1. Kveðskapur í sögulegu samhengi.

Kveðskapur verður að teljast elsta þekkta tónlistariðkun Íslendinga. Kvæðamennskan á 19. og fram á 20. öld fór að mestu fram á kvöldvökum í baðstofum torfbæjanna, ef marka má heimildir,[1] þar sem heimafólkið sat við vinnu sína og gesturinn (eða heimamaðurinn) kvað rímur eða stökur. Seinna meir, þegar útvarpið kom til sögunnar má segja að það hafi haldið fram hefðbundnum aðstæðum kveðskaparins, þannig að úr útvarpinu heyrðist í einum kvæðamanni[2] (í einu) og heima sátu hlustendur, gjarnan með handavinnu. Í millitíðinni var Kvæðamannafélagið Iðunn stofnað, þar sem kvæðamenn komu fram við allt aðrar kringumstæður: þeir stóðu einir á sviði, fyrir framan áheyrendur sem höfðu greitt aðgangseyri/félagsgjald, í sal sem greidd var leiga fyrir.

Margir góðir kvæðamenn urðu þekktir í sínu nærsamfélagi og sumir um land allt. Jón Lárusson var líklega þekktasti kvæðamaðurinn á þeim tíma sem Kvæðamannafélagið Iðunn var stofnað, og hann var fljótlega kosinn heiðursfélagi þess. Það er ekki ólíklegt að tónleikahald Jóns og barna hans í Reykjavík á árunum 1928-1930 hafi beinlínis stuðlað að stofnun Iðunnar. Jón hélt marga kvæðatónleika á þessum árum, ýmist einn eða með börnum sínum. Tónskáldið Jón Leifs hljóðritaði kveðskap nafna síns árið 1925 og hvatti hann til að kveða opinberlega.  Jón Lárusson var eini kvæðamaðurinn sem boðið var að kveða á Alþingishátíðinni á Þingvöllum árið 1930.

Jón-Lár-og-börn-copy2.jpg

Talið er að kvæðamaður hafi kveðið annað hvort upp úr bókum eða eftir minni, ýmist heilar rímur eða lausavísur, við ýmsar stemmur. Líklega hafði kvæðamaðurinn sínar eigin stemmur og notaði jafnvel sömu stemmuna við marga bragarhætti með því að laga hana að hrynjandi hvers háttar. Þó hafa ýmsar stemmur orðið landskunnar og skilað sér gegnum tíðina en margar þeirra má sjá í bók Bjarna Þorsteinssonar Íslenzk þjóðlög og í Silfurplötum Iðunnar, og heyra á upptökum Iðunnar auk fjölda annarra á www.rimur.is og www.ismus.is .

Kvæðamannafélagið Iðunn var stofnað í Reykjavík árið 1929 af fólki sem flust hafði þangað í atvinnuleit um og uppúr aldamótum. Félagið hefur starfað óslitið síðan. Veturinn 1935-6 lét félagið gera upptökur af 200 kvæðalögum (stemmum) á silfurplötur sem var fullkomnasta hljóðritunartækni þess tíma. Þetta voru allt stemmur sem félagsmenn kunnu og höfðu kennt hver öðrum frá stofnun félagins. Félagið lét gera tvö sett af silfurplötunum og var annað þeirra fært Þjóðminjasafni Íslands til varðveislu, en hitt var í vörslu félagins og var notað til að rifja upp stemmurnar og kveðskapinn á hverju ári í mörg ár eftir að upptökurnar voru gerðar. Eintökin sem til voru á Þjóðminjasafni voru síðar nýtt þegar Kvæðamannafélagið Iðunn ákvað að gefa þessar stemmur út á diskum og í bók, í tilefni af 75 ára afmæli sínu árið 2004. Bókin heitir Silfurplötur Iðunnar, í ritstjórn Gunnsteins Ólafssonar. Í doktorsritgerð minni Deep Freeze: The social and musical influence of the Idunn Society on the Icelandic rímur tradition,[3] geri ég grein fyrir áhrifum Kvæðamannafélagsins Iðunnar á kveðskaparhefðina.

