Félagsfundur og kvæðalagaæfing

Næsti fundur Iðunnar verður haldinn 6. desember og að vanda verður kvæðalagaæfing miðvikudagskvöldið á undan, sem nú er þann 4. desember.

Fjölbreytt og skemmtileg dagskrá er á félagsfundinum, en að þessu sinni kemur Eydís Franzdóttir ásamt Þjóðlagahópnum Gljúfrabúa og flytja þau nokkur lög.

Gljúfrabúi er þjóðlagahópur 7 ungmenna á aldrinum 16-21 árs, sem öll eru núverandi eða fyrrverandi nemendur Tónlistarskóla Kópavogs. Gljúfrabúi hefur sérhæft sig í flutningi íslenskrar þjóðlagatónlistar með söng, hljóðfæraleik, dansi og jafnvel dálitlum rímnakveðskap. Hópurinn er einstaklega vel skipaður ungmennum sem eru mjög fjölhæf í list sinni og hafa þau vakið mikla athygli fyrir geislandi framkomu og frábæran flutning. Hópurinn hefur komið víða fram, m.a. á viðburðum í Byggðarsafni Hafnarfjarðar, á Árbæjarsafni, á Barnamenningarhátíð á Sumardaginn fyrsta í Þjóðminjasafni Íslands, á tónleikum í Gerðarsafni, í Salnum Kópavogi og oft leikið fyrir eldri borgara í Kópavogi og víða í Reykjavík. Gljúfrabúa var boðið til þáttöku í þjóðlagahátíðum í Prag og Karlovy Vary í Tékklandi sumarið 2013 og kom þá einnig fram á Íslandsdegi í Borgarbókasafninu í Prag.

 

Sigurður dýralæknir Sigurðarson ætlar svo að kveða fyrir okkur Höfuðlausn Egils Skalla-Grímssonar undir rímnalagi. Rósa Þorsteinsdóttir mun fræða okkur um kvöldskattinn sem var gefinn á jólaföstunni og kveða kvöldskattsvísur Árna Eyjafjarðarskálds. Við munum svo syngja saman nokkur jólalög sem Rósa Jóhannesdóttir mun stjórna.

Svo má nefna fasta dagskrárliði: skýrsla ritara, látinna félaga minnst, litla hagyrðingamótið, samkveðskapur, kaffi og auðvitað gert að afla Skáldu.

Allir fundir og kvæðalagaæfingar félagsins hefjast stundvíslega kl 20:00 og lýkur kl 22:30. Félagar eru hvattir til að mæta á sem flesta fundi og ekki gleyma æfingunum því þar geta menn kynnst betur innviðum félagsins og sögu. Einnig eru félagar hvattir til að taka með sér gesti, bæði á fundi og æfingar, því fundir Iðunnar eru öllum opnir.

Starfsemi félagsins fer fram í Gerðubergi sjá kort á ja.is

Þessi færsla var birt í Auglýsingar og merkt sem , . Bókamerkja beinan tengil.

Skildu eftir svar