+ Jurtir þíðar fara á fót

Ferskeytt, hringhent

Vor

Jurtir þíðar fara á fót
fagrar hlíðir gróa
árdags blíða bjarma mót
blómin fríðu glóa.

Sólin þaggar þokugrát
þerrar saggans úða
fjóla vaggar kolli kát
klædd í daggar skrúða.

Sólin háa himni á
hauðri gljáir móti
vegleg má sinn vænleik sjá
vatns í bláu fljóti.

Mörg ein fríða fjólan grær
fróns á víðu setri,
ekki bíða allar þær
eftir hríð og vetri.

Vísur: Jónas Jónasson, Torfmýri
Kvæðamaður: Björn Friðriksson
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Árni Árnason gersemi

+ Ef á borðið öll mín spil

Ferskeytt, óbreytt / hringhent

Æskustöðvarnar
Kveðið á Ísafirði 1917, brot

Ef á borðið öll mín spil
ætti ég fram að draga,
held ég yrðu skrítin skil
á skuldum fyrri daga.

Leitt er að ala aldur hér,
una skal þó glaður
Svartárdalur alltaf er
andans dvalarstaður.

Minning varnað mér ei skal,
margt þó harðna kunni.
Lýsti þarna í ljúfum sal
ljós yfir barnæskunni.

Hryggð ég gat og fögnuð fyllst
fundið, glatað, brotið;
áfram ratað, einnig villst
elskað, hatað, notið.

Vísur: Gísli Ólafsson
Kvæðamaður: Björn Friðriksson
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Árni Árnason gersemi

+ Flaskan þjála léttir lund

Ferskeytt, hringhent / óbreytt

Flaskan þjála léttir lund
lætur tálið dvína,
við hana rjála væna stund
vermir sálu mína.

Flaskan svarta það eg þyl
þakin skarti fínu,
gleði bjarta geisla og yl
gefur hjarta mínu.

Flaskan meðan fellir tár
fipast elli í taki
50 og 5 þó ár
felist mér að baki.

Þegar sál er næðisnaum
nægtir dýrra veiga
þá er undir glasaglaum
guðdómlegt að teyga.

Vísur: Björn Friðriksson
Kvæðamaður: Björn Friðriksson
Stemma: Úr Húnavatnssýslu

+ Ég er fár sem feyskið bar

Ferskeytt, hringhent / óbreytt

Ég er fár sem feyskið bar,
föl og sár er myndin;
þurr er báran Bakkusar,
blessuð táralindin.

Líttu á hrjóstrug holtin mín
hrópa ég náðarþyrstur.
Breyttu nú vatni í brennivín
blessaður Jesús Kristur.

Fárleg eru faðmlög þín
fjötur minna vona;
hjartans nepjunóttin mín
nístu mig ekki svona.

Ef hann fer í austanbyl
yfir hús og grundir,
þá er skárra að skömminni til
að skíta vestan undir.

Vísur: Jón Þorsteinsson, Arnarvatni
Kvæðamaður: Kjartan Ólafsson (Jósep Húnfjörð kenndi)
Stemma: Úr Borgarfirði. Eyjólfur Jóhannesson, Sveinatungu

+ Oftast svellin örlaga

Ferskeytt, hringhent / oddhent / óbreytt

Oftast svellin örlaga
illum skellum valda,
fyrir brellum freistinga
fáir velli halda.

Fæst hér nóg af frosti og snjó
og flestu, er ró vill bifa.
En þegar glóey gyllir mó,
gaman er þó að lifa.

Sorgir lífs í margri mynd
mæddar sálir beygja;
en væri hér hvorki vín né synd,
vildi ég aldrei deyja.

Hjarta og sinni harmar þjá
heims af kynningunni.
Og ekki finn ég ylinn frá
æskuminningunni.

Vísur: Herdís Andrésdóttir
Kvæðamaður: Kjartan Ólafsson
Stemma: Úr Dalasýslu. Guðmundur Gunnarsson, Tindum

+ Andans þvinga eg flugi frá

Ferskeytt, hringhent / oddhent

Hringhendan

Andans þvinga eg flugi frá
flest, sem þyngir muna.
Ljóðakyngi læt svo á
leika hringhenduna.