Á síðustu árum hafa fleiri kvæðamannafélög verið stofnuð, svo sem Gefjun á Akureyri, Árgali á Selfossi, Ríma á Siglufirði, Gná í Skagafirði og nú síðast Snorri í Borgarfirði, auk landssamtaka kvæðamannafélaga, Stemmu. Þessi félög hafa notað Silfurplötur Iðunnar til að læra kveðskap. Um það er allt gott að segja, en það verður samt að benda á að í hljóðritasafni Þjóðfræðasafns Stofnunar Árna Magnússonar er til miklu fjölbreyttara efni en Silfurplöturnar geyma. Í þessu kveri er byggt á stemmum af Silfurplötunum, vegna þess að bæði stemmurnar sjálfar og allar upplýsingar um þær eru aðgengilegar á heimasíðu Kvæðamannafélagsins Iðunnar.

2. Kveðandi. – Skilgreiningar.

Listin að kveða er sérstök um margt. Hún snýst, í stórum dráttum, um flutning kvæðamannsins á texta og laglínu; vísu og stemmu. Enn nákvæmara væri að segja að vísa sé flutt með, eða á, stemmunni. Það eru skiptar skoðanir á því hvað þykir fallegast, sem vonlegt er, því smekkur okkar er misjafn. Í doktorsverkefni mínu ræddi ég við nokkurn fjölda kvæðamanna og þar kemur fram að sumum fannst að einungis þeir sem hefðu dökkar raddir, þ.e. alt eða bassa/baritón, gætu kveðið fallega, á meðan öðrum fannst ljósar raddir, þ.e. sópran eða tenór, vera allra fallegastar. Gera má ráð fyrir að fleiri atriði skipti máli þegar við mótum smekk okkar á kveðandi: þar má fyrst nefna skýrleika í framburði svo að áherslur á orðin sem kveðin eru séu þannig að innihald textans komist auðveldlega til skila. Þarna þarf bæði að gæta að almennum skýrum framburði orða, en einnig því hvar í vísunni orðið stendur, hvort það er í hákveðu eða lágkveðu, hvort það ber í sér afgerandi merkingu fyrir samhengi textans og hvernig það stendur í sambandi við ljóðstafi og rím. Það er augljóst að smekkur félagsmanna í Kvæðamannafélaginu Iðunni árið 1935-6 hefur verið nokkuð fjölbreyttur, þegar stíll kvæðamannanna sem fengnir voru til að kveða inn á silfurplöturnar er skoðaður. Þetta eru 13 kvæðamenn, sem ég hef skipt niður í þrjá hópa.[4]

Eftir að hafa hlustað á allar stemmurnar sem hver kvæðamaður kveður, skilgreindi ég þessa hópa sem I. “söngvara”, II. “hálf-söngvara” og III. “kveðara”. “Söngvara” hópinn skilgreindi ég þannig vegna þess að raddbeitingin er eins og hjá einsöngvurum eða hverjum þeim sem syngur fullum hálsi og lætur tónana njóta sín til fulls, og hefur langa sérhljóða. “Kveðara” skilgreindi ég sem þá sem eru á hinum endanum, þ.e. láta textann hafa forgang, syngja ekki fullum hálsi, heldur tengja textann (og þar með laglínuna) þétt saman á andardrættinum, og skreyta gjarnan laglínuna þar sem það á við. Þessi hópur á það einnig sameiginlegt að hafa aðra tóna í röddinni en þeir sem aldir eru upp við að hlusta á tónlist í útvarpi og syngja eftir nótum. “Hálf-söngvara” skilgreindi ég þarna mitt á milli: stundum eru þeir nær kveðurum og stundum nær söngvurum.

Þessi greining er alls ekki dómur um hlutaðeigandi kvæðamenn, heldur tilraun til að skoða raddbeitingu þeirra og meðferð á texta, þannig að það megi koma nýjum kvæðamönnum að notum.

