Um Hjallalands Helgu

 

Rósa Jóhannesdóttir og Steindór Andersen

Rósa Jóhannesdóttir og Steindór Andersen

Þann 6. janúar 2017, þrettándanum, flutti Rósa Jóhannesdóttir stutt erindi um Helgu Þórarinsdóttur sem kölluð var Hjallalands Helga og kvað tvær rímur eftir hana.

Helga Þórarinsdóttir frá Hjallalandi 1797-1874

Helga fæddist 13. apríl 1797 í Vatnsdalshólum og var dóttir Þórarins Jónssonar og Helgu Eyjólfsdóttur. Helgagiftist Þorleifi Þorleifssyni frá Hjallalandi í Vatnsdal árið 1822. Þau eignuðust 11 börn á 14 árum. Helga andaðist 30. september 1874. Það hefur verið sagt að Helga hafi byrjað snemma að yrkja, en trúlega hefur megnið af ljóðum hennar orðið til eftir að börnin komust upp.  Hún var þekkt undir nafninu Hjallalands-Helga en stundum var hún þó kölluð Skáld-Helga. Lausavísan Litla Jörp með liparn fót er kennd við hana. Erfiljóð sem hún orti eftir tvo syni sína birtust í Norðanfara í júlí 1863. Nokkur ljóðabréf skrifaði Helga og einnig orti hún í það minnsta einar rímur, Rímur af Partalópa og Marmoríu.

 

Rímur af Partalopa og Marmoríu

Fyrsta ríma (Ferskeytt)

Kristinn giftur keisari,
kappi, trúr í geði,
mildur, ríkur, mentauðgi;
Miklagarði réði.

Sínum vinum var indæll,
vitringanna jafni,
í orustum sigursæll;
Sergíus að nafni.

Hans drotningar heiti ei skráð
hefir sagan nýja,
þeirra dóttir þýð með dáð
þó hét Marmoría.

Hyggin létti harmagrein
hugar merkum leiði.
Gullnum ungdómseplum skein,
eins og sól í heiði.

Hún nam trúa á helgann Guð,
hafði á dygðum gætur.
Engann vildi ófögnuð
auka svannin mætur.

Iðnin fylgdi handa hent,
hrunda blómi var ‘ún,
líka stjörnu lærði ment,
langt af öðrum bar hún.

Hafði bæði hug og þrek,
hefja lista framann,
líka fræðin fornu lék,
fínt er svoddan gaman.

Þegar níu vetra var,
vefjan fræningsslóða,
helið sára hjartað skar
hennar föðurs góða.

Hörmuðu lýðir látinn gram,
lands í borgarsölum.
Höldum þeim í huga kvam
að hætta sorgartölum.

Eftir siðum æðstu lands,
ýtar gjörðu muna,
upp á Freyju Fullubands,
færðu kórónuna.

Úr 2. Rímu

Ég er meyjan Marmoría menntaríka
dæmi ég það dirfðin staka
að darra við á mér að taka.

Ræð ég mörgum ríkjum kóngs og rentu þjónum
hertogum, jörlum, herrum fínum.
Hlöðver líka föðum þínum.

Hefirðu ekki heyrt mér getið hér í ríki
hver er þeirrar mektar maki
maður eður sá ég taki.

Rétt fimm hundruð röska hef ég riddarana
ekki kemstu Freyr en fleina
frá mér leyni götu neina.

Hálfu fleiri herlýður með hjörinn stranga
áttu hingað orkuringur
erindiskornið vesalingur.

Þá við meyju mildings arfinn mælti svona:
Ég hræðist ekki hermenn þína,
hreysti þó ei spari sína.

Mínu fjöri fæ ég hlíft með Fjölnis skari
fremdar meira falla væri
fyrir þeim sem nokkuð hræri

Veit ég þó að völd ert þú af villum mínum
fyrir svoddan að mér einum
ættir þú að mæta skeinum.

Þér skal verða þrágoldið með þeirri vissu
hér í hvílu meydóm missa
munninn á þér líka kyssa.

 

Þessi færsla var birt í Fróðleikur og merkt sem , . Bókamerkja beinan tengil.

Skildu eftir svar