Hún á slungið háttamál,
hljóms við þungar gátur.
Harmi þrungin, hvell sem stál
hlý, sem ungbarns grátur.

Hún ber sálar heimi frá
heflað mál í bögur,
bragar hálum ísum á
unaðsþjál og fögur.

Hugans kenndir hlýjandi
hljóms á vendingunum.
Hún fer endurómandi
eftir hendingunum.

Vísur: Sveinbjörn Björnsson
Kvæðamaður: Kjartan Ólafsson (Björn Friðriksson kenndi)
Stemma: Úr Borgarfirði. Höskuldur Eyjólfsson

+ Viltu, litla lindin mín

Ferskeytt

Sigrún í Hvammi

Viltu, litla lindin mín,
ljóðin þín mér kenna?
Hver hefur kennt þér kvæðin þín, –
kennt þér hægt að renna?

Ef mér væri innra rótt,
eins og straumi þínum,
sæl ég skyldi um sumarnótt
sjónum loka mínum.

Renna í blundi létt í lund,
um löngun mína dreyma,
faðma grundir, fjöll og sund,
flögra um töfraheima.

Eitthvað þrái eg, eitthvað vil,
í eitthvað fjarri hyllir,
sem ég enn þá sjálf ei skil,
en sálu löngun fyllir.

Vísur: Guðmundur Guðmundsson skólaskáld
Kvæðamaður: Kjartan Ólafsson (Kristinn Kristjánsson kenndi)
Stemma: Úr Strandasýslu. Sigurður hundalæknir

+ Tíminn vinnur aldrei á

Ferskeytt, hringhent

Tíminn vinnur aldrei á
elstu kynningunni;
ellin finnur ylinn frá
æskuminningunni.

Verkin huldu síðar sjást,
sálarkulda sprottin;
hver, sem duldi alla ást,
er í skuld við drottin.

Þegar háar bylgjur böls,
brotnuðu á mér forðum,
kraup ég þá að keldum öls,
kvað í fáum orðum.

Klónni slaka eg aldrei á
undan blaki af hrinu,
þótt mig hrakið hafi frá
hæsta takmarkinu.

Vísur: Jón S. Bergmann
Kvæðamaður: Þuríður Friðriksdóttir
Stemma: Úr Eyjafirði. Jóhann Sveinsson frá Flögu

+ Enginn háttur hljómar þungt

Ferskeytt, hringhent / oddhent

Enginn háttur hljómar þungt,
heyrist kátt í runni:
hrört og lágt er orðið ungt
allt í náttúrunni.

Allt á sjó og út um mó
er nú þróun vakið;
flytur nógan frið og ró
fyrsta lóukvakið.

Geislar sindra sólu frá,
sveiginn binda rósum.
Drottins mynd er máluð á
mörk og tindum ljósum.

Alt í kring er eilífð skírð,
— ekkert þvingað grætur; –
fuglar syngja um draumadýrð;
daginn yngja nætur.

Vísur: Jón S. Bergmann
Kvæðamaður: Þuríður Friðriksdóttir
Stemma: Úr Eyjafirði. Jóhann Sveinsson frá Flögu

+ Að hafi eg tíðum heita kinn

Ferskeytt

Gátur

Að hafi eg tíðum heita kinn,
hygg ég flesta skilja,
fyrst við sæta munninn minn
mynnast allir vilja.

Mörgum hefi ég manni gætt,
mjög er ég fríður sýnum.
Dýr var forðum Adams ætt
einn af líkum mínum.

Þið skuluð vita, að mín er mennt
að mynda stórt úr smáu.
En það er ekki heiglum hent
hátt að skapa úr lágu.

Hreyktu þér ekki á hæðir hátt,
hrapað tignin getur.
Sittu hægt og sittu lágt,
svo mun þér líða betur.

Vísur: Ólína Andrésdóttir
Kvæðamaður: Sigríður Friðriksdóttir (Jóhann Garðar Jóhannsson kenndi)
Stemma: Úr Breiðafirði. Eggert Gíslason í Langey.

