+ Hels á slóðir hrapaði (1)

Ferskeytt, hringhent

Um Árna Frímann Árnason kvæðamann

Hels á slóðir hrapaði,
harmar þjóðin skaðann,
Árni góði gersemi,
gullvel ljóðin kvað hann.

Þó hann gengi í þrælaspor,
þrátt hjá mengi hló ‘ann,
róms í strengi von og vor
vel og lengi dró ‘ann.

Þegar bylur bæinn sló,
burtu yl að strjúka,
muna þilin reifði ró
raddarspilið mjúka.

Öls í krá ef komast vann,
kættist dável sálin.
Man ég þá er þrumdi hann
Þorsteins Hávamálin.

Vísur: Sveinn Hannesson frá Elivogum
Kvæðamaður: Kjartan Ólafsson (kenndi og kvað)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu

+ Grána kampar græði á

Ferskeytt, hringhent

Rammislagur

Grána kampar græði á,
gjálpir hampa skörum,
titra glampar til og frá,
tifur skvampa í fjörum.

Ögra læt mér Ægis-lið
upp úr sæti malar,
Ránar dætur dansa við
deigum fæti kjalar.

Undir bliku beitum þá
bát og strikið tökum.
Stígum vikivakann á
völtum kviku-bökum.

Vísur: Stephan G. Stephansson
Kvæðamaður: Magnús Sigurðsson (kenndi og kvað)
Stemma: Úr Mýrasýslu. Sigurður Jónsson

+ Utan sendar öldur sér

Ferskeytt, hringhent

Rammislagur
Framhald

Utan sendar öldur sér
áfram henda og flýta,
vilja að lendi í lófa mér
löðurhendin hvíta.

Byljir kátir kveðast á,
hvín í sátri og hjöllum.
Báruhlátrar hlakka frá
hamralátrum öllum.

Stormur þróast, reigir rá,
Rán um flóann eltir,
kólgum sjóarkletta á
köldum lófa veltir.

Vísur: Stephan G. Stephansson
Kvæðamaður: Magnús Sigurðsson (kenndi og kvað)
Stemma: Úr Mýrasýslu

+ Gólf er liðugt, löng og stór

Ferskeytt, hringhent

Rammislagur
Framhald

Gólf er liðugt, löng og stór
leikjarsvið hjá unni.
Spriklar, iðar allur sjór,
ystu mið að grunni.

Byljir kátir kveðast á,
hvín í sátri og hjöllum.
Báruhlátrar hlakka frá
hamralátrum öllum.

Stormur þróast, reigir rá,
Rán um flóann eltir,
kólgum sjóarkletta á
köldum lófa veltir.

Heim að vörum hleypum inn
hátt á skörum rasta.
Bára ör, á arminn þinn
önd og fjöri ég kasta.

Skipið stansar, skýst á hlið
skeið til landsins horfna.
Bárur glansa og glotta við,
glatt er á dansi norna.

Mastrið syngur sveigt í keng,
seglið kringum hljómar,
raddir þvinga úr stagi og streng
stormsins fingurgómar.

Leggðu barminn alvot að,
aftanbjarma gljáa.
Strjúktu harm úr hjartastað,
hrönn in armabláa.

Vísur: Stephan G. Stephansson
Kvæðamaður: Magnús Sigurðsson (kenndi og kvað)
Stemma: Úr Mýrasýslu

+ Fer um jörðu feigðar-nótt

Ferskeytt, óbreytt / hringhent

Fer um jörðu feigðar-nótt,
fölnar allur gróður.
Hatri bólgin heimsins drótt
herðir dauðaróður.

Ferðum skynda skýin grá,
skekin vindum hörðum.
Byljir hrindast ólmir á
uppi í tindaskörðum.

Kaldar hærur kemba föll
kylja hlær við dranga.
Fjúki slær um freðinn völl
frostið særir vanga.

Vísur: Jón Magnússon
Kvæðamaður: Magnús Pétursson
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Jón Konráðsson

+ Hljóð á kvöldi vetrarvöld

Ferskeytt, oddhent / hringhent / óbreytt

Hljóð á kvöldi vetrarvöld
vefa tjöld úr snævi.
Reisa öldur faldafjöld
fram á köldum sævi.