Danski þjóðfræðingurinn Svend Nielsen birti rannsókn sína á kvæðamanninum Þórði Guðbjartssyni á bók 1982[5] og skýrði þar meðal annars frá tilraun sem hann gerði til að greina hver munurinn væri á upplestri, söng og kveðskap. Þessi rannsóknaraðferð er kölluð “spectral analysis” á ensku, eða hljóðrófsgreining, og hún mælir hér tónlengdina í mannsröddinni við mismunandi raddbeitingu. Niðurstaðan sýnir ótvíræðan mun á þessu þrennu: tónlengdin verður lengst í söng, mun styttri í kveðskap og langstyst í upplestri.

Þegar hlustað er á kvæðamenn er gott að hafa í huga að þeir sem fæddir voru á síðustu áratugum 19. aldar ólust ekki upp við að heyra vestræna klassíska tónlist að neinu ráði og þess vegna má gera ráð fyrir að tónheimur þeirra og hljómhugsun hafi verið töluvert frábrugðin því sem nú er. Sú tónlist sem maður elst upp við hefur mikil áhrif á það hvernig maður syngur sjálfur, og hvernig hugmyndir manns eru um hvað er “rétt” eða “hreint” og hvað er “falskt” þegar kemur að því að mynda sér skoðun á söng annarra. Þjóðir heims hafa ólíka tónhugsun sem kemur til af því að það er leikið á ólík hljóðfæri, sem eru stillt í alls kyns skölum (tóntegundum) sem okkar vestrænu nútímaeyru hafa kannski aldrei heyrt. Áður en Ríkisútvarpið hóf að útvarpa vestrænni “klassískri” tónlist höfðu fáir Íslendingar heyrt slíkt. Raddbeiting elstu kvæðamanna Iðunnar er því mjög frábrugðin raddbeitingu þeirra yngri. Þetta heyrist best þegar bornir eru saman þeir sem eru í flokki I og í flokki III. Þeir sem lenda í miðjuflokknum, samkvæmt minni greiningu, hafa ýmislegt sem minnir á þá eldri, en beita engu síður röddinni á sama hátt og þeir yngri, og þeir sem ólust upp við vestræna klassíska hljómahugsun.

Hlustum nú á kvæðamenn úr þessum þremur flokkum:

Hópur I “kveðari”:

Sigríður Friðriksdóttir. Rödd hennar liggur fremur hátt, þ.e. hún myndi flokkast sem sópran. Sigríður er ein hinna fjögurra systkina sem ásamt öðrum stofnuðu Kvæðamannafélagið Iðunni. Hún ólst upp við kveðskap og þótti einn besti kvæðamaður Iðunnar. Takið eftir „slaufunum“ hennar, þ.e. hvernig hún skreytir laglínuna, sérstaklega í númer 123. [Silfurplötur Iðunnar númer 121, 122 og 123]

Hópur II “hálf-söngvari” (eða “hálf-kveðari”):

Sigríður Hjálmarsdóttir. Rödd hennar liggur mjög hátt og hún er einnig næstyngsti kvæðamaðurinn, 26 ára þegar upptökur voru gerðar. Sigríður var dóttir Önnu Bjarnadóttur og Hjálmars Lárussonar og ólst því upp við kveðskap. Á hitt ber einnig að líta að í hennar æsku er orðin meiri völ á ýmiss konar tónlist og má ætla að tóneyra hennar hafi einnig mótast af vestrænni hljómahugsun. [Silfurplötur Iðunnar númer 181, 182 og 183]

Hópur III “söngvari”:

Kjartan Ólafsson. Kjartan var fyrsti formaður Iðunnar og sat í stjórn Verkamannafélagsins Dagsbrúnar. Hann hafði áður tekið þátt í uppfærslum á söngleikjum í Reykjavík. Fyrstu kynni Kjartans af kveðskap voru gegnum félaga hans í Iðunni. [Silfurplötur Iðunnar númer 51, 52 og 53]

