Félagsfundur og kvæðalagaæfing

Næsti fundur Iðunnar verður haldinn 8. nóvember og að vanda verður kvæðalagaæfing miðvikudagskvöldið á undan, sem nú er þann 6.nóvember.

Fjölbreytt og skemmtileg dagskrá er á félagsfundinum. Rósa Þorsteinsdótir mun flytja fróðlegan fyrirlestur sinn um viðhorf til alþýðuhljóðfæra frá 17.-19. aldar:

Sú skoðun að Íslendingar hafi ekki átt nein hljóðfæri er lífseig og er jafnvel haldið á lofti enn í dag. Við leit að heimildum um íslensku fiðluna hafa samt komið í ljós ýmsar upplýsingar um önnur alþýðuhljóðfæri sem smíðuð hafa verið og spilað á hér á síðustu öldum. Auk þess er ljóst að í heimildum er auðveldara að finna upplýsingar um innflutt hljóðfæri sem notuð voru á opinberum vettvangi, svo sem kirkjuorgel, og þau sem heldra fólk hafði í stofum sínum, en þau sem lítið fer fyrir og mest voru notuð af alþýðufólki. Við þessa heimildarrýni hefur einnig vaknað sú spurning hvort skoðanir á hljóðfæraeign eða hljóðfæraleysi landsmanna byggist á viðhorfum til alþýðuhljóðfæra frekar en traustum heimildum. Þá hefur orðið ljós þörfin á að líta til margra ólíkra fræðigreina og nýta mismunandi heimildir sem geta gefið vísbendingar um hljóðfæri og hljóðfæraleik á Íslandi. Rýnt verður í heimildir frá mismunandi tímum og þær settar í samhengi við strauma og stefnur sem ríkjandi voru á hverju tímabili fyrir sig.

Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir kemur á fundinn og kynnir nýja útgáfu af verkum skáldkonunnar Erlu, Guðfinnu Þorsteinsdóttur. Sýnd verða eintök og Iðunnarfélagar geta fengið verkið keypt. Anna Þorbjörg mun svo lesa úr safninu og kveða a.m.k. eina stutta rímu.

Lokið er 3. rímu Sigrúnar Haraldsdóttur um Tinnu. Ríman verður kveðin á fundinum á föstudaginn.

Svo má nefna fasta dagskrárliði: skýrsla ritara, látinna félaga minnst, litla hagyrðingamótið, samkveðskapur, kaffi og auðvitað gert að afla Skáldu.

Allir fundir og kvæðalagaæfingar félagsins hefjast stundvíslega kl 20:00 og lýkur kl 22:30. Félagar eru hvattir til að mæta á sem flesta fundi og ekki gleyma æfingunum því þar geta menn kynnst betur innviðum félagsins og sögu. Einnig eru félagar hvattir til að taka með sér gesti, bæði á fundi og æfingar, því fundir Iðunnar eru öllum opnir.

Starfsemi félagsins fer fram í Gerðubergi sjá kort á ja.is

Þessi færsla var birt í Auglýsingar og merkt sem , . Bókamerkja beinan tengil.

Skildu eftir svar