+ Eigirðu land, sem ástin fann

Ferskeytt, hringhent / óbreytt

Eigirðu land, sem ástin fann,
unnt er að standast tálið.
En þegar andast ánægjan,
aftur vandast málið.

Mörgum þykir mesta kvöl
missir góðra vina;
þeir, sem aldrei þekktu böl,
þekkja ei huggunina.

Vittu það, að vonlaus sorg
veldur falli manna;
ilt er að verða unnin borg
við árás freistinganna.

Þó að birti sorgin sig,
samt þú rór munt vera,
látirðu vona vængi þig
um vegi lífsins bera.

Á þig hér þó andi kalt
úfinn lífsins vetur,
sólarmegin samt þú skalt
sitja, nær þú getur.

Vísur: Ólína Andrésdóttir
Kvæðamaður: Sigríður Friðriksdóttir
Stemma: Kunnug víða um land

+ Hlíða milli byggist brú

Ferskeytt, hringhent

Í Brynjudal

Hlíða milli byggist brú
blóms af gyllingunni,
hugann fyllir fegurð sú
fjalls í hillingunni.

Sólin málar hæð og hól,
hvamma, skálar, bala,
ljósum strjálar leiti og ból
lyftir sál af dvala.

Ljóma salir, hugur hlær
horfinn kala meinum,
andinn svala fundið fær
fremst í dalaleynum.

Allt hið farna augað sér
— eyddur varnar kraftur —
víst ég gjarnan vildi hér
verða að barni aftur.

Eiga sátt við allt í heim
efla mátt í róminn,
líða hátt um himingeim
hjala dátt við blómin.

Vísur: Jóhann Garðar Jóhannsson
Kvæðamaður: Sigríður Friðriksdóttir (Jóhann Garðar Jóhannson kenndi)
Stemma: Úr Breiðafirði. Eggert Gíslason í Langey

+ Hugann dreymir daga frá

Ferskeytt, hringhent

Hugsað heim

Hugann dreymir daga frá
dulargeimi vörmum,
þótt mig heimur hendi á
hnútum tveimur örmum.

Þó að víða þyki og sé
þungbær hríðarskrefin,
man ég tíð við móðurkné
mér var blíða gefin.

Sá í hilling hugans lönd
hatri og spilling fjarri,
sólargylling gyllti strönd
guðdómsfylling nærri.

Biður hrelldur hugurinn
hatri seldur drengur
hjartaeld við hefði þinn
hitast kveldi lengur.

Vísur: Jóhann Garðar Jóhannsson
Kvæðamaður: Sigríður Friðriksdóttir (Jóhann Garðar Jóhannsson kenndi)
Stemma: Úr Breiðafirði. Eggert Gíslason í Langey

+ Hugann seiða svalli frá

Ferskeytt, hringhent

Á ferð til Breiðafjarðar vorið 1922

Hugann seiða svalli frá
sundin, heiði og skörðin;
vona-leið er valin þá
vestur Breiðafjörðinn.

Allt er borið burtu gróm
bæði af Skor og fjöllum,
því að vorið blóm við blóm
breiddi í sporum öllum.

Dægur-halli daggperlum
dreifir vallargróðann;
bjargastalla beltast um
blessuð fjallamóðan.

Þrjóti grið á þessum stað,
þá er lið að skeiðum,
því að hlið er opið að
úthafsmiðum breiðum.

Vísur: Jón S. Bergmann
Kvæðamaður: Þuríður Friðriksdóttir
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Jakob Bjarnason, Holtastöðum

+ Dýrin víða vakna fá

Ferskeytt, hringhent / víxlhent

Rímur af Núma kóngi Pompílssyni12. ríma, vísur 17 — 20

Dýrin víða vakna fá
varpa hýði nætur
grænar hlíðar glóir á
grösin skríða á fætur.

Hreiðrum ganga fuglar frá
flökta um dranga bjarga
sólarvanga syngja hjá
sálma langa og marga.

Á allar lundir laga klið
lofts í bláu rúmi.
Létta blundi lætin við
Leó þá og Númi.