Sumar kveður. Svell og mjöll
sveipar beðinn rósa.
Hljóðnar gleði hjartans öll,
harmar í geði frjósa. –

Úti stormur kaldur hvín,
kular inn að hjarta.
Yfir daginn dánarlín
dregur nóttin svarta.

Lindin tára tíðum þvær
tregasárin hörðu.
Margur frár, sem flaug í gær,
fallinn er nár að jörðu.

Vísur: Jón Magnússon
Kvæðamaður: Magnús Pétursson
Stemma: Úr Borgarfirði

+ Yfir þennan auða sand

Ferskeytt

Yfir þennan auða sand
einhver liggur gata;
því mun fram á ljóssins land
léttur vandi að rata.

Sofna skaltu sætt og rótt,
sorgum öllum gleyma.
Bráðum komin nú er nótt,
næði til að dreyma.

Þó að fjúki fönn í skjól,
fagnar allt sem lifir:
Hillir undir heilög jól
hæsta fjallið yfir.

Þegar aðrir yndisgnótt
út í glaumnum finna,
signir mig, þótt sortni nótt,
sólskin drauma minna.

Vísur: Jón Magnússon
Kvæðamaður: Magnús Pétursson
Stemma: Úr Kjós

+ Ljóðið kveðst í dott og dá

Ferskeytt

Ljóðið kveðst í dott og dá;
draumar við því taka.
Nóttina líður óðum á,
augað er þreytt að vaka.

Græðir hefur gullnar brár,
glymur í vestanhroða.
Faldinn hvíta breki blár
brýtur í geislaroða.

Bjargið sverfur bára þung,
bifast storðar hjarta.
Glottir Helja, gjálpar lung
gleypir myrkrið svarta.

Þó að ógni aldan há,
aftur knörrinn réttist.
Borðið gefur annað á,
út af hinu skvettist.

Vísur: Jón Magnússon
Kvæðamaður: Magnús Pétursson
Stemma: Úr Borgarfirði

+ Þarna ertu, máni minn

Ferskeytt

Mánavísur

Þarna ertu, máni minn,
mildur þig að sýna,
lætur til mín ljóma inn
ljúfa geisla þína.

Hvaðan ertu kominn frá,
hvert á nú að halda?
Viltu yfir lönd og lá
ljósinu þínu tjalda?

Aldrei varstu eigingjarn,
alla jafnt þú gladdir,
unga rós og eyðihjarn
ástar geislum kvaddir.

Aldrei þáðirðu eyris laun
aðstoð fyrir veitta,
er fylgdirðu yfir fjöll og hraun
ferðamanni þreytta.

Vísur: Herdís Andrésdóttir
Kvæðamaður: Bjarni Guðmundsson (kenndi og kvað)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu

+ Má ég byggja eitthvað á

Ferskeytt

Mánavísur
Framhald

Má ég byggja eitthvað á
unaðsljóma þínum,
hefurðu með þér heilsun frá
horfnum vinum mínum?

Geturðu ekki glatt mig neitt
geislum vonarhlýjum?
Hefurðu af því höfuð þreytt
hulið dimmum skýjum.

Þegar himinhvolfin blá
kvíslast stjörnurósum,
komdu og láttu kveikja á
kvikum norðurljósum.

Þó að bjáti eitthvað á
og ami brjósti tregi,
gleggst við þeirra gullnu brá
grilli ég lífsins vegi.

Vísur: Herdís Andrésdóttir
Kvæðamaður: Bjarni Guðmundsson (kenndi og kvað)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu

+ Eg hef fengið af því nóg

Ferskeytt

Ein á báti

Eg hef fengið af því nóg,
oft með sára lófa,
út á lífsins ólgusjó
ein á báti að róa.

Sjaldan hefir lognblíð lá
létt á þreyttum mundum,
það hefir gefið oftast á
og yfir gengið stundum.

Eg hef líka orðið mát
og undan látið skríða.
Enginn veit, hvað einn á bát
á við margt að stríða.

Þegar ég eygði engin lönd
og ekkert fann mér skýli,
þá hefir Drottins hjálparhönd
haldið bát á kili.

