Kvæðamenn kveða vísur Gísla Ólafssonar

Ingimar Halldórsson og Arnþór Helgason

Á síðasta félagsfundi var að venju skemmtileg dagskrá.

Eitt af því sem gladdi eyru viðstaddra var kveðskapur Ingimars Halldórssonar annars vegar og hins vegar kveðskapur Ingimars og Arnþórs Helgasonar, en þeir þóttu kveða einstaklega vel, enda góðir kvæðamenn.

Þær vísur sem kveðnar voru, eru úr smiðju Gísla Ólafssonar (1885–1967) kvæðamanns og skálds frá Eiríksstöðum í Svartárdal í Austur-Húnavatnssýslu. Áður en þeir félagar kváðu, fór Kristján Eiríksson með tölu um Gísla.

Gísli var afar snjall hagyrðingur og komu út eftir hann þessar ljóðabækur: Ljóð (1917), Nokkrar stökur (1924), Ljóð 1929, Heiman úr dölum (1933), Á brotnandi bárum (1944). Sú bók var endurprentun fyrri bóka hans ásamt nýjum ljóðum. Inngangsorð fyrir þeirri bók skrifaði Jón Pálmason. Síðasta ljóðabók Gísla var Í landvari (1960) og skrifaði Rósberg G. Snædal formála fyrir henni.

Hér fyrir neðan má hlusta á kveðskapinn, en einnig lesa þær vísur sem fluttar voru.

 

Svartárdalur, eftir 40 ára fjarveru (brot)

Nú skal finna fagran dal,
fækka kynningarnar.
Hugans inn í hljóðum sal
hreyfast minningarnar.

Hér ánægja lífs var léð,
lækurinn hægir sönginn.
Aldrei fæ ég aftur séð
öldnu bæjargöngin.

Horfinn dagur æsku er
eigin hag að styðja.
Fyrstu laga lét mig hér
ljóðin bragargyðja.

Glöð var stund um æskuár,
ei fékk lundin kviðið.
Hér um grund á góðum klár
gat ég stundum riðið.

Breyting skjót, sem orðin er,
öll til bóta standi.
Á æskumót ei oftar fer,
orðinn fót-gangandi.

Dagsins glóðin dvína fer,
dimma óðum tekur.
Föður-  og móður-minning hér
moldin hljóða vekur.

Ég er sekur, sveit mín kær,
sviða vekur aminn.
Enginn tekið aftur fær
æskubrekin framin.

Kemur gjóla kvölds um bil
köld frá bóli ránar.
Finn ég sólar- eyddan yl,
allar fjólur ránar.

Drungi þreytir, drúpa ský,
daginn veit ég liðinn.
Þráin leitar aftur í
æsku sveitafriðinn.

Kvíðablandin blika tár,
beiskju vandinn safnar.
Margar andans æskuþrár
eru í sandinn grafnar.

Ef að brestur innri ró,
ýmsu er bezt að gleyma.
Söknuð verstan veitir þó
að vera gestur heima.

Minning geymist hugljúf hér,
hvar sem sveimar öndin.
Hjartað keim af klökkva ber,-
kveð ég heimalöndin.


Æskustöðvarnar, Kveðið á Ísafirði 1917, (brot)

Ef á borðið öll mín spil
ætti ég fram að draga,
held ég yrði skrítin skil
á skuldum fyrri daga.

Leitt er að ala aldur hér,
una skal þó glaður.
Svartárdalur alltaf er
andans dvalarstaður.

Minning varnað mér ei skal,
margt þó harðna kunni.
Lýsti þarna í ljúfum sal
ljós yfir barnæskunni.

Hryggð ég gat og fögnuð fyllst
fundið, glatað, brotið;
áfram ratað einnig villst
elskað, hatað, notið.


 

Heim (brot)

Máist varla minningin,
mjöll þó falli um dalinn;
hún er að kalla huga minn
heim í fjallasalinn.

Sól og gróður sælunnar
svæfðu óðar harminn;
ylinn góða átti ég þar
upp við móðurbarminn.

Yndisgagurt allt þá var
auðnhag að styrkja;
fyrstu laga lét mig þar
ljóðin bragagyðja.

 

Drangey (brot)

Drangey sett í svalan mar
sífellt mettar snauða.
Báran létta leikur þar
ljóð um Grettis dauða.

Að eyrum leggur ramma raust,
ruggar seggjum alda.
Brimið heggur hlífðarlaust
hamraveggi kalda.

Lifni vonin ljúf og mild
lækkar mótgangsandinn.
Ertu sál mín eitthvað skyld
öldunum við sandinn.

 

Lóan og vorið (brot)

Úti sólareldur skín
aukast gleðiföngin.
Komdu litla lóan mín
og lát mig heyra sönginn.

Sérhver elskar sól og yl
í sælu kýs að búa.
Við eigum flestir vilja til
með vorinu að fljúga.

Ljósið þíðir lífsins hjarn
lifna blóm í spori.
Ég get alltaf orðið barn
aftur, á hverju vori.

 

Lækurinn, Æskuminning

Ég er að horfa hugfanginn,
í hlýja sumarblænum,
yfir litla lækinn minn,
sem líður fram hjá bænum.

Ó, hve marga æskustund
áður hér ég dvaldi,
saklaust barn með létta lund,
og leggina mína taldi!

Bæ ég lítinn byggði þar
og blómum utan skreytti.
Yfir tún og engjarnar
oft ég læknum veitti.

Nú er ekkert eins og fyr,
á öllu sé ég muninn:
löngu týndir leggirnir
og litli bærinn hruninn.

Æskan hverfur. Yndi dvín.
Alt er líkt og draumur.
Áfram líður æfin mín
eins og lækjarstraumur.

Meðan æðum yljar blóð,
og andinn má sig hræra,
skal ég syngja lítið ljóð
læknum silfurtæra.

Þegar ég er uppgefinn
og eytt hef kröftum mínum,
langar mig í síðsta sinn
að sofna’ á bökkum þínum.

Þessi færsla var birt í Fróðleikur og merkt sem , , . Bókamerkja beinan tengil.

Skildu eftir svar