Landsmót kvæðamanna á Siglufirði 2013

Helgina 1-3. mars síðastliðinn var haldið landsmót kvæðamanna á Siglufirði og reyndist það sögulegt, en þar voru stofnuð samtök kvæðamanna – Stemma.
Gefum formanni nýju samtakanna, Guðrúnu Ingimundardóttur orðið:

Kvæðamannafélagið Ríma á Siglufirði stýrði mótinu og fór öll dagskráin fram í glæsilegum húskynnum Rauðku ehf. Á landsmótinu komu saman fulltrúar fjögurra kvæðamannafélaga: Iðunnar í Reykjavík, Gefjunar á Akureyri, Árgala á Selfossi og Rímu á Siglufirði. Einnig var á Landsmótinu formaður Félags ljóðaunnenda á Austurlandi. Hjá því félagi er áhugi fyrir kveðskaparhefðinni mikill, en ekki er starfandi kvæðamannafélag á Austfjörðum. Til stendur að kvæðamenn Rímu heimsæki Félag ljóðaunnenda á vordögum til að kenna og kynna kveðskap.

Þegar kvæðamenn koma saman er mikið kveðið enda eru kvæðamenn samrýmdur hópur fólks með ástríðu fyrir þessari aldagömlu tónlistar- og kvæðahefð. Mótið hófst formlega í Bláahúsinu þar sem hugmyndir um markmið og starfsreglur Landssamtaka kvæðamanna voru viðraðar. Síðan færðist samkoman yfir á veitingastaðinn Hannes Boy, þar sem mikið var kveðið og borðaður ljúffengur matur. Tónleikar með Steindóri Andersen kvæðamanni voru á Kaffi Rauðku um kvöldið. Steindór kvað hluta úr Ljóðabréfi Jóns Jónssonar og Formannavísur úr Skagafirði eftir Sigurð Stefánsson.

Kvæðamenn vöknuðu snemma á laugardagsmorgni og höfðu um að velja að læra bragfræði og vísnagerð hjá Birni Ingólfssyni eða læra að syngja tvísöngva hjá Guðrúnu Ingimundardóttur. Kvæðamenn skiptu sér jafnt niður á námskeiðin sem fóru fram í Rauðku – var Björn niðri í salnum en Guðrún uppi í koníaksstofunni. Eftir dýrindis hádegisverð mættu menn saddir upp í koníaksstofuna þar sem Steindór Andersen kenndi fimm kvæðalög með öllum sínum slaufum og tilþrifum við góðar undirtektir mótsgesta.

Önnur umræða um markmið og starfsreglur Landssamtaka kvæðamanna fór fram í Bláahúsinu frá kl. 17:00 til 19:00. Þar voru lesnar upp tillögur að starfsreglum samtakanna og greidd atkvæði um hverja grein fyrir sig. Að loknum fundi voru allir viðsaddir búnir að koma sér saman um tillögur fyrir stofnfund samtakanna.

Hápunktur mótsins var kvöldvakan á laugardagskvöldinu sem fór fram í Rauðku. Gestir byrjuðu á því að gæða sér á glæsilegum kvöldverði og kveða saman upp úr Kvæðakveri sem hafði að geyma valdar vísur frá hverju kvæðamannafélagi. Síðan stigu kvæðamenn á stokk til skiptis og sýndu hvað í þeim bjó. Þarna mátti sjá og heyra mismunandi kvæðalagaflutning og söng, níðvísur, skjallvísur, „kveðið í kútinn“ og kveðist á. Einnig flutti Steindór Andersen Formannsvísur Þórðar Grunnvíkings. Þegar leið að miðnætti hófst dansleikur þar sem Tröllaskagahraðlestin sá um fjörið.

Stemma – Landssamtök kvæðamanna formlega stofnuð 3. mars 2013

Allir kvæðamenn voru sammála um mikilvægi þess að að sameina krafta kvæðamanna. Með því að stofna Stemmu munu kvæðamenn sameinast um að efla kveðskaparlist og koma í veg fyrir að þessi dásamlegi menningararfur okkar falli í gleymsku og dá.

Hvert kvæðamannafélag hefur sinn hátt á starfseminni og þekkir lítið til annarra kvæðamannafélaga. Svipuð starfsemi er samt hjá félögunum en það er að hittast reglulega og kveða saman, læra nýjar stemmur, flytja stemmurnar eins og þeir gömlu gerðu og á nýstárlegan máta, leita upplýsinga um kvæðamennsku, finna efni til að kveða, útbúa kynningarefni og kenna/kveða í skólum og fyrir hópa áhugamanna. Sumir gera meira af einu og aðrir af öðru, en hver er að vinna í sínu horni og hefur ekki aðgang að efni og upplýsingum hinna. Með því að sameina kraftana verður komið í veg fyrir að allir þurfi að „finna upp hjólið“ því upplýsingar um kveðskaparhefð og kynningarefni verður tekið saman og gert aðgengilegt öllum kvæðamönnum.

