Fljúgandi kýr og fleira

Á fundi í Kvæðamannafélaginu Iðunni fyrir um tveimur árum kvað kvæðakonan Rósa Jóhannesdóttir vísur eftir mann sinn Helga Zimsen. Voru það jöfnum höndum öfugmælavísur, vetrarsonnetta og sitthvað annað sem gladdi eyru og hjörtu hlustenda.

Hljóðrit þetta er birt með samþykki Rósu, Helga og Arnþórs Helgasonar sem sá um upptöku.

 

Hér má svo lesa stökurnar sem fluttar eru og eru eftir Helga (nema annað sé tekið fram).

Sónarhafið synt ég get,
svamla að ljóðum fínum.
Flækist oft í internet,
óðar- festist -línum.

Haglið snöggt af himni fló,
hamast við að falla.
Haustið þar með kaldri kló
krafsað gat í skalla.

Öðrum þóttist æðri í smekk
og átti nóg af frösum.
Brattur oft um borgir gekk,
uns brann af sól í nösum.

Þó að æskan færist fjær
finnst mér rétt að þakka
að löng er bið uns elliær
enda á grafarbakka.

Ort við gluggan

Vötn um loft með vindum smjúga
valda skugga
Áðan sá ég fiska fljúga
fram hjá glugga.

Inni sat við ótal verk er
ei skal telja,
fann hve vindátt feikisterk er
-fauk hjá belja.

Gott í hlýju er glugga að brúka,
glyrnum róla
á barnahóp um himinn fjúka
heim úr skóla.

Virðir fólkið veðrið gáttað
virðar fuma.
Finnst mér von að fari brátt að
fjúka í suma

—-

Ég landann í staupið læt streyma
og stöðugt ég brugga og eima,
í dýrlegum friði
ég dreypi á miði
og gubba í garðinum heima. (Davíð Hjálmar Haraldsson)

Áfengi sem úr þér flýr
oní vömb má þræla.
Flaskan er svo fjandi dýr
– fæstir tíma að æla.

Mikill veittist vinnufriður,
veðrin þó að blésu grimm.
Ekkert skvaldur, enginn kliður
eftir 14:25

Höfði þeytist húfan frá
hárin toga í leður
höfuðs sem að hugsar þá
hér er íslenskt veður.

Dísel baulið bylur þá
byrjað er að ræsa
einnig bensínbykkjan má
brenndu lofti fnæsa.

Malbikssvínin fús og frá
forarpollum skríða
drullumallið drjúgust sá
dreifist slabbið víða.

Svellum dansa dekkjakýr
drynja þar og spretta
göslast þessi götudýr
úr gúmítuðrum sletta.

Nú hvæsir norðrið nöprum vindum stríðum
en nístingskaldar öldur háar frýsa
með fyrirheit um frost og kalda ísa
sem fergja allt á landi, strönd og hlíðum.

Ó, helköld senn um hrímgar götur líðum
og hnjótum svo um klakabyng til jarðar
er kyssum þá með kalnar varir marðar
Komumst svo ekki á fætur – áfram skríðum.

Váboðinn hrjúfi, vindur norðurs ber
með vetrarhríðum nefrennsli og kveisu
svo hóstagelt og horið varla dvín.

Heilsan mun dvína, dimman felur sker,
drattast menn um sortans vegaleysu.
Uns daginn lengir, lúft þá sólin skín.

Þessi færsla var birt í Fróðleikur og merkt sem , , , . Bókamerkja beinan tengil.

Skildu eftir svar