Í fyrsta hópnum eru systkinin Björn, Ingibjörg, Sigríður og Þuríður Friðriksbörn, Magnús Sigurðsson og Sigurður S. Straumfjörð. Kveðandi systkinanna fjögurra og Magnúsar er nánast eins: þau kveða bundið (legato), með skreytingum sem virðast koma alveg áreynslulaust. Sigurður hefur svipaðan stíl, en hefur þann vana að hika, stundum í miðju orði, í síðustu skreytingunni í lok hverrar vísu. Systkinin nota andardráttinn til að undirstrika textann, en hvorki Magnús né Sigurður nýta þá “tækni”. Raddir allra þessara kvæðamanna eru “lausar”, með náttúrulegri vibrato (sveiflu) sem lætur skreytingar hljóma áreynslulausar. Hljómhugsun þeirra allra virðist vera hin sama og er oftast mjög frábrugðin venjulegum dúr og moll eins og við þekkjum þá.

Í hópi II eru Magnús Pétursson, Sigríður Hjálmarsdóttir og Jón Eiríksson sem var aðeins 9 ára þegar upptökur fóru fram. Magnús  hefur nokkuð af sömu hljómhugsun og kvæðamennirnir sex í flokki I, en hann hefur samt annan hátt á flutningnum, þannig að kveðandi hans líkist meira söng, þ.e. hann hálf-syngur. Hljómhugsun þessa hóps má lýsa þannig að hún standi mun nær vestrænni harmónískri hefð. Sigríður og Jón hafa svipaðar raddgerðir. Rödd Jóns er þó enn skærari en hennar og algjörlega “in tune”. Hann ber þess þó einnig merki að hafa lært hjá Birni Friðrikssyni. Sigríður kveður oft legato (bundið) eins og hópur I, en hún leggur jafna áherslu á öll atkvæðin sem er mjög frábrugðið kveðandi systkinanna fjögurra, sem leggja að jafnaði áherslu á hvert orð, þ.e. fyrsta atkvæði í hverju orði, en einnig leggja þau áherslu á þau orð sem skipta miklu máli í frásögninni.

Í hópi III eru Kjartan Ólafsson, Bjarni Guðmundsson, Jóhann Garðar Jóhannsson og Kristmann Sturlaugsson. Stíll þeirra einkennist af löngum nótum, þ.e. tónlengdin hjá þeim er mun lengri en hjá hópi I og yfirleitt lengri en hjá hópi II. Áhersla á orð og atkvæði er einnig frábrugðin því sem hinir kvæðamennirnir gera. Þessir kvæðamenn anda á öðrum stöðum í vísunum en þeir sem ólust upp við kveðskap og hreinlega syngja meira.

3. Að læra að kveða, eða að bæta sig í listinni.

Best er að læra hjá góðri kvæðakonu / góðum kvæðamanni, en ef þú vilt læra þetta á eigin spýtur, þá getur þú byrjað á að hlusta á stemmurnar sem fylgja þessu kveri og skoða síðan textann og nóturnar, ef þú heldur að þær auki skilning þinn á stemmunum. Nóturnar sýna yfirleitt einungis „beinagrind“ stemmunnar, því fáar eða engar skrautnótur eru skráðar. Hér á eftir er lýsing á ferli sem hefur gefist vel við að læra kveðskap. Ferlið er þrískipt: að hlusta, herma og kveða, en þó væri best að bæta við fjórða liðnum sem er að kveða fyrir góðan kvæðamann og fá álit hans á frammistöðunni.

Það er nauðsynlegt að huga að bragfræði, að kynna sér bragarhætti vísnanna sem þú kveður. Þú þarft að skynja hrynjandina í bragnum til að geta valið stemmu við vísurnar sem þú vilt flytja. Ragnar Ingi Aðalsteinsson hefur skrifað margt um bragfræði og fleiri höfunda má finna á netinu, t.d. á heimasíðu Kvæðamannafélagsins Iðunnar (sjá heimildaskrá). Hér verður aðeins fjallað um sjálfan flutninginn, kveðandina.