Vísur: Herdís Andrésdóttir
Kvæðamaður: Bjarni Guðmundsson (kenndi og kvað)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Sigurður Jónasson, Ásum

+ Þú, sem elskar alla menn

Ferskeytt

Ein á báti
Framhald

Þú, sem elskar alla menn
og allra greiðir veginn,
lofaðu mér að lenda senn
við landið hinum megin.

Fyrir handan feigðarströnd,
fjarri sorg og kvíða,
segja þeir enn þá óbyggð lönd
úti í geimnum víða.

Þar mun eitthvert eyðisvið
öndu fyrir mína.
Það er aldrei vandgert við
vesalinga þína.

Engan heimta ég Edensskóg
eða dýrðarheima.
Lof mér bara að lifa í ró
og liðnum tíma gleyma.

Vísur: Herdís Andrésdóttir
Kvæðamaður: Bjarni Guðmundsson (kenndi og kvað)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Þorleifur Jónsson, Blönduósi

+ Upp á grundu einstig fann

Ferskeytt, hringhent

Rímur af Bernótus Borneyjarkappa8. ríma, vísur 17 — 20

Upp á grundu einstig fann
öðlingskundur téður,
komst svo undir kastalann
kesjuþunda meður.

Hátt upp gerði hrópa þar
horskur skerðir fleina:
„Býð eg verði Borneyjar
brynju og sverð að reyna“.

Hróp í staðinn heyrði þá
hirðir naðurs þetta,
múrinn glaður gengur á,
gerði hraður frétta:

„Hver er gildi seggur senn,
sem oss hildi býður?“
Svara vildi aftur enn
arfi mildings fríður.

Vísur: Magnús í Magnússkógum
Kvæðamaður: Sigurður S. Straumfjörð (kenndi og kvað)
Stemma: Úr Mýrasýslu

+ Hvernig líst nú ykkur á

Ferskeytt

Rímur af Gunnari á Hlíðarenda2. ríma, mansöngur, upphaf

Hvernig líst nú ykkur á
upphaf minna ljóða?
Ef menn vilja fleiri fá
fram skal ég þau bjóða.

Enginn þarf að ætlast til
að ég lasti sjálfur
eigin smíðað óðarspil
ekki er ég sá kálfur.

Þó ég eigi upp á mót
um það fátt skal láta,
það er lítil búskapsbót
að berja sér úr máta.

Áðan söng ég Andraljóð
og endurnæring hugar
vildi í þennan sækja sjóð,
en svei mér ef það dugar.

Vísur: Sigurður Breiðfjörð
Kvæðamaður: Sigurður S. Straumfjörð (kenndi og kvað)
Stemma: Úr Mýrasýslu

+ Elli kveð ég óðinn minn

Ferskeytt, hringhent

Elli kveð ég óðinn minn
æfihreðum slitinn,
meðan héðan hugurinn
horfir veðurbitinn.

Bjó mér innsta sorgarseið
sælu grynnsta knepið;
örðug finnst mér æfileið
upp á hinsta þrepið.

Fjölgar árum, öldungsbrá
elligárur hjúpa,
litar hárin hélugrá
harma-báran gljúpa.

Ein þó fæðist unaðs-stund
yl sem glæðir vonum.
Innra blæðir bólgin und
böls í næðingonum.

Vísur: Sveinbjörn Björnsson
Kvæðamaður: Sigurður S. Straumfjörð (kenndi og kvað)
Stemma: Úr Mýrasýslu

+ Oft ég náðar svefni svaf

Ferskeytt, hringhent / oddhent

Oft ég náðar svefni svaf
synda háður gjólu.
Nú er bráðum undið af
æfi þráðar spólu.

Ævin þrýtur einskis nýt
eignast lítinn seiminn,
á blágrýti ganga hlýt
gegnum vítis heiminn.

Lífs við bundinn lymskuhring
ligg á stundum grúfu,
heimsins undir óvirðing
úti’ á hundaþúfu.

Að bera stranga byrði hér
braut um langa kjósum.
Það síst angur þróar mér
þó að ég gangi á rósum.

Vísur: Baldvin Jónsson skáldi
Kvæðamaður: Björn Friðriksson (kenndi og kvað)
Stemma: Úr Skagafirði. Tómas Skúlason

+ Þögnin rýrist róms um veg

Ferskeytt, hringhent

Hjálmarskviða
Upphaf

Þögnin rýrist róms um veg,
raddir skírist háu;
kvæði stýra í vil eg
æfintýri smáu.

