Októberfundur og kvæðalagaæfing

Fyrsti félagsfundur vetrarins hjá Kvæðamannafélaginu Iðunni, verður  haldinn föstudaginn 5. október og kvæðalagaæfingin verður miðvikudaginn 3. október.

Að venju er fjölbreytt dagskrá á októberfundinum.

Hildigunnur Einarsdóttir og Bergþóra Einarsdóttir flytja erindi um Einar Kristjánsson harmonikkuleikara og afa Hildigunnar. Tvöföld harmonikka var sérsvið hans og fá áheyrendur að heyra nokkur tóndæmi af leik hans. Árið 1979 gaf SG út hljómplötu þar sem Einar leikur 30 lög ásamt Garðari Jakobssyni fiðluleikara.

Úr haustferðinni. Á Sögusetrinu og er af yngsta ferðafélaganum honum Huldari.

Úr haustferðinni. Á Sögusetrinu og er af yngsta ferðafélaganum honum Huldari.

Sagt verður frá haustferð félagsins um Njáluslóðir, í bundnu og óbundnu máli, nokkrir kvæðamenn flytja.

Ragnar Ingi Aðalsteinsson sér um bragfræðihornið

Í lok dagskrár verður flutt þjóðlagatónlist og kveðskapur, flytjendur m.a. Linus Orri Gunnarsson Cederberg og Rósa þorsteinsdóttir.

Eftirtaldir fastir liðir verða á sínum stöðum: litla kvæðamannamótið, samkveðskapur í umsjón Rósu Jóhannesdóttur og litla hagyrðingamótið og Skálda í umsjón Helga Zimsen.

Félagar eru hvattir til að mæta á sem flesta fundi og ekki gleyma æfingunum því þar geta menn kynnst betur innviðum félagsins og sögu. Einnig eru félagar hvattir til að taka með sér gesti, bæði á fundi og æfingar, því fundir Iðunnar eru öllum opnir.

Kvæðalagaæfingar og fundir Iðunnar fara fram í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi sjá kort á ja.is og hér.

Eins og fram kom í síðasta fréttablaði Iðunnar, ætlar félagið  að brydda upp á nýjungum í vetur og hefja söngvökur á þriðjudagskvöldum einu sinni í mánuði, sem verða undir stjórn Chris Fosters, formanns þjóðlaganefndar, og Linusar Orra Gunnarssonar Cederborg og verða þær til húsa í Andrými á Bergþórugötu 20. Þar verða sungin og kennd ýmis þjóðlög t.d. tvísöngvar.

Athugið að þriðjudaginn 16. október kl. 19:00 verður fyrsta Söngvakan í Andrými,

Einnig ætlar Iðunn að hefja samstarf við Reykjavík – „trad session“ en þau eru með þjóðlagasamspil vikulega á fimmtudagskvöldum á Kaffihúsinu Stofunni, í kjallaranum, en það er til húsa á Vesturgötunni rétt ofan við hornið á Aðalstræti, þar sem „Fríða frænka“ var. Við stefnum að því að nokkrir Iðunnarfélagar komi fram með kveðskap og tvísöng einu sinni í mánuði. Fólki er þó líka velkomið að koma fram á öllum öðrum fimmtudagskvöldum. Fyrsta Þjóðlagasamspil með kveðskap verður fimmtudaginn 18. október kl. 20:00.

Þessi færsla var birt undir Auglýsingar. Bókamerkja beinan tengil.

Skildu eftir svar