I Að hlusta

Hlustun er fyrsti þátturinn í því að læra tónlist af hvaða tagi sem er. Þegar ég hlusta á stemmur í fyrsta skipti, heyri ég allt sem kveðið er, texta, laglínu og skraut og finnst þetta stundum flókið. Ég byrja á að skoða textann. Síðan hlusta ég aftur og aftur, fimm til tíu sinnum og fer þá að finnast þetta verða einfaldara þangað til “beinagrindin” af stemmunni er orðin skýr og ég búin að læra “lagið”. Ég held svo áfram að hlusta (og æfa mig á laglínunni) og fer þá aftur að heyra heildina, þ.e. allt þetta sem ég heyrði í fyrstu hlustun og fer þá að geta greint ýmis smáatriði sem hreinlega hurfu meðan ég var að ná laglínunni. Þetta ferli felur í sér að hlusta fimm til tuttugu sinnum á hverja stemmu. Ég mæli þess vegna með að þú hlustir vandlega áður en þú ferð að raula með. Síðan ferðu að raula með og heldur svo áfram að hlusta. Gott er að hlusta fyrst á stemmuna í heild, síðan nokkrum sinnum eingöngu á fyrstu línuna. Reyna að herma eftir henni, kveða með. Hlusta síðan á fyrstu tvær línurnar, herma, svo á þrjár línur og loks allar. Gefa verður gaum að laglínunni sjálfri, skrautnótum, andardrætti kvæðamannsins og sérstaklega að flutningi textans og öllum áherslum þar að lútandi. Hrynur bragarháttarins ræður í raun hvernig stemman er, rytmískt (hrynrænt). Hlusta oft, kveða oft með, og kveða síðan án þess að spila upptökuna með.

II Að herma

Elsta aðferðin við að læra listir (og reyndar flest annað líka) er að herma. Bæði í Evrópu og Asíu eru til heimildir um listnám og kennslu þar sem nemandinn lærir að herma nákvæmlega eftir myndum meistarans og fær ekki leyfi til að mála sínar eigin hugmyndir fyrr en hann er fær um að gera nákvæma eftirmynd af verki meistarans. Þegar ég lærði kveðskap í Noregi var það sama uppi á teningnum. Ég lærði hjá þremur virtum kvæðakonum sem allar sögðu það sama, hver í sínu lagi: að ég yrði að læra þetta nákvæmlega eins og þær vildu að það hljómaði, en þegar þær voru ánægðar með árangur minn mátti ég fara með lagið að vild. Þegar þú hefur hlustað á stemmuna, kveðið með upptökunni og kveðið ein, er næsta skref að herma eftir raddbeitingu kvæðamannsins sem þú ert að læra af. Hvar andar hann? Notar hann andardráttinn til að undirstrika textann? Dregur hann seiminn? (þ.e. er síðasta nótan löng?) Skreytir hann laglínuna? Hvar? Finnst þér hljómhugsun hans samræmast þinni? (Er hann „out-of-tune“?) Kemst textinn greinilega til skila? Leggur hann meiri áherslu á sum orðin í vísunni og minni á önnur? Er greinilegur áherslumunur milli atkvæða í orðum? Er áherslumunur tengdur mikilvægi orðanna í textanum? Hvernig myndar hann orðin? Er hann nefmæltur, flámæltur, virðist hann snúa laglínunni utanum orðin? Hvar myndast tóninn? Reyndu að gera þér í hugarlund hvernig kvæðamaðurinn fer að, og hvort það er eitthvað sem einkennir hann sérstaklega.

III Að kveða

Nú ertu búin að hlusta oft, greina og herma eftir kvæðamanni sem er þér að skapi. Þá er komið að því að þú veljir þínar eigin vísur og stemmur sem falla að bragarhætti þeirra. Þegar það er komið, er gott að kveða þetta nokkrum sinnum og hljóðrita síðan og hlusta. Flestum finnst erfitt að hlusta á röddina sína í fyrsta sinn, finnst hún óþægilega mjó/ljós/dökk/hás… en sennilega eru allir aðrir á annarri skoðun. Það er því gott að spila hljóðritið fyrir einhvern sem þú treystir. Ef þú átt kost á að kveða fyrir reyndan kvæðamann skaltu gera það og hlusta vel á það sem hann eða hún segir um frammistöðuna hjá þér. Veldu þér vísur sem þú tengist tilfinningalega (ekki samt þannig að grátur eða hlátur heyrist í röddinni), því það er mikilvægt að áheyrendur finni að þú meinir það sem þú kveður. Túlkun þín á textanum skiptir miklu máli. Það er erfitt að flytja texta sem manni þykir ekki vænt um, eða þykir ekkert til koma.

