+ Ég hef kynnst við trega og tál
Ferskeytt, hringhent
Ljósblik
Ég hef kynnst við trega og tál,
trúin finnst mér lygi.
Ljósblik innst í eigin sál
er mitt hinsta vígi.
Ljóðastrengi lék ég á
lítt þó gengi að vonum.
Hef því lengi hrundið frá
hugar-þrengingonum.
Ég hef látið lausan taum,
lítt með gát á strengjum,
og úr máta undan straum
ýst með kátum drengjum.
Hefir skeikað hæfni þrátt,
hugur reikað víða.
En að leika lokaþátt
lítt mér eykur kvíða.
Vísur: Bjarni Gíslason
Kvæðamaður: Kristmann Sturlaugsson (kenndi og kvað)
Stemma: Úr Dalasýslu
+ Brandinn góma brast sönghljóð
Ferskeytt, hringhent
Rímur af Andra jarli — 17. ríma, vísur 6 — 9
Brandinn góma brast sönghljóð,
brúði fróma gleðja,
þar sem róman stranga stóð,
stynur óma beðja.
Kolbeinn lætur brandinn blá,
baugs við sæti góla;
hildar stræti harður á,
Högni mætir sjóla.
Ýmsum skall þar högg á hlið,
hlífar varla duga,
þar ei spjallast grand um grið,
grimmdin svall í huga.
Lengi stirt þeir lemjast á,
líkir virtust árum,
hlífði skyrtan Högna þá,
hann og firrti sárum.
Vísur: Gísli Konráðsson
Kvæðamaður: Kristmann Sturlaugsson (Anna Bjarnadóttir kenndi)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Björn Björnsson nepja
+ Norðri hallar höfði að
Ferskeytt, hringhent
Til Fjallkonunnar
Norðri hallar höfði að
hreinni fjalla-meyju.
Hún varð falleg fyrir það,
færð í mjallar-treyju.
Himinn geldur honum það,
henni er veldur sökum.
Hún á eld í hjartastað,
hjálm úr felldum jökum.
Frægðartak hjá frjálsri þjóð
forði sakar völdum,
hjá oss vakir heilög glóð
hulin klakatjöldum.
Meðan hýsir göfgan gest
góðra dísa setur,
það, sem íslenskt er og best,
aldrei frýs um vetur.
Vísur: Jón S. Bergmann
Kvæðamaður: Kristmann Sturlaugsson (kenndi og kvað)
Stemma: Úr Dalasýslu. Kristín Sæmundsdóttir
+ Dáð í sakadóm var breytt
Ferskeytt, hringhent óbreytt
Dáð í sakadóm var breytt,
dregið blak á sveininn,
gott er bak, sem getur þreytt
Grettistak við steininn.
Ytri kynni útlagans
ekki að sinni kvarta,
enginn finnur meinið manns
marið inn við hjarta.
Glaður lífsins gríp ég full, —
geri ekkert hálfur.-
ef ég heimsins græði gull
að grjóti verð ég sjálfur.
Brot og hegning yfir allt
eltir þegna og fljóðin,
og þess vegna andar kalt
oft í gegnum ljóðin.
Vísur: Hjálmar Þorsteinsson frá Hofi
Kvæðamaður: Kristmann Sturlaugsson (kenndi og kvað)
Stemma: Úr Dalasýslu
+ Á sér bærði ei harmahret
Ferskeytt, hringhent
Gott veður — Góður fyrirboði
Til Maríu
Á sér bærði ei harmahret
hugans nærði þráin.
Þegar færðir þig um set
þá sig hrærði ei láin.
Breytta tíðin benti á lið
bætur smíða kynni.
Sumarblíðan brosti við
brenndi kvíðann inni.
Hér því nægja huga varð
heiðið sæir blárra,
fram sem drægi fyllri arð
fyrir lagi skárra.
Veðurgæði gleðja skap
gáfnasvæðið virkja.
Mörgum græða heilsuhrap
hugann glæða og styrkja.
Vísur: Bjarni Jónssson, Sýruparti
Kvæðamaður: Þuríður Friðriksdóttir (Ingibjörg Friðriksdóttir kenndi)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Björn Jóhannesson
+ Stilli ég ljóðastrenginn minn
Ferskeytt, hringhent
Stilli ég ljóðastrenginn minn
strönd fyrir glóða dýja.
Vona ég fljóðin fagni svinn
frá mér óði nýja.
Man ég áður æskan mér
yndi spáði friðar,
svinnar þráðasólir er
sátu á báðar hliðar.
Gleymdi angri muni minn
hjá mætri spangalínu;
nær ég vanga varman þinn
vafði að fangi mínu.
