Iðunnarför um Suðurland haustið 2012

Í haust, þann 15. september, var farin skemmtileg ferð um Suðurlandið og úr varð þessi skemmtilega ferðasaga höfð eftir Sigurði dýralækni Sigurðarsyni og Helga Zimsen.

Í yndislegu veðri á sólskinsdegi fóru 23 Iðunnarmenn um Suðurland og komu við á 5 stöðum:

-Byggðasafninu, samgöngusafninu og kirkjunni í Skógum undir Eyjafjöllum,
-Þorvaldseyri,
-Þorsteinslundi inan við Hlíðarendakot
í Fljótshlíð
-Sagnagarði Landgræðslunnar í Gunnarsholti á Rangárvöllum .. og
-Þrastalundi í Grímsnesi við Sog

Byggðasafnið í Skógum

*Skógakirkja. Eftir að Iðunnarmenn höfðu gætt sér á gressilega góðri ketsúpu í Samgöngusafninu í Skógum, sem opnað var árið 2002, leiddi Þórður Tómasson safnvörður förumenn og konur til Skógakirkju og sagði sögu hennar. Hópurinn söng við undirleik Þórðar. Skógar eru með elstu kirkjustöðum á landinu. Þar var kirkja frá því um 1100 og fram til 1890. Núverandi kirkja, er djásnið mesta á staðnum segir Þórður. Hún var  byggð með hliðsjón af ýmsum eldri sveitakirkjum og vígð 1998. Ytra borð kirkjunnar er úr nýjum viðum, en hið innra úr ýmsum kirkjum á Suðurlandi, að mestu úr kirkju í Kálfholti í Holtum frá 1879. Gluggar eru úr Grafarkirkju í Skaftártungu frá 1898. Klukkur tvær, önnur frá 1600 úr Höfðabrekkukirkju í Mýrdal, henni var bjargað undan Kötlugosi 1660, hin frá Ásum í Skaftártungu 1742. Kirkjugripir eru frá 17. og 18. öld. Altaristafla úr Ásólfsskálakirkju  (1768), ljóshjálmar úr Steinakirkju og úr Skógakirkju.

*Byggðasafnið í Skógum geymir marga dýrgripi, stærst safna utan höfuðstaðarins. Formlega var safnið stofnað árið 1949, en var fyrst geymt í kjallaraherbergi og borið upp til sýnis í kennslustofum  Skógaskóla að sumrinu. Frumkvöðull og eldhugi safnsins hefur frá upphafi og síðan í meira en 70 ár verið sami maður, Þórður Tómasson frá Vallnatúni undir Eyjafjöllum, nú 91 árs. Þórður gekk með okkur um staðinn, úti og inni og sagði frá svo að unun var á að hlýða.  Einn mesti dýrgripur safnsins er Pétursey, áraskipið (áttæringur) seglbúna með brimsandslagi, breitt og þungt að framan til að brjóta brimölduna. Pétursey var í eigu Jóns Halldórssonar kaupmanns í S-Vík, smíðað 1855, kom að Skógum 1952. Þar eru mannvirki er sýna húsagerð fyrr á öldum. Torfbæir eru næst safnhúsunum, baðstofa, hlóðaeldhús, stofa, búr og skemma, fjós og fjósbaðstofa  og lítið rafstöðvarhús. Austan við rafstöðina er eitt af 9 höfum brúarinnar yfir Jökulsá á Sólheimasandi sem smíðuð var árið 1921. Ofar í hlíðinni er skólabygging, dæmigerð fyrir sveitaskóla í upphafi 20. aldar. Efst í brekkunni er elsta íbúðarhús úr timbri á safnsvæðinu, byggt í Holti á Síðu 1898.

HELGI ZIMSEN KVAÐ:

Þórður Tómasson er sá,
sem að djásnin kynnir.
Fróðleiksþyrstur fagna má,
fljótt hann anda brynnir.

 

SIGURÐUR SIGURÐARSON KVAÐ (ÁÐUR FLUTT):

Safnið er lifandi sagan hér öll
segir frá afrekum nógum.
Með lífsstarfi sínu flutt hefur fjöll
fræðarinn Þórður í Skógum.

*Á Þorvaldseyri.

Guðný dóttir kvæðamannsins og hagyrðingsins Andrésar Valbergs bauð Iðunnarfélögum í  minningu föður síns aðgang að safninu um gosið í Eyjafjallajökli. Húsið er neðan vegar andspænis bænum. Þau hjónin, Ólafur Eggertsson og Guðný, reka myndarbú á Þorvaldseyri með um 60 kýr. Nýlega er hafin ræktun á repju, en úr fræjum hennar er unnin matarolía, nuddolía og olía til eldsneytis á vélar. Uppskeran sem komin er í hús á þessu ári er um 20 tonn af repjufræi auk byggsins, sem ræktað hefur verið samfellt frá því um 1960. Úr þessu magni af repjufræi má vinna um 6000 lítra af olíu. Hratið má nota sem kjarnfóður fyrir  mjólkurkýr, svín og einnig í fóður fyrir eldisfiska. Hver hektari gefur 2 tonn af fóðurmjöli og 1 tonn af olíu. Olían er þannig aukaafurð og vistvæn framleiðsla, unnin með kaldpressun á fræjunum. Holl er hún samkv. rannsóknum til manneldis. Siglingastofnun hefur unnið að rannsóknum á vinnslu og nýtingu á repjuolíu. Bæjarlækurinn á Þorvaldseyri er virkjaður til rafmagnsframleiðslu fyrir bæinn og heitt vatn úr borholu við rætur Eyjafjallajökuls fullnægir þörfum búsins. Því er Þorvaldseyrarbúið að talsverðum hluta sjálfbært.