4. Að undirbúa dagskrá

Þegar kemur að því að undirbúa eigin kvæðadagskrá er fyrst að athuga hvert tilefnið er, og síðan að ákveða hvort þú ætlar sjálf að yrkja vísurnar. Ef þú ætlar ekki að yrkja um tilefnið, þá er hægt að finna vísur eftir aðra sem að henta því. Síðan þarf að ákveða hvaða stemmur passa við vísurnar/bragarhætti vísnanna og raða þessu upp í hæfilega röð, þannig að það sé einhver þráður í textanum, ef hægt er. Það er næstum alltaf hægt að tengja vísurnar saman á einhvern hátt, ef til vill eftir höfundum, aldri þeirra/aldri vísnanna, staðsetningu/heimahögum, þema eða öðru því sem þykir vert að nefna.

Þegar vísur og stemmur eru fundnar og búið að ákveða fjölda þeirra og röð, þá þarf að huga að framkomunni. Sumir eru illa haldnir af kvíða áður en þeir stíga á svið. Við því eru til ýmis ráð, meðal annars það að fara á staðinn daginn áður, standa á sviðinu og ímynda sér það versta sem gæti gerst í þeim aðstæðum. Þá hríslast adrenalínið um æðarnar, hnén skjálfa og röddin verður veik, en það gerir ekkert því þetta er bara æfing. Á sjálfan daginn er mikilvægt að taka sér hlé frá amstri, allavega klukkutíma fyrir flutning og reyna að hafa það rólegt og hugsa helst um hvað þetta verði skemmtilegt. Það er ágætt að vera ofurlítið stressuð, en ekki um of. Smá stress lyftir oft flutningnum og gerir hann betri.

Huga þarf að klæðaburði, að hann sé í samræmi við tilefnið og að þér líði vel í fötum og skóm. Þú þarft líka að ákveða með góðum fyrirvara hvort þú kannt þetta allt utanað eða hvort þú þarft að hafa textann með þér á bók. Það er engin skömm að því, þetta hafa kvæðamenn gert gegnum aldirnar, ef marka má heimildir (þeir voru reyndar að kveða langar rímur, en hvað um það). Sparaðu röddina á flutningsdaginn og hitaðu hana varlega upp sérstaklega ef kalt er úti. Gott að drekka te eða heitt vatn, og jafnvel kalt.

Nauðsynlegt er að ákveða fyrirfram hvort þú ætlar að tala líka, hvort þú ætlar að kynna hverja vísu/stemmu fyrir sig, eða dagskrána í heild sinni. Ef þú ákveður að kynna kveðskapinn, nokkuð sem gefur dagskránni meiri dýpt og gerir hana skemmtilegri, er best að skrifa allt niður sem þú ætlar að segja (nema þú sért mjög vön að koma fram og tala blaðlaust). Það komast nefnilega miklu fleiri upplýsingar á framfæri ef skipulagið er gott. Þú ættir líka að gefa þér tíma til að lesa þetta yfir upphátt og taka tímann á lestrinum og kveðskapnum, því þér er nær undantekningarlaust úthlutaður ákveðinn tími. Það er vinsælt að halda sig innan tímamarkanna.

Þegar á sviðið er komið, er gott að taka sér stöðu, rólega, líta yfir salinn – án þess þó að horfast í augu við neinn – heilsa, og byrja síðan dagskrána (hvort heldur sem hún hefst á kveðskap eða umfjöllun um hann). Þessi augnablik eru mjög mikilvæg, því þau gera það að verkum að fólkið í salnum beinir athyglinni að þér og þinni dagskrá og það eru minni líkur á því að einhver missi af þessari góðu skemmtun sem þú ert búin að leggja miklu vinnu í. Þegar dagskráin þín er búin, skaltu líka standa kyrr og þakka fyrir þig, hneigja þig þegar fagnaðarlætin ætla allt um koll að keyra og ganga svo rólega út af sviðinu.

