varla þurfti víst að kvarta
vondum undan granna.        (HZ)

Hvalir:

Ferðamenn ef finna hval
fögnuð skynja og meta.
Ekki samt mitt vandast val
veitist hann að éta.    (HZ)  

Hvals við skoðun skemmti mér
skeið’um haf má trylla.
Ört mitt geðið örvast fer
ef hann fæ að grilla.  (HZ) 

Ofangreinda vísu má nátturlega lesa með tvenns konar hætti.

Oft um hval er allskyns tal
ýmsa hjal má þreyta og mal.
Hafs við sal hann skoða skal
skjóta í fal og neyta af hal    (HZ) 

Túr-hestar:

Túr- ef –hestar hér í lestum
haga í festast, sinntu gestum.
Bjór og nesti bjóð sem flestum,
brátt þá sestu að gróða mestum.    (HZ)

Sigurður dýralæknir benti á úr sæti að menn þyrftu að halda hljóðnemanum nær og tala hærra svo allir mættu heyra.  Þá orti Helgi.

Hér svo allir heyri sprok
hækka skulið tóninn
Setjið alveg upp við kok
árans míkrafóninn.   (HZ)

 

Sigurðarþáttur dýralæknis

Túrhestar og hvalir

Túrhestar eru engir hér
inni í þessum sal
skyldu þeir vera að skemmta sér
að skoða og flensa hval     (Sigurður Sigurðarson)

Náttfari

Náttfarar verða nógir hér
þá nóttin leggst yfir fold
þeir munu glaðir gamna sér
við gálaust kvennmannshold (Sigurður Sigurðarson)

 

Ragnar Ingi orti á Bragarþingi

Hvalir/túrhestar:

Meðan um hálan hafsins veg
hvalastóðið lokkar
túrhestarnir trúi ég
að tölti um landið okkar.     (RIA)

Náttfari:

Þótt ég mitt eðli oftast feli,
arki hinn bjarta veg
nýt ég mín best á næturþeli, _
Náttfari, – það er ég.    (RIA)

Um Pétur Pétursson orti Ragnar Ingi:

Pétur æ af öðrum bar
eins og leiðarstjarna.
Hefur þó blendið hugarfar
helvítið atarna.          (RIA) 

Ragnar Ingi greiddi með Vísakorti á bragarþingi og þurfti að muna pin-númerið.

Vísa rann um volgan posa
vel þá reyndi á mynnið.
Upphæð mátti aðeins losa
ef að myndi pinnið.   (HZ)

Á gistiheimilinu dvöldu saman Ragnar Ingi, Sigmundur, Helgi, Sigurður og Ólöf.  Skröfuðu þau saman í kjallaranum þar er komið var af Bragarþinginu (til um 12:30) en útlendingum sem þar áttu einnig náttstað líkaði sumum illa.  Helgi orti er aðrir höfðu gengu til hvílu.

Skvaldra ekki skulum vér
og skelfa útlendinga.
Hér í neðra ekki er
athvarf til að þinga    (HZ ekki flutt á staðnum)

Á suðurleið heim af þingi:

Helgi tæmdi lögg úr pela í aftursætinu og orti við stútinn:

Lítið fyrir laumuspil
læt ég þetta fara:
Núna fús mér veita vil
vænan afréttara.        (HZ)

Ekið var fram hjá tignarlegu fjalli:

Tignarlegan tind má sjá
teygja sig að skýjum
veginn förum fram og hjá
fögnum degi nýjum.  (HZ) 

Á Akureyri var stoppað hjá Sídu (Sigrúnu) systur Ragnars Inga til að húsvitja og kanna hvort ekki væri eitthvað eftir af kleinunum góðu.

Ragnar Ingi orti braghendu:

Jötunfell er jákvætt þessum jólasveinum
hugar sloppnum helstu meinum;
hér er alltaf nóg af kleinum.           (RIA)

Ort í vaðlaheiði á leið til Sigrúnar (sem kölluð er Sída):

Ekki treinist okkar skrið,
ákefð leynist þar.
Aftur reyna ætlum við
afbragðs kleinurnar.            (SB)

Helgi orti:

Kleinur aftur komum í,
kannski á eitthvað Sída.
Höldum aftur hingað því
hér er gott að bíta.                (HZ)

Litskrúðugt fram í Öxnadal.

Skyggnir áin skýjamið,
skerpir línur kunnar.
Ljós og skuggar leika við
litróf náttúrunnar.     (SB)

Stutt stopp var gert í Blönduósi en Rangar Ingi hélt síðan akstri áfram.

Blönduósi brunum frá
brátt mun fæðast staka.
Ragnar Ingi enn þá má
undir stýri vaka.        (HZ)

Í Staðarskála. Ragnar Ingi horfinn en Sigmundur hafði sínar kenningar:

Líklega verður að lag´ ann,
leitar í endurtekt sagan,
Ragnar er horfinn á hagann,
hann er með galtóman magann.     (SB) 

Ragnar Ingi kastaði fram fyrriparti sem Sigmundur botnaði:

Sigmundi hitnar í hamsi
hérna í stuðlanna gramsi          (RIA)
en Ragnar í kálhausakjamsi
kallast má grænmetisnamsi.     (SB)

Þessi færsla var birt í Fróðleikur og merkt sem , . Bókamerkja beinan tengil.

Skildu eftir svar