Blundur nætur nægir sá
njóta mætu vinir
skunda fætur frægir á
fljótaglætu hlynir.

Vísur: Sigurður Breiðfjörð
Kvæðamaður: Þuríður Friðriksdóttir (kenndi og kvað)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Hnausa-Sveinn

+ Tíminn ryður fram sér fast

Ferskeytt, hringhent / oddhent

Tíminn ryður fram sér fast
fremur biða-naumur,
hverfur iðu amakast
eins og liðinn draumur.

Drýgja vinn ég varla synd
vín þó hlynni barmi
í óminnis meinalind
mínum brynni harmi.

Lífs fram, stígur straumur hart
stund án flýgur biðar.
Fljótt á sígur seinni part
sól til hnígur viðar.

Þannig líður lífs míns tíð
laus víð tíða gleði,
von og kvíði, hláka og hríð
heyja stríð í geði.

Vísur: Jónas Jónasson, Torfmýri
Kvæðamaður: Þuríður Friðriksdóttir (kenndi og kvað)
Stemma: Úr Rangárvallasýslu. Svanborg Lýðsdóttir

+ Þessi langi vetur vor

Ferskeytt, hringhent

Til vorsins 1892

Þessi langi vetur vor
veldur strangri pínu.
Hvað mig langar, ljósa vor,
að liggja í fangi þínu.

Þar ég hlýði á þýðan klið,
þegar síð að kveldi
roðnar hlíð í vafningsvið
vors af blíðu eldi.

Komdu hart að hita geð
halda skarti í blómin
komdu bjarta brosið með
blíða hjartans óminn.

Út með dröngum ómar kátt
er þú göngu sýnir;
þér hafa löngum látið dátt
lóusöngvar þínir.

Vermdu hnjúk og blásin börð
blíða hjúkrun gefðu
allt hið sjúka og auma á jörð
örmum mjúkum vefðu.

Vísur: Ólöf Sigurðardóttir frá Hlöðum
Kvæðamaður: Þuríður Friðriksdóttir (kenndi og kvað)
Stemma: Úr Húnavatnssýslum. Sveinn Jónsson, Hjallalandi

+ Svona hef ég selt þér dróg

Ferskeytt, óbreytt / hringhent

Hestavísur

Svona hef ég selt þér dróg,
sem ég nú skal lýsa:
vakur lifði, vakur dó
og vakur upp mun rísa.

Ég hef selt hann yngra Rauð,
er því sjaldan glaður.
Svona er að vanta veraldarauð
og vera drykkjumaður.

Harðla nett hún teygði tá,
tifaði létt um grundir.
Fallega spretti þreif hún þá,
þegar slétt var undir.

Sýnir hann öllum sömu skil,
sem að við hann reyna.
Þegar karlinn þrífur til,
þeir eru að kvarta um steina.

Vísur: Páll Ólafsson
Kvæðamaður: Kjartan Ólafsson
Stemma: Úr Dalasýslu

+ Þá var taða, þá var skjól

Ferskeytt, óbreytt / hringhent

Þá var taða, þá var skjól,
þá var fjör og yndi,
þá var æska, þá var sól,
þá var glatt í lyndi.

Þegar í bænum þrýtur yl
þá er Örn að finna.
Gaman er að grípa til
gæðinganna sinna.

Öreigarnir eiga best,
engu þurfa að kvíða.
Oft þeir komast yfir hest
sem allir vilja ríða.

Hringur skundar skeiðið á,
skaflar sundra klaka.
Syngur grundin, svellin blá
sönginn undir taka.

Vísur: 1. Matthías Jochumsson, 2. — 4. Einar E. Sæmundssen
Kvæðamaður: Kjartan Ólafsson
Stemma: Víða þekkt

+ Fyrr en sundum sól er byrgð

Ferskeytt, hringhent

Fyrr en sundum sól er byrgð
sestu í lundinn blóma;
þá er grund í kvöldsins kyrrð
kysst af undurljóma.

Lifðu sátt og hjartahlý
hugsa fátt til kífsins;
guðdómsmáttinn elska í
æðasláttum lífsins.