Horft var á mynd 20 mín að lengd, sem Þorvaldseyrarmenn hafa látið gera af gosinu á Fimmvörðuhálsi og Eyjafjallajökli og af baráttunni við afleiðingar gossins og lífinu á bænum meðan á hamförunum stóð.

SIGURÐUR KVAÐ 3 VIKHENDUR:

Þær voru fluttar við opnum safnsins 14. apríl 2011, þegar ár var liðið frá upphafi gossins. Þótt gosinu hefði lokið eftir 40 daga, hinn 23.maí 2010 var ennþá öskukóf í lofti,og syrti að, ef að hreyfði vind. Vísa númer tvö er eftir Sveinbjörn Beinteinsson allsherjargoða. Hún er kveikjan að hinum vísunum.

Aska þekur Eyjafjallaskalla.
:,:Hríðin dimm, ef hreyfir vind:,: (tvítekið)
hylur gróður valla.

Geng eg nú um gráar eyður breiðar.
:,:Þar sem vinur besti bjó:,:,          (tvítekið)
byggðin sneyðist heiðar.

Aftur grænkar og þá vænkar hagur.
:,:Við mun brosa veröld ný:,:         (tvítekið)
og vonum fylltur dagur.

Njáll sagði frá kynnum sínum af foreldrum hjónanna á Þorvaldseyri Eggert Ólafssyni og Ingibjörgu f. Nyhagen  frá Valdres í Noregi. Þeim kynntist hann, er foreldrar hans bjuggu í Skógum. Foreldrum Guðnýjar, Andrési H. Valberg og Þuríði Jónsdóttur frá Fagurhólsmýri kynntist hann, er hann gekk í Iðunni. Þessa vísu fékk Njáll frá Andrési Valberg, þegar hann bauð hann velkominn í Kvæðamannafélagið Iðunni.

NJÁLL KVAÐ:

Unaðsleg er ævi Njáls,
ef okkar hlýtur kynni.
Á Bergþórshvoli Bragamáls
brennur varla inni.

HÓPURINN KVAР vísu, sem Andrés gerði fyrir 1949, þegar hann var leigubílstjóri. Þá 30 ára gamall.

Af bílstjórunum er ég einn
ávallt hress og glaður.
Skagfirðingur skír og hreinn,
skáld og listamaður.

Ekki sjást mikil ummerki gossins í dag, þótt mikið hafi yfir gengið.  Krafturinn er augljós bæði í mannfólki og náttúru á þessum slóðum. Fjórði ættliður á Þorvaldseyri, Páll Eggert er kominn í búskapinn með foreldrum sínum. Forfaðirinn Ólafur Pálsson flutti hingað frá Svínhaga á Rangárvöllum, en á þeirri jörð mæddi stanslaust öskufjúk frá Heklu. Hingað kominn byggði hann og afkomendur hans stórbú að þau héldu í skjóli og friði fyrir eldfjöllum, uns ósköpin dundu yfir með gosinu í Eyjafjallajökli. Njáll skoraði á menn að yrkja til Guðnýjar og Ólafs, svo að senda mætti þeim kveðju og þökk fyrir móttökurnar.

HELGI KVAÐ:

Búskap sé í blóma hér
og býsna margt á prjónunum.
Þetta ástand þakka ber
Þorvaldseyrarhjónunum.

Á mynd um gosið mikla þar
mátti góna.
krafinn aðgangseyrir var
ekki króna.

INGI HEIÐMAR JÓNSSON KVAÐ:

Gafst á Eyri gestrisnin,
góð var þessi heimsóknin.
Yfir trónir íbygginn
Eyjafjallajökullinn.

RAGNAR INGI AÐALSTEINSSON KVAÐ:

Þau hafa jörð til bóta breytt,
bjartsýn, kná og vökul.
Og sigrað þannig út í eitt
Eyjafjallajökul.

SIGURÐUR KVAÐ:

Sæmdarhjón öðlast sóma meiri.
Þau sigruðu goshríð og eldspýju.
Blómstrar nú gengið hjá Óla á Eyri
og Andrésdóttur Guðnýju.

