Stökurnar hans Erlings A. Jónssonar

Við vorum fengin til að kanna hvort Iðunn ætti einhvern kveðskap í fórum sínum, ort af Erlingi A. Jónssyni en hann var í kvæðamannafélaginu frá 1987-1994. Sitthvað kom upp úr krafsinu.

Í fréttablaði félagsins frá desember 1991 birtust þessar stökur:

Garratíð er gengin inn,
góðu sumri lokið.
Blæs nú svalt og bítur kinn
bansett norðanrokið.

Víst mun koma vor á ný,
vetrarnætur líða.
Glaður mun þá fara í frí
– fjallhestarnir bíða.

Á árshátíð félagsins frá 1993 fengu hagyrðingar spurningar til að svara í bundnu máli.

Spurning 1. Hvernig lýsir þú sjálfum þér?

Af sæmdum mínum segir fæst,
sýnist njóta hylli fárra
og útlitið, sem ekki er glæst,
innrætinu þó er skárra.

Spurning 2. Hver er skýrastur munur karls og konu?

Guminn reyndist gölluð smíð,
gerður var ei fegri.
Því er meyjan, mjúk og blíð,
miklu kyssilegri.

Spurning 3. Hvað myndir þú gera í kvöld ef þú ættir dauðann vísan á morgun?

Ef óskir mínar fengi fyrst
að fullu svo mér líki,
hlyti ég naumast náðarvist
í neinu himnaríki.

Spurning 4. Hvað er best í heimi?

Þótt fyrst ég nefni vín og víf
varla má því gleyma,
að ferðalög og fjallalíf
fegurst er að dreyma.

Í fréttablaði félagsins frá því í desember 1993 er þessi jólavísa:

Þá dagsins ljós er dauft og tregt
og dvínuð blessuð sólin,
væri allt svo ömurlegt
ef ekki væru jólin.

Í janúarhefti fréttablaðs Iðunnar frá 1994, sendir Erlingur afmæliskveðju til Jóa í stapa sem varð sjötugur í þeim mánuði:

Skálum klingja skáldmæringar,
skipa hring um kvæðahöld.
hátt á þingi hagyrðingar
honum syngja lof í kvöld.

Við bætum við stökum ef og þegar við finnum fleiri, en hugsanlega hefur hann laumað í Skáldu einhverjum góðum stökum.

Þessi færsla var birt í Fróðleikur og merkt sem . Bókamerkja beinan tengil.

Skildu eftir svar