Litla hagyrðingamótið, þann 8. mars

Á fundi Iðunnar þann 8. mars síðastliðinn var að venju haldið hið svokallaða Litla hagyrðingamót.

Hagyrðingar á palli voru Ingi Heiðmar Jónsson,  Sigurður Sigurðarson og Steindór Andersen.

Yrkisefni voru: þeir – þær – þau.

Allir mættu og Ingi Heiðmar hafði að auki vísur frá Jóa í Stapa sem þykir sjálfkjörinn varamaður eða aukamaður þegar færi gefst.

Hér má hlusta á hagyrðingamótið, en einnig má lesa það hér fyrir neðan:

 

Ingi Heiðmar flutti:

Jói í Stapa orti:

Hann
Hann var fyrr af guði gerður
gladdur af englahjörðinni.
Taldist til þess vera verður
að veita umsjá jörðinni.             JG

Hún
Hún hlaut seinna af hérvist kynni
hlaðin seim til fjölgunar
en efnisnotkun öllu minni
af einu rifi sköpuð var.             JG

Þau
Þau hafa síðan saman gengið
sóknin beggja djörf og hörð.
Enda skipun æðsta fengið
að eiga að fylla þessa jörð.   JG

Ingi Heiðmar Jónsson orti sjálfur:

Þeir – þær
Yrkja gjarnan þeir um þær
og það sem var í fyrra og gær
eða um vor og vænar ær
vers er drjúgu flugi nær.   IHJ

Birtast þau er hún og hann
hreiður flétta í sama rann
smjörið rann og roðið brann
rekkurinn óf en snótin spann.  IHJ

Steindór orti:

Þau:

Stefjahrun – samrímað

Krafsa eg í kumlahaug
kveð upp gamlan draug;
amma sjaldan að mér laug
orðin héldu þaug.       S.A.

En svo hefur Steindór heyrt móður sína mæla og kannast sumir við frá eldri kynslóðum, þ.e. að notað sé orðið þaug með géi í endann.

Þær:

Um þær vil ég yrkja ljóð.
Öllum til hrellingar;
voru í byrjun fögur fljóð
forljótar kellingar.   S.A.

Þeir:

Þeir sem voru áður ungir
ákaflega fimir gengu;
urðu seinna þykkjuþungir
þreyttir niður limir héngu.  S.A.

Sigurður hafði gleymt því að hann væri á dagskrá en snaraði fram hér um bil á staðnum:

Þeir:

Þeir sem ljúfa hringahrund
hneppa í faðmi sterkum,
eiga marga unaðsstund
oft í næturverkum.

Þær:

Þær sem eiga ungan svann
og ásta vilja njóta –
Ætti að setja ekki í bann
utan nokkurs kvóta.

Þau:

Þau sem unnast eiga gott
ekki er nokkur vafi –
Hvorki um það háð né spott
hafðu – sagði afi.

Þeir eru að horfa á þær og hugsum
að þau væru sjálfsag betri í buxum.

Næstu yrkisefni eru: Blíða – blástur – bylur.  Hagyrðingar: Arnþór Helgason, Höskuldur Búi og Þorvaldur.

Þessi færsla var birt í Fróðleikur og merkt sem , . Bókamerkja beinan tengil.

Skildu eftir svar