Félagsfundur með óvenjulegu sniði og kvæðalagaæfing

Næsti fundur í Kvæðamannafélaginu Iðunni verður í Gerðubergi föstudagskvöldið 9. maí n. k. og hefst kl. 20:00.
Dagskrá þessa fundar verður nokkuð óvenjuleg, því aðalefni hennar verður í höndum góðra gesta. Á fundinum verður kynnt nýleg útgáfa á geisladiski með söngljóðum Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings. Flutning söngljóðanna annast flokkur söngvinnra jarðfræðinga og áhugamanna um söngljóðakveðskap Sigurðar, en söngmenn eru Árni Björnsson, Gunnar Guttormsson, Halldór Ólafsson, Njáll Sigurðsson, Oddur Sigurðsson og Rúnar Einarsson. Með þeim spila á hljóðfæri þrír valinkunnir, en það eru  Reynir Jónasson á harmónikku, Björgvin Gíslason á gítar og Páll Einarsson á kontrabassa. Páll og Halldór hafa orð fyrir hópnum. Kynning þeirra félaga verður bæði fyrir og eftir kaffihlé. Í hléinu gefst fundarmönnum færi á að kaupa geisladiskinn og fylgir honum einnig DVD diskur með kvikmyndaupptökum af Sigurði Þórarinssyni á gosstöðvum íslenskra eldfjalla. Verð á diskasettinu er kr. 4.000.
Auk þessarar kynningar á söngljóðum jarðfræðingsins hagyrta, verða hefðbundnir fastir dagskrárliðir svo sem fundargerð síðasta fundar og félagsmál, litla hagyrðingahornið og samkveðskapur með vísum sem fjalla um íslenska náttúru. Í lokin verður gert að afla í Skáldu.

Á miðvikudagskvöldið 7. maí verður samkvæmt venju kvæðalagaæfing fyrir samkveðskap á fundinum.

 

Þessi færsla var birt undir Auglýsingar. Bókamerkja beinan tengil.

Skildu eftir svar