Rímur

Rímur eru löng kvæði í reglubundnu formi (rímnaháttum) þar sem sagðar eru sögur. Elsta varðveitta ríman er ríma af Ólafi helga Haraldssyni í Flateyjarbók þannig að rætur þeirra má rekja aftur til 14. aldar. Þetta er stök ríma en fljótt varð venjan sú að söguefnið skiptist niður í einstakar rímur sem saman mynda síðan rímnaflokk. Skipting rímnaflokks niður í einstakar rímur fylgir oft kafla- eða þáttaskilum í sögunni en oft er líka skilið við atburðarásina á spennandi stað til að auka eftirvæntingu eftir framhaldinu. Í rímum frá miðöldum var algengast að sami bragarháttur væri á flestum eða öllum rímunum í sama rímnaflokki en seinna varð að venju að skipta um bragarhátt við hverja nýja rímu. Rímur virðast alltaf hafa verið ortar eftir sögum sem voru til fyrir, oftast riddarasögum, fornaldarsögum eða ævintýrum, nokkrar rímur eru ortar eftir Íslendingasögum og einstaka eru til um kristileg efni.

Margir rímnaflokkar sem ortir hafa verið á íslensku í gegnum aldirnar hafa aldrei verið gefnir út og eru aðeins varðveittir í handritum en hér er vísað í ýmsa rímnatexta sem finnast prentaðir. Útgáfur Rímnafélagsins er hægt að kaupa hjá Kvæðamannafélaginu Iðunni.

Rímnasöfn

Rímnasafn. Samling af de ældste islandske Rimer. 2 bindi. Útg. Finnur Jónsson. København, 1905–1922.

Rímnasafnið. Sýnisbók rímna frá 14. öld til nútímans. Sveinbjörn Beinteinsson hefur tekið saman. Reykjavík, 1966.

Sýnisbók íslenzkra rímna frá upphafi rímnakveðskapar til loka nítjándu aldar = Specimens of Icelandic Rímur from the Fourteenth to the Nineteenth Century. Valið hefir Sir William A. Craigie. 3 bindi. 
London, 1952.

Útgáfur Rímnafélagsins

  1. Sveins rímur Múkssonar eftir Kolbein Grímsson. Ortar um miðja 17. öld.

  2. Persíus rímur eftir Guðmund Andrésson og Bellerofontis rímur. Ortar á 17. öld.

  3. Hyndlu rímur og Snækóngs rímur eftir Steinunni Finnsdóttur. Elstu þekktar rímur eftir konu.

  4. Hrólfs rímur kraka eftir Eirík Hallson og Þorvald Magnússon.

  5. Ambáles rímur eftir Pál Bjarnason.

  6. Rímur af Flóres og Leó eftir Bjarna Jónsson Borgfirðingaskáld og Hallgrím Pétursson.

  7. Króka-Refs rímur og Rímur af Lykla Pétri og Magelónu eftir Hallgrím Pétursson.

  8. Brávallarímur eftir Árna Böðvarsson.

  9. Stakar rímur frá 16., 17., 18. og 19. öld. (Fjósaríma eftir Þórð Magnússon á Strjúgi, Ekkjuríma eftir Bjarna Jónsson Borgfirðingaskáld, Flateyjarríma eftir sr. Magnús Ólafsson í Laufási, Ýmisríma og Bekraríma eftir sr. Eirík Hallsson, Tímaríma eftir Jón Sigurðsson sýslumann, Svaðilför eftir Árna Jónsson Eyjafjarðarskáld, Griðkuríma eftir Gamalíel Halldórsson og Illuga Einarsson, Draugsríma eftir Sigurð Breiðfjörð og Ríma Gamlamuna og Nýjamóðs eftir Hallgrím Jónsson).

  10. Pontus rímur eftir Magnús Jónsson prúða, Pétur Einarsson og séra Ólaf Halldórsson.

  11. Blómsturvallarímur eftir Jón Eggertsson.

Ýmsir rímnatextar

Guðlaugur Guðmundsson (1853–1931) prestur á Stað í Steingrímsfirði, yrkir um sýslunefndarmannskjörið á Hrófbergi á Jónsmessu 1912: Kosningarímur

Þórður Þórðarsson (1878–1913) Grunnvíkingur yrkir formannavísur úr Víkursveit, haustið 1898. Formannavísur

Tryggvi Magnússon (1900–1960) teiknari og myndlistamaður, yrkir um lífshlaup Jesú Krists á gamansaman hátt.: Jesúrímur

Rímnatextar aðgengilegir á netinu

Eftir Sigurð Breiðfjörð (1798–1846):

Rímur af Aristómenesi og Gorgi (1836)

Rímur af Gísla Súrssyni (1857)

Rímur af Gunnari á Hlíðarenda (1860)

Rímur af Gústaf Adolf og Valvesi (1860)

Rímur af Indriða ilbreiða (1856)

Rímur af Jómsvíkinga sögu (1836)

Rímur af Líkafróni kóngssyni og köppum hans (1843)

Rímur af Núma kóngi Pompilssyni (1835)

Rímur af Svoldarbardaga (1833)

Rímur af Tistrani og Indíönu (1831)

Rímur af Valdimar og Sveini (1842)

Rímur af Víglundi og Ketilríði (1857)