Efnið fjáð að fegurð mér
fræða tjáðu vinir;
margir áður um það hér
Íslands kváðu synir.

Bið ég þjóð ei þenki svinn,
þanka fróð í setri,
að ég hróður ætli minn
eldri ljóðum betri.

Hitt var meining mín – sem bið
mærðar greinist vinum –
ljóða hreina lögun við
líkjast reyna hinum.

Vísur: Sigurður Bjarnason
Kvæðamaður: Björn Friðriksson (Jósep Húnfjörð kenndi)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Auðbjörg Jónsdóttir, Illugastöðum

+ Funa síkis fágaður

Ferskeytt, hringhent

Ríma af Kjartani Ólafssynivísur 176 — 180

Funa síkis fágaður,
frægð sér ríka temur;
enginn slíkur Íslands bur
í mitt ríki kemur.

Forlög hvorgi forðumst vér
fjörs á torgi víðu.
Heim að borg svo hilmir fer,
hlaðinn sorgum stríðu.

Landi skeiðin flýgur frá
fram á breiðu höfin;
svani reiða sundur á
siglu greiðast tröfin.

Þöndu voðir vinda flog,
vellur froðan gráa,
rennur gnoðin öflug og
yfir boða háa.

Hratt um náhvals brunar braut
björninn frái húna;
loks úr háu hafi skaut
hauðri, snjái búna.

Vísur: Símon Dalaskáld
Kvæðamaður: Björn Friðriksson (kenndi og kvað)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Ragnheiður Sveinsdóttir

+ Gnudda ég broddi fjaðra fals

Ferskeytt, frumhent

Hjálmarskviða
Upphaf

Gnudda ég broddi fjaðra fals
fast að letra spjeldi,
þar sem Oddur Arngrím jalls
ellefu niðja feldi.

Entist þor og afbragðs megn
eins, við fjendur digra;
stáls úr sporum steypiregn
streymdi um lendi vigra.

Stála þingi ströngu lauk
stirðnuð gliðna sárin;
upp af dyngju rauðri rauk,
rispar tönnum nárinn.

Geysi móður síður sár,
svala brjósti þeyrinn,
uppi rjóður stála stár
styðst við dreyrgan geirinn.

Vísur: Hjálmar Jónsson frá Bólu
Kvæðamaður: Sigríður Hjálmarsdóttir (Anna Bjarnadóttir kenndi)
Stemma: Frá Akranesi. Bjarni Jónsson, Sýruparti

+ Sorfið biturt sára tól

Ferskeytt

Rímur af Göngu-Hrólfi16. ríma, vísur 52 — 55

Sorfið biturt sára tól
söng á skjaldar nöglum,
Möndull upp á einum hól
álma þeytti höglum.

Margur þar af fjörtjón fann
fantur á Hristar veldi,
því með hverri hremsu hann
hrók til jarðar felldi.

Mætir furðu mannfallið,
margir brölta á hnjánum,
hvorutveggja hrynur lið
hrátt sem gras af ljánum.

Saumar rifna darra dúks,
dreyra undin skvetti,
heitur mökkur hjörva fjúks
himininn pentum setti.

Vísur: Hjálmar Jónsson frá Bólu
Kvæðamaður: Sigríður Hjálmarsdóttir (Anna Bjarnadóttir kenndi)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Jón Konráðsson

+ Hér ég sóa hýr á svip

Ferskeytt, hringhent

Úr ljóðabréfi 1910

Hér ég sóa hýr á svip
heyi, snjó og korni,
einn aflóga á ég grip
innst í króarhorni.

Frá mér þjóðir það eg finn
þróast óðum vandi;
að ellimóður auminginn
er í góðu standi.

Enn um hraun og akra má
eyða kaunum mínum,
lifa raunar ætla á
eftirlaunum sínum.

Þó að hallist hagsældin
hræðist varla beimur,
kembi ég allan klárinn minn
hvað sem spjallar heimur.

Vísur: Björn Friðriksson
Kvæðamaður: Björn Friðriksson
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Björn Friðriksson

+ Eldur sannar gildi gulls

Ferskeytt, hringhent

Eldur sannar gildi gulls,
gleðin svanna hreina;
þrautir kanna þrek til fulls
þegar mann skal reyna.