Gangi þér vel!

[1]Sjá t.d. Jónas Jónasson frá Hrafnagili, Svend Nielsen og Hrein Steingrímsson.

[2]Ég nota karlkynsorðið kvæðamaður jafnt um konur sem karla, en ávarpa lesendur í kvenkyni, jafnt konur sem karla.

[3]Titill á íslensku: Djúpfryst: félagsleg og tónlistarleg áhrif Kvæðamannafélagsins Iðunnar á kvæðahefðina. Doktorsritgerð, Australian National University, 2011.

[4]Sjá: Ragnheiður Ólafsdóttir:  Deep Freeze: The social and musical impact of the Idunn Society on the Icelandic rimur, bls. 158 og áfram.

[5]Svend Nielsen, 1982, bls. 124-128.

Heimildir

Bjarni Þorsteinsson (1906-1909). Íslenzk þjóðlög. Kaupmannahöfn, Carlsbergsjóðurinn.

Hreinn Steingrímsson (2000). Kvæðaskapur: Icelandic Epic Song. Dorothy Stone og Stephen L. Mosko ritstj. Reykjavík, Mál og mynd.

Ingólfur Kristjánsson (1970). „Þjóðlagaspjall, viðtal við Helgu Jóhannsdóttur“, Eimreiðin, maí-ágúst 1970, bls. 80-86. Reykjavík.

Jón Leifs (1929). “Isländische Volkslieder: Zwei Forschungsberichte von J.L.”, Zeitschrift für Musikvissenshcaft, Oktober 1928 – September 1929, Dr. Einstein ritstj. Bls. 365-373. Leipzig, Breitkopf und Härtel. (Sjá ennfremur hefti 1 og 2 1931).

Jónas Jónasson frá Hrafnagili (1934). Íslenzkir þjóðhættir. Einar Ólafur Sveinsson ritstj. Reykjavík, Ísafoldarprentsmiðja.

Ragnar Ingi Aðalsteinsson (2013).  Íslensk bragfræði. Bókmennta- og listfræðistofnun Háskóla   Íslands og Háskólaútgáfan. Bókin er nr. 16 í ritröðinni Fræðirit Bókmennta- og   listfræðistofnunar Háskóla Íslands. (Sjá einnig heimasíðu www.ragnaringi.is)

Ragnheiður Ólafsdóttir 2012). “Íslensk rímnahefð”, SÓN Tímarit um óðfræði, 10. hefti, 2012, bls. 169-187.

Ragnheiður Ólafsdóttir (2011). Deep Freeze: The social and musical impact of the Idunn Society on the Icelandic rímur tradition. Doktorsritgerð, Australian National University. [óútgefin]

Ragnheiður Ólafsdóttir (2008). “Pride and Prejudice”: The Preservation of the Icelandic Rímur Tradition”, Yearbook for Traditional Music, Vol. 40, 2008, pp. 104-116.

Silfurplötur Iðunnar (2004). Gunnsteinn Ólafsson ritstj. Reykjavík, Kvæðamannafélagið Iðunn og Smekkleysa.

Svend Nielsen (1995). „Rimerne – episk sang på Island”, Folk och musik, bls. 57-74. Stockholm.

Svend Nielsen (1982). Stability in Musical Improvisation: A repertoire of Icelandic epic songs. Acta Ethnomusicologica Danica No. 3. København, Forlaget Kragen.

Útvarpstíðindi (1938/1939-1949), 1.-12. árgangur. Kristján Friðriksson og fl. ritstj. Reykjavík

www.ismus.is Íslensk músík og menningararfur. Heimasíða Tónlistarsafns Íslands í samvinnu við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Kópavogsbæ.

www.rimur.is Heimasíða Kvæðamannafélagsins Iðunnar.

© Ragnheiður Ólafsdóttir 2016