*Í Þorsteinslundi

Eftir ánægjulega viðkomu á Þorvaldseyri var haldið að Þorsteinslundi austan túnfótar Hlíðarendakots í Fljótshlíð. Þar var áð, nesti tekið upp, kveðið og sungin kvæði og vísur eftir Þorstein Erlingsson, sem ólst upp í Hlíðarendakoti. Njáll Sigurðsson lék undir á harmóniku. Þorsteinn fæddist í Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum 1858 og dó 1914. Veðrið var hlýtt, logn og yndislega fagurt aftanskin. Glæsilegur reyniviður, hávaxinn og skrýddur ótal, rauðum berjaklösum vex í sveig að baki brjóstmyndar af  Þorsteini, sem settur er þar á háan stall í miðjum garðinum. Að baki er hamrabelti í heiðarbrún, þar sem snotur foss fellur fram með lágværum kliði. Brjóstmyndina gerði  Jónína Sæmundsdóttir (Nína Sæmundsson 1892-1965) frá Nikulásarhúsum eða Niku, eyðibýli.sem er milli Hlíðarenda og Hlíðarendakots.

HELGI ZIMSEN KVAÐ

Á flöt við reyni og fossaklið
sér flokkur undi.
Þandi barka þroskað lið
í Þorsteinslundi.

*Sagnagarður Landgræðslunnar í Gunnarsholti

Næst var haldið að safni Landgræslunnar (fyrr nefnt Sandgræðslan), sem opnað var  28. apríl 2011 á afmælisdegi Þórðar Tómassonar í Skógum, er hann varð 90 ára.  ,,Í Sagnagarði er sagt frá gróður- og jarðvegseyðingu á Íslandi í máli og myndum. Sagt er frá baráttu við afleiðingar eldgosa og óblíð náttúruöfl. Saga frumherjanna í landgræðslu er rakin og barátta þeirra við vantrú almennings. Greint er frá 100 ára sögu landgræðslustarfs á Íslandi og lýst helstu verkefnum í endurheimt landgæða og vistkerfa, gróðurvernd og alþjóðlegu samstarfi.” Þar eru einnig til sýnis vélar, tæki og eftirlíkingar í smáu sniði af búnaði, sem notaður var til landgræðslunnar á ýmsum tímabilum. Utan húss er að rísa SOFNHÚS eftir leiðsögn Þórðar í Skógum til að þurrka og vinna melkorn, sem lengst var gert í Skaftafellssýslum. Sveinn landgræðslustjóri tók á móti hópnum, þótt langt væri liðið á dag og sagði frá starfinu á skýran og skemmtilegan hátt.

SIGURÐUR FLUTTI ÞETTA ERINDI VIÐ LOK KYNNINGAR SVEINS

Kæfði hér grösin grænu
á grónu högunum vænu
helmóðan dökka að handan
Hekla, sem þeytti úr skolti.
Svæft hefur svarta fjandann
Sveinn minn í Gunnarsholti.

HELGI ORTI Á HEIMLEIÐ

Upp er græðist eyðimörk
enginn mun það sýta.
Reyni, víðirunn og björk
raun er ekki að líta.

Undir lok ferðar lýsti Njáll því yfir að hann ætlaði að yfirgefa míkrafóninn:

RAGNAR INGI AÐALSTEINSSON KVAÐ:

Fræga þessa ferð ég tel,
fljótt var gefinn tónninn.
Náðu saman næsta vel
Njáll og míkrafónninn.

*Í Þrastalundi húsi UMFÍ við Sog

Loks var haldið að veitingastaðnum Þrastalundi í Þrastaskógi og snæddur kvöldverður. Valgeir Ingi Óafsson hefur í nokkur ár séð með sóma um reksturinn. Árið 1911 keypti Tryggvi Gunnarsson bankastjóri 45 ha spildu þar sem veitingastaðurinn er og gaf Ungmennafélagi Íslands, sem enn á staðinn og leigir út reksturinn. Elín Egilsdóttir frá Miðey í Landeyjum tók á leigu land á þessum stað árið 1928, reisti gesthús og rak þar veitingasölu og gistingu til 1939. Þá tóku aðrir við. Árið 1941 brann þessi skáli. Árið 1967 var á ný reistur veitingaskáli í Þrastalundi, en hann var rifinn og sá byggður sem nú stendur árið 2004. Einstaklega vinalegt er í Þrastalundi, en á ýmsu hefur gengið með reksturinn þar. Nú er allt í óvissu um framhald á næstunni.

Þegar við komum í Þrastalund voru í hálfum salnum fagureygar og raddþýðar  Rebekkur úr Hafnarfirði (Oddfélagaregla kvenna þar), sem undirtóku með kliðmjúkum raustum gleðisöngva Iðunnarmanna við undirleik Njáls. Hélt svo fram til miðnættis.

*Eftirmáli

Haustferð Iðunnar var vel heppnuð í alla staði. Veðrið lék við okkur. Viðtökurnar sem hópurinn fékk voru hlýjar. Við komum úr ferðinni fróðari um margt og eftir sitja yndislegar minningar um skemmtilega ferð.

Þessi færsla var birt í Fróðleikur og merkt sem . Bókamerkja beinan tengil.

Skildu eftir svar