Heiðurs bind þér blómasveig
blysin yndis kveiktu.
Lífsins mynda úrval eig,
öðru í vindinn feyktu.

Birtist sjóli hár og hreinn
í helgum skólafræðum.
Veldisstólinn á hann einn
uppi á sólarhæðum.

Vísur: Benedikt Einarsson, Hálsi
Kvæðamaður: Kjartan Ólafsson
Stemma: Úr Breiðafirði. Kristín Jónsdóttir, Flatey

+ Haustið líður óðum á

Ferskeytt, hringhent

Haustið líður óðum á
ítar blíðu sakna,
rósin fríða fölnar þá
frost og hríðar vakna.

Veðrahamur vakinn er
vindar ramir hvína.
Blómum ami og feigð að fer
fóstru lamar mína.

Napur kaldi næðir hér
Norðri baldinn öllu,
háreist alda hrín við sker
heiðar falda mjöllu.

Mína skrýða móður fer
mjallar fríða trafið,
enda líður október
út í tíðar hafið.

Vísur: Einar Þórðarson
Kvæðamaður: Kjartan Ólafsson (Hólmfríður Þorláksdóttir kenndi)
Stemma: Guðlaugur Guðmundsson, Esjubergi

+ Þegarvetrar þokan grá

Ferskeytt

Þegar vetrarþokan grá
þig vill fjötra inni:
svífðu burt og sestu hjá
sumargleði þinni.

Þar var löngum lokið skjótt
lífsins öllum mæðum.
Manstu, hvað þær flýðu fljótt
fyrir hennar kvæðum?

Taktu öruggt hennar hönd,
hún mun aftur finna
þau hin sælu sólskinslönd
sumardrauma þinna.

Þar sem loftsins létti son
leið með skærum hljómi,
þar sem yndi, vor og von
vögguðu hverju blómi.

Vísur: Þorsteinn Erlingsson
Kvæðamaður: Kjartan Ólafsson (Anna Bjarnadóttir kenndi)
Stemma: Úr Skagafirði. Einar Andrésson, Bólu

+ Höldum gleði hátt á loft

Ferskeytt

Höldum gleði hátt á loft
helst það seður gaman,
þetta skeður ekki oft
að við kveðum saman.

Meðan einhver yrkir brag
og Íslendingar skrifa
þetta gamla þjóðarlag
það skal alltaf lifa.

Falla tímans voldug verk
varla falleg baga
Snjalla ríman stuðla sterk
stendur alla daga.

Sótt ég gæti í söng og brag
sárabætur mínar
öll mín kæti á þar dag
og óskir lætur sínar.

Vísur: 1. Ýmsir tilnefndir, 2. Jón S. Bergmann, 3. Einar Benediktsson, 4. Ólína Andrésdóttir
Kvæðamaður: Kjartan Ólafsson
Stemma: Hólamannalag

+ Enn á Ísa- góðri grund

Ferskeytt, hringhent

Til ferskeytlunnar

Enn á Ísa- góðri grund
græðist vísum kraftur,
ertu að rísa af rökkurblund
rímna dísin aftur.

Vertu á sveimi vina til,
vek þá hreimi snjalla,
láttu streyma ljós og yl
ljóðs um heima alla.

Þjóðar okkar áttu nafn
með yndisþokka fínum,
gyltra lokka listasafn
liðast í flokkum þínum.

Lítið á ég orðaval,
ef ég má þig flytja,
utar frá í Óðar sal
yndi er þá að sitja.

Vísur: Ólína Andrésdóttir
Kvæðamaður: Kjartan Ólafsson (kenndi og kvað)
Stemma: Úr Grímsnesinu

+ Ísaspöng af andans hyl

Ferskeytt, hringhent

Til ferskeytlunnar
Framhald

Ísaspöng af andans hyl
Íslands söngvar þíða,
kalt er öngvum komnum til
kvæða Lönguhlíða.

Þar er angan hátts og hljóms,
hlíðin fang þér breiðir.
En upp að vanga blaðs og blóms
brattar og strangar leiðir.

Eilífð veit um veginn þann;
völt eru skeyti hinna,
engin leit því enda fann
óðar-sveita þinna.