Kvæðamannafélögin binda miklar vonir við stofnun Stemmu og eru metnaðarfull þau markmið sem varða leiðina að því að gera kvæðamennsku að lifandi tónlistarhefð í landinu öllu:

 1. standa fyrir árlegu landsmóti kvæðamanna. Aðildarfélög skiptast á um að halda landsmótið.
 2. leita eftir sambandi við áhugamenn um kvæðaskap og aðstoða þá við stofnun og starfsemi kvæðamannafélags.
 3. halda úti heimasíðu með upplýsingum um aðildarfélögin, s.s. tengiliði, starf og viðburði.
 4. taka saman fræðslu- og kynningarefni um kveðskaparlistina og gera aðgengilegt fyrir félagsmenn.
 5. bjóða fræðslustofnunum á öllum skólastigum upp á að fá kvæðamenn í heimsókn til að kynna kveðskap fyrir kennurum og nemendum. Bjóða einnig ferðaþjónustuaðilum upp á sama fyrir hópa innlendra og erlendra ferðamanna.
 6. taka þátt í alþjóðlegu / norrænu samstarfi þjóðtónlistarfólks og gera kvæðamönnum kleift að taka þátt í erlendum þjóðtónlistarhátíðum.

 

Stemma – Landssamtök kvæðamanna voru stofnuð 03.03.2013. Stjórnarmenn voru kosnir samkvæmt starfsreglum samtakanna og eru þeir:

Formaður:            Guðrún Ingimundardóttir, formaður Rímu
Varaformaður:     Ragnar Ingi Aðalsteinsson, formaður Iðunnar

Stjórnarmenn:
Anna Halldóra Sigtryggsdóttir, formaður Gefjunar
Rósa Þorsteinsdóttir, stjórnarmaður í Iðunni
Ingi Heiðmar Jónsson félagsmaður í  Árgala og Iðunni

Varamenn:
Erla Gunnlaugsdóttir, stjórnarmaður í Rímu
Rósa María Stefánsdóttir, stjórnarmaður í Gefjuni
Magnús Stefánsson, formaður Félags Ljóðaunnenda á Austurlandi

Heimili og varnarþing Stemmu er þar sem formaður býr og því er það nú á Siglufirði – í bæ sr. Bjarna sem barðist ötullega fyrir því að bjarga þjóðtónlist okkar Íslendinga frá glötun með því að safna íslenskum þjóðlögum, kvæðalögum og tvísöngvum og gefa út þá miklu bók Íslensk þjóðlög á árunum 1906-9. Siglufjörður hefur auk þess skapað sér sérstöðu sem heimabær þjóðlaganna með því að halda Þjóðlagahátíð árlega frá árinu 2000 og opna Þjóðlagasetur árið 2006.

Hér fyrir neðan eru starfsreglur samtakanna:

Starfsreglur Stemmu – Landssamtaka kvæðamanna

 1. gr

Nafn samtakanna er Stemma – Landssamtök kvæðamanna.

2. gr.

Heimili og varnarþing samtakanna er þar sem heimili formanns er hverju sinni.

3. gr.

Markmið Stemmu er að efla veg kvæðamennsku, varðveita fróðleik um þau efni og auka kynni meðal kvæðamanna á landsvísu.

4. gr.

Markmiðum sínum hyggst Stemma ná með því að:

 1. standa fyrir árlegu landsmóti kvæðamanna. Aðildarfélög skiptast á um að halda landsmótið.
 2. leita eftir sambandi við áhugamenn um kvæðamennsku og aðstoða þá við stofnun og starfsemi kvæðamannafélags.
 3. halda úti heimasíðu með upplýsingum um aðildarfélögin, s.s. tengiliði, starf og viðburði.
 4. taka saman fræðslu- og kynningarefni um kvæðamennsku og gera aðgengilegt fyrir félagsmenn.
 5. bjóða fræðslustofnunum á öllum skólastigum upp á að fá kvæðamenn í heimsókn til að kynna kvæðamennsku fyrir kennurum og nemendum. Bjóða einnig ferðaþjónustuaðilum upp á sama fyrir hópa innlendra og erlendra ferðamanna.
 6. taka þátt í alþjóðlegu / norrænu samstarfi þjóðtónlistarfólks og gera kvæðamönnum kleift að taka þátt í erlendum þjóðtónlistarhátíðum.

5. gr.

Stofnfélagar eru:

a)      Kvæðamannafélagið Árgali (með fyrirvara um samþykki aðalfundar)

b)      Kvæðamannafélagið Gefjun

c)      Kvæðamannafélagið Iðunn

d)     Kvæðamannafélagið Ríma

e)      Kvæðamannafélagið Vatnsnesingur (með fyrirvara um samþykki stjórnar)

f)       Félag ljóðaunnenda á Austurlandi (með fyrirvara um samþykki aðalfundar)

6. gr.