Væri bjart, þótt blési kalt,
bættist hjartans styrkur;
það er hart, að eygja um alt
andlegt svartamyrkur.

Glópskan ristir glöpin þungt,
græna kvisti heggur,
þar sem lista-eðlið ungt
örbirgð kistuleggur.

Ég hef gengið grýtta slóð
glapinn lengi sýnum;
skal þó enginn harmahljóð
heyra í strengjum mínum.

Vísur: Jón S. Bergmann
Kvæðamaður: Björn Friðriksson
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Björn Friðriksson

+ Dalsins þrönga dimmir skaut

Ferskeytt, hringhent

Dalsins þrönga dimmir skaut;
drauma löngun stækkar.
Fuglasöngur svífur braut.
Sólin göngu lækkar.

Foldarvanga fæ ég séð.
Frost þar ganga að verki.
Blöðin hanga héluð með
haustsins fangamerki.

Aldrei náinn vekur vor;
vona þráin sefur.
En það á fáein farin spor
flest, sem dáið hefur.

Hafs frá hveli heim um fjöll
Hríðarélin ganga.
Blómin felast önduð öll
undir héluvanga.

Vísur: Gísli Ólafsson
Kvæðamaður: Björn Friðriksson (kenndi og kvað)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu

+ Ergir lundu erfiðið

Ferskeytt, hringhent / sléttubönd

Ergir lundu erfiðið
einn ég dunda á teigi.
Enginn hundur ljær mér lið
litla stund úr degi.

Vakan þreytir hugarhægð
hlekkjum skeytir megin.
Stakan veitir gleðignægð
geislum skreytir veginn.

Bölið næðir hýran hug,
hnekkir kvæðum snjöllum,
ölið glæðir dýran dug
drekkir mæðum öllum.

Lífs í krapa köldum sjó
kólgan napurt lemur.
Síst ég tapa sinnuþró
sigg í skapið kemur.

Vísur: Sveinn Hannesson frá Elivogum
Kvæðamaður: Björn Friðriksson (kenndi og kvað)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Sveinn Hannesson frá Elivogum

+ Þú ert að heilsa, þorri minn

Ferskeytt

Þorravísur

Þú ert að heilsa, þorri minn,
þýður og hýr á brána.
Við það hjá mér vakna finn
vors- og sumarþrána.

Oft varst þú með ygglda brá,
illa jafnan séður.
Hverju er að þakka þá
þetta blessað veður?

Þú hefur gleymt, þín gödduð spor
greyptu líf í dróma.
Þig hefur dreymt, þú værir vor
vafið sólarljóma.

Hættu köldum hríðaglaum,
hættu slysum valda.
En láttu þig þennan dýrðardraum
dreyma um aldir alda.

Vísur: Herdís Andrésdóttir
Kvæðamaður: Magnús Pétursson (Ingibjörg Friðriksdóttir kenndi)
Stemma: Úr Kjós. Sveinn Jónsson, Saltvík

+ Fylli vindur voðirnar (1)

Ferskeytt, hringhent

Siglingavísur

Fylli vindur voðirnar,
væri synd að neita,
að þá sé yndi yfir mar
árahind að beita.

Þegar í hroða hræða drótt
Hvæsvelgs voða sköllin,
þýtur gnoðin áfram ótt
yfir boðaföllin.

Svigni band og bogni rá,
bólgni strandir hlýra,
eykst þá vandi um úfinn sjá
öldugandi að stýra.

Þegar kringum skipið skafl
skall með ringi sína,
best sá þvinga báruafl
Breiðfirðinga mína.

Vísur: Herdís Andrésdóttir
Kvæðamaður: Magnús Pétursson, Kjós (Anna Bjarnadóttir kenndi)
Stemma: Úr Skagafirði. Baldvin Jónsson skáldi

+ Ó, ég veit að enn þú manst

Ferskeytt

Kveðja

Ó, ég veit að enn þú manst,
ung með tár á hvarmi,
er þú halla höfði vannst
hægt að mínum barmi.

Um þig lagði eg hlýja hönd
hugði að mýkja sárin.
Þá voru ásta bundin bönd,
þú brostir gegnum tárin.