Á ey og bala öldufalls
áttu sali kunna.
Þú ert dala dís og fjalls,
dóttir alþýðunnar.

Vísur: Ólína Andrésdóttir
Kvæðamaður: Kjartan Ólafsson (Anna Bjarnadóttir kenndi)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Sveinn Jóhannesson á tólffótunum

+ Lifnar hagur hýrnar brá

Ferskeytt, hringhent

Lifnar hagur hýrnar brá
hefst nú bragagjörðin.
Ó, hve fagurt er að sjá
ofan í Skagafjörðinn.

Drangey sett í svalan mar
sífellt mettar snauða.
Báran létta leikur þar
ljóð um Grettis dauða.

Að eyrum leggur ramma raust,
ruggar seggjum alda.
Brimið heggur hlífðarlaust
hamraveggi kalda.

Lifni vonin ljúf og mild
lækkar mótgangsandinn
Ertu sál mín eitthvað skyld
öldunum við sandinn?

Vísur: 1. Guðrún Þorkelsdóttir, 2. — 4. Gísli Ólafsson frá Eiríksstöðum
Kvæðamaður: Kjartan Ólafsson
Stemma: Skagfirðingalag (tvísöngsstemma)

+ Ég sá aldrei ögn af þér

Ferskeytt, óbreytt / hringhent

Til Vestur-Íslendinga

Ég sá aldrei ögn af þér,
en í gegnum bylinn
þekkti ég held ég hvar sem er
hjarta þitt og ylinn.

Þú hefur auði á unað bætt
ekki í fyrsta sinni:
Ég hef fyrri gleði grætt
og gull úr hörpu þinni.

Það er gengi og gleði mín
góðan dreng að finna.
Hlýi lengi húsin þín
hreimar strengja minna.

Vittu, að þökk frá vorri strönd,
vinurinn trúi og góði,
tekurðu alla ævi í hönd
upp með þessu ljóði.

Vísur: Þorsteinn Erlingsson
Kvæðamaður: Kjartan Ólafsson (Anna Bjarnadóttir kenndi)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Jónas á Geitaskarði (Smalalagið)

+ Margoft þangað mörk og grund (1)

Ferskeytt, hringhent

Lágnætti

Margoft þangað mörk og grund
mig að fangi draga,
sem þær anga út við Sund
eftir langa daga.

Bundinn gestur að ég er
einna best ég gleymi
meðan sest á sumri hér
sól í vesturheimi.

Ekki er margt sem foldar frið
fegur skarta lætur,
eða hjartað unir við
eins og bjartar nætur.

Kvikt er valla um sveit né sjá
svo að kalla megi;
raddir allar þagna þá,
þegar hallar degi.

Vísur: Þorsteinn Erlingsson
Kvæðamaður: Kjartan Ólafsson
Stemma: Víða kunnug

+ Sofnar lóa er löng og mjó

Ferskeytt, oddhent

Lágnætti
Framhald

Sofnar lóa er löng og mjó
ljós á flóa deyja;
verður ró um víðan sjó,
vötn og skógar þegja.

Hérna brunnu blóma munn
brosin sunnu viður,
nú að grunni út í unn
er hún runnin niður.

Stjörnur háum stólum frá
stafa bláan ósinn
út við sjávar ystu brá
eftir dáin ljósin.

Utar bíða óttutíð
Ægis fríðu dætur,
þar sem víði sveipar síð
sól um blíðar nætur.

Vísur: Þorsteinn Erlingsson
Kvæðamaður: Kjartan Ólafsson
Stemma: Víða kunnug

+ Á um njólu aldinn mar

Ferskeytt, hringhent

Lágnætti
Framhald

Á um njólu aldinn mar
út’ hjá póli gaman:
árdags sól og aftann þar
eiga stóla saman.

Þeim er yndi út’ um sjá
yfir lindum bláum
skýjum bindast örmum á
eða tindum háum.

Blómin væn þar svæfir sín
sumarblænum þýðum
yst í sænum eyjan mín
iðjagræn í hlíðum.

Sléttu bæði og Horni hjá
heldur Græðir anda
meðan hæðir allar á
aftanklæðum standa.

