Matar og borgarvísur

Á fundi Kvæðamannafélagsins Iðunnar 3. október síðastliðinn kvað Þórarinn Már Baldursson vísur um matseldina hjá Guðrúnu konu sinni, auk þess sem hann lýsir upplifun sinni af stórhöfuðborgarsvæðinu. Að lokum kemur hann með lýsingu á flugvallarmálinu og lausn á því út frá sjónarhorni Þingeyinga.

Upptöku gerði Arnþór Helgason.

01 Þórarinn Már – Matar og borgarvísur

Guðrún eldar

Guðrún býr til góðan mat,
gums af besta tagi,
svo á mig borðað get ég gat
ef gaula tekur magi.

Færir hún mér garnagraut,
glás úr kæstri rjúpu,
grásleppu og grillað naut
og grísarassasúpu.

Gufusoðnar gæsatær,
gorkúlur í mysu,
gúrkufylltar gamalær
og glóðarsteikta kisu.

Gullfiska með glassúr á
og geitungslæri hangin.
Hjá Guðrúnu er gott að fá
gúmmelaði í svanginn.

Stórhöfuðborgarsvæðið

Ævinlega á mig blés,
engin von að leita hlés,
og mér líður aldrei spes
akandi um Kjalarnes.

Lít ég andans lambaspörð
labba um á grýttri jörð
slælega af guði gjörð
gangi ég um Hafnarfjörð.

Kastast öll mín gleði á glæ,
græt ég sárt en aldrei hlæ,
og mér varla aftur næ
ef ég þarf í Garðabæ.

Sækja á hugann hrævarlog,
hremma skrokkinn köst og flog,
engist ég með ekkasog
aki ég um Kópavog.

Engan stað ég verri veit,
verri heldur aldrei leit,
það er enda þrá mín heit
að þurfa ekki í Mosfellssveit.

Mér finnst að ég eigi bágt,
úti sé við heiminn sátt
ef á nes eitt lítið og lágt
liggur för í vesturátt.

Hástöfum ég sálma syng
sem og hart við fótum sting,
tek svo stóran krók í kring
um kuldabláan Seltirning.

Fyrir brjóstið fæ ég hland,
finnst um svírann herðast band
og í kvikan sökkvi ég sand
sé mín stefna út á land.

Ný höfuðborg

Reykjavík er ljót og leið
lengst á suðurhjara.
Þangað aðeins út úr neyð
ættu menn að fara.

Ef að norðan góðan gest
gáttir himins senda
á Laugavegi væri best
að vélin myndi lenda.

Þingeyinga þung er sorg
og það af efni gildu;
Húsavík sem höfuðborg
held ég flestir vildu.

 

Skylt efni:

Kveðskapur Þórarins M. Baldurssonar
Afbrigðilegt súrmeti

 

Þessi færsla var birt í Fróðleikur og merkt sem , , , . Bókamerkja beinan tengil.

Skildu eftir svar