Við mig brástu heitin hreint,
hjartað gafstu öðrum.
Ó, þú birtist alltof seint
undan dularfjöðrum!

Þó þú leiddist langt frá mér,
lifir ástarblossi.
Ég get ei lengur gefið þér
góða nótt með kossi.

Vísur: Gísli Ólafsson
Kvæðamaður: Magnús Pétursson (Ingibjörg Friðriksdóttir kenndi)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu

+ Umtalsmálin eru hvurt

Ferskeytt, hringhent / framsamyrt / óbreytt

Umtalsmálin eru hvurt
úr mér sálin dæmist,
hver mun Pálinn bera burt
er banaskálin tæmist.

Ó, þú þunga umbreyting.
Ó, þú sprund og halur.
Ó, þú tunga og allt umkring.
Ó, þú Víðidalur.

Forlög koma ofan að,
örlög kringum sveima,
álögin úr ugga stað,
ólög vakna heima.

Slítist hölt og slitni gjörð
slettunum ekki kvíddu.
Hugsaðu hvorki um himin né jörð
en haltu þér fast og ríddu.

Vísur: 1 - 2 Páll Vídalín, 3 Guðmundur Andrésson, 4 Þórður á Strjúgi
Kvæðamaður: Björn Friðriksson (kenndi og kvað)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Páll Vídalín

+ Í veðri geystu riðar reyr

Ferskeytt, hringhent

Í veðri geystu riðar reyr,
rós fær breyst á kvisti,
en þú veist að aldrei deyr
ástarneistinn fyrsti.

Vel þér hæfir, væna mey,
vera gæf á kveldin.
Niður kæfa kanntu ei
kærleikshrævareldinn.

Yfir harma sollinn sjá
sé ég bjarma’ af vonum,
meðan varmann finn ég frá
fyrstu armlögonum.

Oft hjá sprundum uni ég mér,
armi bundinn ljósum.
En þar hef ég fundið — því er ver —
þyrna undir rósum.

Vísur: Gísli Ólafsson
Kvæðamaður: Björn Friðriksson
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Gísli Ólafsson

+ Lömuðum óðar lykli fyr

Ferskeytt, hringhent

Rímur af Hálfdani konungi gamla og sonum hans12. ríma, upphaf

Lömuðum óðar lykli fyr
læsti ég hljóða kofa,
hlýrar vóðu hæð undir,
hinir stóðu að ofan.

Refa sést mjög bratt á ból
bjó það flestum amann,
í suðvestri var þá sól
vermdi gesti framan.

Valir eggja voga dags
vera hregg í geira,
en þeim að leggja þó ei strax,
það fá seggir heyra.

Eggjan stóðust ekki þar
Ullar rjóðu mækja,
beint upp vóðu brekkurnar
brátt að þjóðum sækja.

Vísur: Síra Hannes Bjarnason
Kvæðamaður: Björn Friðriksson (kenndi og kvað)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Sigurbjörn Hansson

+ Stuðlaskrá úr hugarheim

Ferskeytt, hringhent

Stuðlaskrá úr hugarheim
held ég náist varla,
hart þó slái höndum tveim,
hærugráan skalla.

Friðar grand, ef finnum í
félags vandamálum,
breyskum anda brynnum í
brags og landa skálum.

Mátt að vanda mestan finn
máls frá gandi þínum.
Láttu andans eldinn þinn
erjum granda mínum.

Dofnar minni dvína þrár
dauðans finn eg máttinn.
Lamað sinni lykjast brár
loka- spinn eg þáttinn.

Vísur: Eiríkur Jónsson
Kvæðamaður: Björn Friðriksson
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Friðrik Magnússon

+ Brýni kallinn bragsköfnung

Ferskeytt, hringhent / víxlhent

Brýni kallinn bragsköfnung
bregst þá valla snilli,
stálorð falla straumaþung
stuðlafjalla milli.

Reyndu að bjóða rekkum þekk
róms og óðar fullið,
sittu ei hljóð á Sökkvabekk
söngs og ljóða gullið.

Máls í hreðum magnast sköll
mærðar jöfur slyngi.
Yrkir, kveður andans tröll
en sú djöfuls kynngi.

Boðnar fullið bera skál
berðu fullum drengjum.
Áttu fulla andans glóð
orkufull í strengjum.