Vísur: Þorsteinn Erlingsson
Kvæðamaður: Kjartan Ólafsson
Stemma: Vatnsdælingalag (tvísöngsstemma)

+ Sílgræn börð um sumardag

Ferskeytt, hringhent

Lóa fiðurgisin

Sílgræn börð um sumardag
sá eg hjörðum fróa.
Dregur á jörðu drungabrag,
drepur í skörðin lóa.

Suður á leiti sá eg þig
syngja teita á vori.
Svona breytist margt um mig,
mér er þreyta í spori.

Alt er frá, sem ornar þér
út’ í snjá og gnjósti –
speldið bláa af þér er,
orðin grá á brjósti.

Engis biður ein á strönd
– elsk að friði – þysinn,
stormaklið né lýð um lönd
lóa fiðurgisin.

Vísur: Guðmundur Friðjónsson
Kvæðamaður: Kjartan Ólafsson (Anna Bjarnadóttir kenndi)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Hjálmar Lárusson

+ Rændu sólu rökkur dimm

Ferskeytt, hringhent

Stökur förukonunnar

Rændu sólu rökkur dimm
reynslu skóla ganga,
því mig ólu örlög grimm
undir njólu vanga.

Fyrr var hali heitbundin,
hlýju falin vona,
ein við dalamóann minn,
má ég hjala svona.

Sá, sem átti ylinn þann,
undi smátt þeim hita,
allt fór lágt, því eg og hann
aðeins máttu vita.

Heimsins blíða er söm við sig,
syrtir lýða veginn,
kaus hann Fríðu, en kvaddi mig,
köldu níði sleginn.

Vísur: Hjálmar Þorsteinsson frá Hofi
Kvæðamaður: Kjartan Ólafsson
Stemma: Ásamannalag (tvísöngsstemma)

+ Leó þrifnum brandi brá

Ferskeytt, víxlhent

Rímur af Núma kóngi Pompílssyni8. ríma, vísur 64 — 68

Leó þrifnum brandi brá
byrstist lundin honum
Núma rifnar röndin þá
rétt hjá mundriðonum.

Númi lemur ljóma þá
lensu móti sveigi
blakið kemur bringu á
en bítur hótið eigi.

Lensan brotnar ljóns á klóm
lagið kenndi stríða
hjálparþrotna handatóm
hetjan stendur fríða.

Leó riða verður við
vigurhöggið bráða
Númi biður ei neitt um grið
nam á skrögginn ráða.

Stöðu gat ei nógri ná
njótur sundaljóma
Leó flatur fellur þá
fjallið stundi tóma.

Vísur: Sigurður Breiðfjörð
Kvæðamaður: Kjartan Ólafsson (Hólmfríður Þorláksdóttir kenndi)
Stemma: Úr Breiðafirði

+ Leó hraður hefur þá

Ferskeytt, víxlhent

Rímur af Núma kóngi Pompílssyni12. ríma, vísur 21 — 24

Leó hraður hefur þá
hjólum snúið svara:
Heillamaður hermdu frá
hvert á nú að fara?

Númi elur andsvör þá:
Ills er völ að kalla
eg vil felast ef að má
innst í dölum fjalla.

Birni hér og ljónalið
lands um slóðir harðar
betra er að búa við
en blindar þjóðir jarðar.

Slíkir fæla friðinn há
og flesta sælu níða
leitum þrælaliði frá.
Leó mælir síðan.

Vísur: Sigurður Breiðfjörð
Kvæðamaður: Kjartan Ólafsson
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Hjálmar Lárusson

+ Þig ég unga þekkti best

Ferskeytt, framsamyrt / óbreytt

Þig ég unga þekkti best,
þig ég unga kyssti,
þig ég unga þráði mest,
þig ég unga missti.

Kært er að muna kvöldin löng,
kvöldin mánaljósa,
ævin leið í ást og söng,
elskulega Rósa.

Vísur: 1. Magnús Guðmundsson, 2. Natan Ketilsson
Kvæðamaður: Kjartan Ólafsson (kenndi og kvað)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Natan Ketilsson