Kveðskapur Þórarins M. Baldurssonar

Á aðalfundi Kvæðamannafélagsins Iðunnar þann 8. mars síðastliðin var kosinn nýr stjórnarmaður, Þórarinn M. Baldursson, en Bjarni Valtýr Guðjónsson gjaldkeri lét af embætti eftir 15 ára starf í þágu félagsins. Við þökkum honum kærlega fyrir vel unnin störf.

Á aðalfundinum kvað hinn nýji stjórnarmaður eigin vísur, sem hann kallar Mansöngur óortra rímna. Hann veitti okkur góðfúslegt leyfi til að birta kvæði sín og hljóðrit þar sem hann kveður þau.

Mansöngur

Ef þú vildir vera svo
væn að þagna góða,
eg skal kveða á við tvo
obba minna ljóða.

Gleðja mun þig mærin best
minna stefja kliður
ef þú gætir aðeins sest
örstund hjá mér niður.

Brátt frá mansöng mér ég vík,
mína spyr ég vinu:
Væri hugmynd slæm, sem slík,
að slökkva á sjónvarpinu?

Heyrðu bjarta baugalín,
byrjar núna ríman.
Litla hjartans ljúfan mín,
leggðu frá þér símann.

Mansöngur

Nú skal vinda tungu af tönn,
tón frá þind upp neyða,
vísur mynda í óða önn,
öllum hrinda leiða.

Nú skal splæsa í nýjan brag,
þótt nísti svæsin kreppa.
Enn skal ræsa, öld í hag,
Ónars glæsijeppa.

Hér skal kveða hátt og snjallt
hölda gleði fylla,
vísum spreða villt um allt,
vífin geðug trylla.

Upp þá hefur halur seim
hans mun gefa á færi;
svanni vefur sér að beim
sem einn trefill væri.

Ljóðin yngja anda manns
ort af Þingeyingum.
Fljóð í hringi hefja dans
hagyrðinginn kringum.

Með Óðins kassa-víni er von
að vinna kjass af skvísum.
Fjalars Massey-Ferguson
flytur hlass af vísum.

Mansöngur

Einatt gerist örg mín lund,
erfið hver mín vökustund,
sæll þó er í sætum blund,
svefninn ber mig á þinn fund.

Regnið ljóra lemja fer
sem lúskri Þór á jötnaher
en draumsins órar dilla mér
ég dreypi á bjór í örmum þér.

Um foldar græna gólfteppið
göngum hænuskrefum við,
á þig mænir mannfólkið,
missir rænu, stórhrifið.

Fegurð þrestir þína sjá,
þessa mestu er heimur á,
áti fresta á ormum þá,
æstir bresta í söngdagskrá.

Þýtt um hvarma þinna glóð,
þrýstinn barminn, lokkaflóð,
mjúka arma, eðla fljóð
ærnar jarma fögur ljóð.

Inn um féð svo frítt og hraust,
flösku með sem hald og traust,
sjálfur kveð ég karlmannsraust
kvæðin geðug, feimnislaust.

Út um grundir graðhestar,
geitur, hundar, urriðar,
teistur, lundar, tittlingar,
taka undir stemmurnar.

Mansöngur

Uppfyllt þrár ég engar fæ,
eins þótt sáran gráti.
Lífs á táralind ég ræ
lekum árabáti.

Í litlu spili í lífsins kró
Lofnar-yl ég syng um.
Heldur vil ég herðast þó
heims í tilhleypingum.

Faldatróðu yrki ég óð
einn um hljóðar nætur,
en hún ljóðin undurgóð
ei sér bjóða lætur.

Úrið tifar, enn er nótt,
engum skrif mín falla.
Andinn bifast aðeins þótt
annað lifi valla.

Litli vísir sýnir sex,
sólar lýsir glæta,
lund mín rís og löngun vex
ljóðadís að kæta.

Lengist dagur, dafna blóm,
deyfir bagan trega,
konum brag með kátum róm
kveð ég fagurlega.

Vorið bjarta við mér hlær,
veðri skartar fínu,
en í hjartað efinn fær
áfram nartað pínu.

Fugla-angar fara á stjá,
fylla svangir iður,
sólin hangir himni á,
hana langar niður.

Fljóð þá heyra kvæðaklið
með kærleiks meyrum votti,
skollaeyrum skella við
og skarta seyruglotti.

Ei ég linni látunum,
ljóðin tvinna saman,
reyni að sinna ekki um
að engum finnist gaman.

Sumrið líður, líka haust,
lag í hýði að skríða.
Vífin blíð á vora raust
vilja síður hlýða.

Nóttin lengist, völt sinn veg
vonar gengur skíman,
dapur engist aleinn ég
yfir fengitímann.

 

Þessi færsla var birt í Fróðleikur og merkt sem , , . Bókamerkja beinan tengil.

1 Response to Kveðskapur Þórarins M. Baldurssonar

  1. Þessi síða er Stjórn Iðunnar til mikils sóma.

Skildu eftir svar