Ormur Ólafsson, kvæðamaður

Á fundi í Kvæðamannafélaginu Iðunni, sem haldinn var 5. október síðastliðinn, minntist formaður þess, Ragnar Ingi Aðalsteinsson, Orms Ólafssonar, fyrrum formanns Iðunnar og Steindór Andersen, einnig fyrrum formaður Iðunnar, kvað nokkrar vísur eftir hann við stemmur sem Ormur kvað gjarnan.

Í janúar 2005 tók Arnþór Helgason viðtal við Orm, en þá stóð yfir gerð útvarpsþátta um Silfurplötur Iðunnar. Hluta viðtalsins var útvarpað í einum þáttanna, en meginhluta þess nokkru síðar.

Með þessari færslu fylgja tvö hljóðrit. Hið fyrra er með minningarorðum Ragnars Inga og kvæðaskap Steindórs (neðar má lesa stökur þær, eftir Orm, sem Steindór kveður):

 

Hið seinna er óstytt viðtal við Orm Ólafsson. Þar koma fram ýmsar heimildir um starf Iðunnar, en Ormur var í framvarðasveit félagsins um fjögurra áratuga skeið.

 

Hljóðrit þessi eru birt með samþykki Arnþórs Helgasonar.

Nokkrar stökur eftir Orm Ólafsson (sjá fleiri stökur í síðasta fréttablaði):

Iðunn víkur ekki sið
ávallt lík er saga
ýmsa slíka eigum við
unaðsríka daga.

Forðum þjóðin fróðleiksgjörn
fortíð kaus að muna
sálarþrek í sókn og vörn
sótt í ferskeytluna.

Ávallt nýtum andans mið
allir fagna hljóta
að ferhendurnar fiskum við
fyrir utan kvóta.

Aflar fanga okkar lið
orðið slíkt að vana.
Hortittunum hendum við
hirðum golþorskana.

Um ferskeytlunnar fagra svið
farið Skálda getur.
Á sónarhafið sækjum við
sumar jafnt og vetur.

Skipt um stemmu

Vetrarmugga veldur ugg
vonum stuggar mörgum.
Öldur rugga einum kugg
undir skuggabjörgum.

Vorsins yndi vekur þrótt
vaxa lindir dalsins
blíðu vindar blása hljótt
blána tindar fjallsins.

Vorið hrumu verður hlíf
vaknar brum í haga
veikri frumu vekur líf
varmi sumardaga.

Fegurð rænist foldarbú,
fjólan væna dáin.
Hélu skæni hefur nú
hulið grænu stráin.

Þessi færsla var birt í Fróðleikur og merkt sem . Bókamerkja beinan tengil.