Vísur: Eiríkur Jónsson
Kvæðamaður: Björn Friðriksson (Ingibjörg Friðriksdóttir kenndi)
Stemma: Huldumannalag

+ Ýmsa hvekkir útsýn breytt

Ferskeytt, hringhent

Ýmsa hvekkir útsýn breytt
örlög þekking banna,
fá því ekki framhjá sneytt
fallgröf blekkinganna.

Margur kátur maður trað
myrkt um sátur kífsins.
Reynist fát þó reynt sé að
ráða gátur lífsins.

Brim þó stækki bili fley
bragna fækki dáðum,
voðir hækkum hræðumst ei
hrannir smækka bráðum.

Orku taki treysti geð,
tár þó að vaki á hvarmi,
fram skal aka fjöri með
feigs af vakar barmi.

Guðum borna gleði þrá
glæðir forna dáðin,
mér þó sporni marki frá
meinleg norna ráðin.

Vísur: Þórarinn Bjarnason
Kvæðamaður: Björn Friðriksson (Ingibjörg Friðriksdóttir kenndi)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Jón Gunnarsson, Sporði

+ Þó til skaða löðri lá

Ferskeytt, hringhent

Þó til skaða löðri lá
lífsins svaðil brautar,
syndi ég glaður ofan á
oftast hvað sem tautar.

Fyrr mér sóttist leiðin létt
lífs um óttuskeiðið,
trausti og þrótt var takmark sett
treður nótt of heiðið.

Sliti veldur viðspyrnið
vörnin seld óráðum.
Illa heldur eingirnið,
í andans feldi snjáðum.

Mest þá ægir meinadrif
mjöð er fæ ég kneyfa,
kátur hlæ og hækka svif
hróðrar blæjum veifa.

Vísur: Þórarinn Bjarnason
Kvæðamaður: Björn Friðriksson (Jósep Húnfjörð kenndi)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Sigurður Jóhannesson á Mánaskál

+ Það er vandi að sjá um sig

Ferskeytt, hringhent

Það er vandi að sjá um sig,
svo ei grandist friður.
Hvert það band, sem bindur mig,
bælir andann niður.

Kveður norna kalda raust
— kliður fornra strauma —
aftur morgnar efalaust
eftir horfna drauma.

Það er vandi að velja leið,
vinna fjöldans hylli;
láta alltaf skríða skeið
skers og báru milli.

Það er öllum búningsbót:
bæta úr göllum ljótum,
stríða föllum strauma mót,
standa ei höllum fótum.

Vísur: Bjarni Gíslason Skagafirði
Kvæðamaður: Kristmann Sturlaugsson (kenndi og kvað)
Stemma: Úr Dalasýslu

+ Nú skal ýta út á djúp

Ferskeytt, hringhent

Í beitivindi

Nú skal ýta út á djúp,
— undir þýtur strengur —
stafns með rýting Ránar hjúp
rista í hvítar lengjur.

Gnoð voðsett og seglum knúð
sífellt þéttir skriðinn,
ólgan brettir börð við súð,
báran fettir kviðinn.

Fingrum smellir froðu-grá,
feig og ellilotin —
keyrir skellinn kinnung á
kvika í felling brotin.

Slettum hreytir, hoppar inn
hrönn með breyti-lyndi,
þegar steytir knarar-kinn
Kári í beitivindi.

Vísur: Kristinn Stefánsson
Kvæðamaður: Kristmann Sturlaugsson (kenndi og kvað)
Stemma: Úr Dalasýslu

+ Ég er að horfa hugfanginn

Ferskeytt

Lækurinn

Ég er að horfa hugfanginn
í hlýja sumarblænum,
yfir litla lækinn minn,
sem líður fram hjá bænum.

Ó, hve marga æskustund
áður hér ég dvaldi.
Saklaust barn með létta lund
og leggina mína taldi!

Bæ ég lítinn byggði þar,
og blómum utan skreytti.
Yfir tún og engjarnar
oft ég læknum veitti.

Nú er ekkert eins og fyrr,
á öllu sé ég muninn:
löngu týndir leggirnir
og litli bærinn hruninn.

Vísur: Gísli Ólafsson
Kvæðamaður: Kristmann Sturlaugsson (kenndi og kvað)
Stemma: Úr Dalasýslu