Gyðjuríma Sveinbjörns Beinteinssonar

Á seinasta Iðunnarfundi 7. mars 2014 var samkveðskapur eins og venjulega, sem Rósa Jóhannesdóttir stjórnaði. Oftast nær eru fluttar stemmur af Silfurplötum Iðunnar í samkveðskapnum enda af nógu að taka þar.

Að þessu sinni var breytt aðeins út af vananum og í upphafi samkveðskaps var flutt Gyðjuríma Sveinbjörns Beinteinssonar, en það er gullfallegt kvæði um norðurljósin. Það var flutt við stemmu sem Sveinbjörn kvað við langhendan rímnahátt. Hægt er að hlusta á Sveinbjörn kveða stemmuna hér á heimasíðu Iðunnar, í háttatalinu: Áttunda ríma – Langhent. Sú stemma er aðeins frábrugðin svipaðri stemmu sem flutt er við lagboða 166 Man ég fyrrum þyt á þökum.

Gyðjurímu í samkveðskap Iðunnar má hlusta á hér fyrir neðan, en einnig má lesa rímuna hér neðar. Upptöku gerði Arnþór Helgason.

 

Þó að frjósi foldarsvæði
fögur kjósa lögin má.
Nú skal hrós í nýju kvæði
Norðurljósagyðjan fá.

Þegar ennisleiftrin ljóma
lifnar enn mitt kvæðahrós.
Man ég þennan meyjablóma
meðan brenna himinljós.

Aðeins hefur einu sinni
augum gefist þig að sjá,
skal þó ef ég kveða kynni
kyngistef sú gyðja fá.

Lífsins krefst mín lundin bráða
ljóðið hefst í brjósti mér.
Gyðjan efsta dýrra dáða
dásemd gefst í fylgd með þér.

Oft í náð á aldinkvistum
elskir kváðu fuglar dátt,
ætti ég ráð á ljóðalistum
léki ég bráðum slíkan þátt.

Ljóss þíns undur oft mig dreymdi,
enn á fund þinn vildi ná,
bæði stund og stað ég gleymdi,
sterkri bundinn hugarþrá.

Birtureikull bjarminn skæri
bregður á leik um huga minn,
líkt og feykifaldur væri
fagurbleiki kjóllinn þinn.

Lék í sprettum leifturfimin
logaglettin eina stund,
svifalétt um hugarhimin
hvarflar nett á ljóðs míns fund.

Þegar glansinn allra öfga
auga mannsins hverfur frá
burt þú dansar harmahöfga
hugarlands míns fjöllum á.

Þessi færsla var birt undir Fróðleikur. Bókamerkja beinan tengil.

Skildu eftir svar