Þingeyskar vorvísur – Þórarinn kveður

Á fundi Kvæðamannafélagsins Iðunnar 8. maí  síðastliðinn kvað Þórarinn Már Baldursson Þingeyskar vorvísur.

Upptöku gerði Arnþór Helgason.

Vorvísur – Þórarinn Már Baldursson kveður

Þingeyskar vorvísur

Þingeyskar vorvísur

(Skaðafrost með skafrenning,
skammt frá bænum glórir,
kollheiður en kring í hring
klakkabakkar stórir)
Þorgrímur Pétursson, Nesi

Svört þó hríð um sumarmál
syngi kvíðaljóðin,
færa þýðu þreyttri sál
þrasta- blíðu ljóðin.

Hnípnir þröngan hafa kost,
háðir ströngum raunum,
þeir sem löngum fjúk og frost
fá að söngvalaunum.
Egill Jónasson

Þó að úti enn sé kalt
óðum fer að hlýna.
Sólin hefur eftir allt
ákveðið að skína.

Blessuð litlu lömbin sér
leika í fjárhússkrónum.
Ennþá foldin fríða er
falin undir snjónum.
ÞMB

Eftir þetta þrautastríð,
þessar löngu nætur,
birtist sól og sælli tíð.
Sumar hlær og grætur.

Þá mun aftur örfast blóð
úti í sumarblænum.
Þá skal sest og sungið ljóð
sunnanundir bænum.

Hæst er sumarsólin skín,
söngva mína vekur,
kemur einhver út til mín,
undir við mig tekur.
Grímur Sigurðss. Jökulsá


Glóey kaldan kyssir hnjúk,
kveður allt sem lifir;
fagurrauðan dregur dúk
dimmblátt hvolfið yfir.
Jóhannes Guðmundsson, Húsavík

Sólin yljar mó og mel,
mönnum léttir sporin.
Svellin gráta sig í hel,
-sárt er að deyja á vorin.
Kristján Ólason, Húsavík

Felur vorsins fyrstu drög
fljót við bakka og skarir.
Einatt þiðna ísalög
áður en manninn varir.

Sól í fang í víða vang
vermir langar stundir.
Lög og tanga, lón og drang
leggur vanga undir.

Grænka hlíðar, glóa sund.
Grundir skrýðast allar.
Dregur lýð á lilju fund
litaprýði vallar.
Sigurjón Friðjónsson, Sandi

Litlir fætur fara á ról,
fölgrænt strá er étið.
Bröltir út á bæjarhól
blessað dilkaketið.

Skógarþröstur grein af grein
gáskafullur stekkur.
Tvíræð vísa ein og ein
af hans goggi hrekkur.
ÞMB


Sól af bárum brosir hlý.
Bjarmi gljár á hæðum.
Drúpir smáradrósin í
daggartára slæðum.

Hljóðskraf vinda hlýða á
hjörtu yndisfegin.
Fjöllin mynda sig í sjá
sólarlindum þvegin.

Glitvefsklæðin grundar öll
geislaþræðir sauma.
Langt um græðis leggur völl
ljóssins æðastrauma.
Árni Sigurðsson, Húsavík

Aldrei þó að eygi sýn
andinn nógu bjarta
blessuð lóa, ljóðin þín
leiða fró í hjarta.

Máske ég fái að fylgja þér
fram á bláar leiðir.
Yfir háa hrönn og sker
hugann þráin seiðir.

Þó að bakið bogni mitt,
bresti þróttinn fætur,
blessað kvakið þetta þitt
þýðir hjartarætur.
Björg Pétursdóttir, Húsavík

Þessi færsla er flokkuð undir Fróðleikur og skilgreint sem . Bókmerktu fasta tengilinn.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *