Nýtt tímarit – Stuðlaberg

Nýtt tímarit, Stuðlaberg, mun koma út á næstu vikum. Ritið mun til að byrja með koma út tvisvar á ári, haust- og vorhefti. Hvort hefti kostar í áskrift kr. 850, árgangurinn kr. 1700. Ritið verður 32 blaðsíður að stærð.

Í Stuðlaberginu verður fjallað um vísnagerð samkvæmt fornum bragreglum og allt það sem snertir hefðbundið bragform yfirleitt. Þar verða viðtöl við hagyrðinga og vísur þeirra birtar, aðsendar greinar eftir áhugafólk um hvaðeina er lýtur að kveðskap, þar verða stuttar og aðgengilegar greinar um bragfræðileg efni og gamlar vísur og nýjar verða birtar ásamt ýmiss konar umfjöllun um tilurð þeirra. Reynt verður að hafa efnið ekki það fræðilegt að það vefjist fyrir almennum lesendum að lesa það og njóta þess. Jafnframt verður þess vel gætt að hvergi sé vikið frá fræðilegum kröfum þannig að allt það sem birt er standist ströngustu rýni.

Þá mun grunnskólinn eiga fastan sess í ritinu. Ætlunin er að í hverju hefti sé þáttur þar sem nemendur grunnskólanna verða í sviðsljósinu. Sagt verður frá heimsóknum í skólana og birtar vísur eftir nemendur. Birt verður ýmiss konar efni fyrir yngri kynslóðina, vísnagátur, botnakeppni og önnur verkefni sem tengjast bragnum; þar verður hægt að senda inn lausnir og vinna til verðlauna.

Megintilgangur ritsins er að styrkja og styðja við hið hefðbundna ljóðform. Ritstjóri og ábyrgðarmaður er Ragnar Ingi Aðalsteinsson, aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og formaður Iðunnar.

Áskrift er hægt að panta á ria@hi.is

Þessi færsla var birt í Auglýsingar og merkt sem , . Bókamerkja beinan tengil.

1 Response to Nýtt tímarit – Stuðlaberg

  1. Sigurður Þór Bjarnason sagði:

    Mér lízt vel á þetta og langar að gerast ásrkifandi.

    Sigurður Þór.

Lokað er á athugasemdir.