Öll félög kvæðamanna geta verið aðilar að Stemmu. Inngöngubeiðni þarf að vera skrifleg og skal fylgja afrit af starfsreglum félagsins og upplýsingar um hverjir skipi stjórn þess. Stjórn Stemmu afgreiðir inngöngubeiðnir og leggur fram til staðfestingar á aðalfundi.

7. gr.

Stjórn Stemmu skipa fimm menn: formaður, varaformaður, ritari, féhirðir og meðstjórnandi.

Kosning skal fara fram á aðalfundi til eins árs í senn. Formaður og varaformaður skulu kosnir sérstaklega, en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum. Á aðalfundi skulu einnig kosnir þrír varamenn stjórnar og tveir skoðunarmenn reikninga. Kosning skal vera skrifleg ef fleiri eru í framboði en kjósa skal. Formaður boðar til stjórnarfunda bæði stjórnarmenn og varamenn félagsins.

Heimilt er stjórn að skipa starfsnefndir til sérstakra verkefna. Nefndirnar geta kallað aðra sér til aðstoðar.

8. gr.

Aðalfund skal halda í tengslum við Landsmót kvæðamanna fyrir góulok. Skal hann boðaður með minnst viku fyrirvara og telst löglegur, ef löglega er til hans boðað.
Í öllum kosningum og atkvæðagreiðslum ræður einfaldur meirihluti atkvæða.
Fastir dagskrárliðir aðalfundar skulu vera:
1.   Skýrsla formanns.
2.   Skýrsla féhirðis.
3.   Ákvörðun árstillags.
4.   Breytingar á starfsreglum.
5.   Kosningar:
a)  Kosning formanns.
b)  Kosning varaformanns.
c)  Kosning þriggja annarra stjórnarmanna.
d)  Kosning þriggja varamanna í stjórn.
i)   Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga.
6.  Önnur mál.

9. gr.

Breytingar á starfsreglum Stemmu geta því aðeins átt sér stað að tillögur þar að lútandi hafi verið kynntar í fundarboði til aðalfundar. Til þess að öðlast gildi skulu þær samþykktar með meirihluta greiddra atkvæða á aðalfundi.

10. gr.

Aðildarfélög greiða árgjöld til Stemmu samkvæmt ákvörðun aðalfundar þess. Gjalddagi árgjalda er 1. júní. Auk árgjalds aflar Stemma sér tekna með opinberum styrkjum og öðrum þeim leiðum sem stjórn telur færa.

11. gr.

Rekstrarafgangi af starfsemi Stemmu skal varið í samræmi við markmið hennar.

12. gr.

Ákvörðun um slit Stemmu skal tekin á aðalfundi og ræður einfaldur meirihluti. Eignir renna til félags eða stofnunar, sem hefur það að markmiði að viðhalda kveðskap og vísnagerð og miðla fróðleik um bragfræði rímna.

Starfsreglur þessar voru samþykkt á stofnfundi Stemmu – Landssamtaka kvæðamanna 3. mars 2013 og öðlast gildi sama dag.

 

Félagar á stofnfundi Stemmu, Siglufirði 3. mars 2013:

Margrét Ásgeirsdóttir                        Ríma
Þorgeir Gunnarsson                            Ríma
Magnús Stefánsson                            Félag Ljóðaunnenda á Austurlandi
Gústaf Daníelsson                              Ríma
Þorleif Alexandersdóttir                    Ríma
Guðný Pálsdóttir                                Ríma
Steindór Andersen                             Iðunn og Kvæðamannafélag Hafnarfjarðar
Ragnar Ingi Aðalsteinsson                 Iðunn
Höskuldur Búi Jónsson                      Iðunn
Gunnhildur Vala Valsdóttir               Iðunn
Rósa María Stefánsdóttir                   Gefjun
Þór Sigurðarson                                  Gefjun
Sigurður Hlöðversson                          Ríma
Örlygur Kristfinnsson                        Ríma
Jenný Karlsdóttir                               Gefjun
Ása Ketilsdóttir                                 Iðunn
Þórarinn Hannesson                           Ríma
Erla Gunnlaugsdóttir                         Ríma
Anna Halldóra Sigtryggsdóttir          Gefjun
Kristín Sigtryggsdóttir                       Gefjun
Guðrún Ingimundardóttir                  Ríma
Sigurður Sigurðarson                         Árgala
Ólöf Erla Halldórsdóttir                    Árgala

Aðrir stofnfundargestir (fóru af fundi fyrir undirritun):
Ingi Heiðmar Jónsson                        Árgala og Iðunn
Margrét Hallmundsdóttir                   Árgala
Guðmundur B. Smárason                  Árgala

Þessi færsla var birt í Fréttir og merkt sem , . Bókamerkja beinan tengil.

Skildu eftir svar