Litla hagyrðingamótið 5 október 2012

Á félagsfundum Iðunnar er venja að halda lítið hagyrðingamót, en þá eru fengnir þrír hagyrðingar til að yrkja um þrjú yrkisefni sem formaður vísnanefndar velur. Á síðasta fundi voru Höskuldur Búi Jónsson, Sigrún Haraldsdóttir og Jón Ingvar Jónsson fengin til að yrkja um orðin Búin, Brjóta og Týna. Hér er afraksturinn birtur með góðfúslegu leyfi höfunda:

Höskuldur orti:

Týna

Saman vil ég vísur klína
vaskur með þær ykkur pína.
En búinn er ég botn að týna
braglaus ekkert hef að sýna.

Búinn

Ég er lúinn, fótum fúinn
frekar snúinn.
Eymdum knúinn, aurum rúinn.
alveg búinn.

Brjóta

Innblásið af lestraræfingum barnanna

Lóa sagði masar mús
móinn iljar fótur
Óli sá ber líma lús
lesmál: tungubrjótur.

Sigrún Haraldsdóttir orti:

Búin

Hér fékk hún lokalínuna lánaða hjá Páli Jónssyni)

Á mig stöðugt árum hleð
eins og merkin sína,
bráðum verð ég búin með
barnæskuna mína.

Brjóta

Mér finnst oft svo gaman og frekar til bóta
að fara í kringum reglurnar,
en leiðist svo mjög að laska og brjóta
lökkuðu fínu neglurnar.

Týna

Lepji ég í mig lögg af víni
læðist um mig hiti,
á öðru glasi oftast týni
alveg rænu og viti.

Jón Ingvar orti:

Búinn

Að yrkja vísu er vandi snúinn,
ég verð af slíkri iðju lúinn
og núna bið
ég bara um grið
því ég er illa undirbúinn.

Brjóta

Við yrkingar enn mun ég feila
svo einskis þið fáið að njóta
þó að minn hrörnaðan heila
í heilan dag væri að brjóta.

Týna (Tína)

Það er gott fyrir geðheilsu mína
og gremjan úr sálu mun víkja
því nú er hin tjúllaða Tina
Turner víst steinhætt að skríkja.

Þessi færsla var birt í Fróðleikur og merkt sem , . Bókamerkja beinan tengil.

Skildu eftir svar