Kveðjur og þakkir frá Ragnari Inga

Ágætu Iðunnarfélagar.

Ragnar Ingi 15. janúar. Mynd Gunnar Kr Sigurjónsson

Innilega þakka ég ykkur fyrir hlýhug og velvild á sjötugsafmæli mínu þann 15. janúar sl. Hópur Iðunnarfélaga stóð upp og flutti mér afmælisvísur eftir þrjá snillinga innan félagsins, þá Helga Zimsen, Höskuld Búa Jónsson og Þórarin Má Baldursson. Vísurnar voru kveðnar undir húnverskri tvísöngsstemmu (nr. 144 í Sílfurplötunum) við afar góðar undirtektir veislugesta.

 

Vísurnar hljóða þannig:

Fjöllum undir fæddist barn
fegið stundi bjargið.
Klettar drundu, hreyfðist hjarn
hátt- var -bundið argið.          (Hösk. Búi)

Rómi þýðum Ragnari
rekkar fríðiur kveða:
Hann er lýðum lagnari
við ljóðasmíð að streða.          (Þórarinn Már)

Vísur klingja í kvæðabing
karls ei þvingast rökin..
Ragnar Ingi ríms við þing
rétt kann slyngu tökin.           (Helgi Z.)

Óðinn snjalla yrkir hann
ekki´ á palli þagnar.
Ljóðs við brallið leika kann
léttur kallinn Ragnar.             (Helgi Z.)

Fyrrum tál var fyllirí
flaska hál í pappa.
Núna skálar aldrei í
alkahálum tappa.                    (Hösk. Búi)

Róm að brýna´ í ræðu kann
röðull skín á svörðinn.
Sigurlínu sinni ann
svo að hlýnar jörðin.               (Hösk. Búi)

 

Um leið og ég sendi ykkur kveðjur mínar og þakkir vil ég nefna við ykkur að mér þótti leitt að hafa ekki tíma til að árita bókina sem mörg ykkar héldu á þegar upp var staðið úr veislunni. Þá var ég önnum kafinn að kveðja gestina (konurnar stóðu í biðröð til að kyssa mig, loksins, eftir sjötíu ár) og ég get ekki hugsað mér að skrifa á bækur mínar undir slíkri pressu. Það verður að vera tími til að gera þetta vel. Þess vegna sting ég upp á því að þau ykkar sem urðuð útundan hvað þetta varðaði komið með bókina á næsta fund, þann 7. febrúar (eða þarnæsta, þann 7. mars) og ég skal með gleði árita fyrir þau ykkar sem vilja.

 

Með hugheilum hjartans kveðjum frá hamingjusömum formanni komnum á áttræðisaldurinn.

Ragnar Ingi Aðalsteinsson

Þessi færsla var birt undir Óskilgreint. Bókamerkja beinan tengil.

Skildu eftir svar