Og hjá blossa báru slóð
báli fossa hýrri,
fékk ég kossa fyrir ljóð,
flestum hnossum dýrri.
Vísur: Herdís Andrésdóttir
Kvæðamaður: Þuríður Friðriksdóttir. (Ingibjörg Friðriksdóttir kenndi)
Semma: Líndal Bjarnason
+ Meðan einhver yrkir brag
Ferskeytt
Meðan einhver yrkir brag
og Íslendingar skrifa,
þetta gamla þjóðar-lag,
það skal alltaf lifa.
Eru skáldum arnfleygum
æðri leiðir kunnar.
En ég vel mér veginn um
veldi ferskeytlunnar.
Ljóðadísin leikur þýtt
lögin öllum stundum
þeim, sem vefja hana hlýtt
hreinum listarmundum.
Þegar skyggði á þjóðarhag
þrældómsmyrkrið svarta,
ferskeytlunnar létta lag
lagði yl í hjarta.
Vísur: Jón S. Bergmann
Kvæðamaður: Þuríður Friðriksdóttir (Jósep Húnfjörð kenndi)
Stemma: Sólveigarlag
+ Setjumst undir vænan við
Ferskeytt
Setjumst undir vænan við,
von skal hugann gleðja.
Heyrum sætan svanaklið,
sumarið er að kveðja.
Tölum við um tryggð og ást,
tíma löngu farna,
unun sanna, er aldrei brást,
eilífa von guðs barna.
Endasleppt er ekkert hér,
alvalds rekjum sporið;
morgunn ei af aftni ber
og ei af hausti vorið.
Oflof valið æsku þrátt
elli sæmd ei skerði;
andinn getur hafist hátt,
þó höfuð lotið verði.
Vísur: Steingrímur Thorsteinsson
Kvæðamaður: Þuríður Friðriksdóttir (Ingþór Sigurbjörnsson kenndi)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu
+ Hugans þó sé nepja nóg
Ferskeytt, oddhent / hringhent
Hugans þó sé nepja nóg
nærist frjó og hlýnar,
vermir ró í Vatnaskóg
vonir sljóar mínar.
Þótt ég gleymi stund og stað
starfar dreyminn andi.
Beinir sveimi öruggt að
óðsins heimalandi.
Hugans máttur hreyfir sér
horfnar áttir kunnar.
Skal í háttum skemmta mér
skaut við náttúrunnar.
Nú við skæran geislaglans
grösin næring fanga.
Skógar bærist krónukrans
kitlar blærinn vanga.
Fagur glóir grasa her
grósku nóg auglýsir.
Veita fró og munað mér
mildar skógardísir.
Vísur: Þórarinn Bjarnason
Kvæðamaður: Þuríður Friðriksdóttir (Ingþór Sigurbjörnsson kenndi)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu
+ Blota sósuð blunda ský
Ferskeytt, hringhent /oddhent
Blota sósuð blunda ský
bára á ósum sefur.
Draumaljósum dottar í
daggar rósa vefur.
Vekja stráin vot á brá
vinda smáu flogin.
Geislum sáir sólin á
silfurgljáa, voginn.
Fífill hár og fjóla lág
fljóta í táraböðum;
daggargárar glitra á
grænum smára blöðum.
Vakir foss og viðum lágt
vindur hossar þýður.
Sólarblossi úr austurátt
árdagskossa býður.
Vísur: Baldvin Halldórsson
Kvæðamaður: Þuríður Friðriksdóttir (Kjartan Ólafsson kenndi)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Jónbjörn Gíslason
+ Láta gjalla létt og hátt
Ferskeytt, hringhent
Láta gjalla létt og hátt
ljóð sem falla öngum,
eg hef varla á því mátt
inni í fjallaþröngum.
Mínu lyndi svellur svalt,
sorgin blindar trúna;
traust í skyndi tapast allt
til að mynda núna.
Vill mér búa blóðug kjör
botnfraus trúar lindin;
illa fúinn andans knör
upp skal snúa í vindinn.
Bili megin þyngist þraut
þráin ei mig kallar.
Steinum fleygi af banabraut
brátt nú degi hallar.
Vísur: Þuríður Friðriksdóttir
Kvæðamaður: Þuríður Friðriksdóttir (Ingibjörg Friðriksdóttir kenndi)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Jóhann Sakkeusson
+ Hretin ganga, hlákan frýs
Ferskeytt, hringhent
Í seinustu snjóum
Hretin ganga, hlákan frýs,
hjörn í spangir setur.
Lengi hangir uppi á ís
óralangur vetur.
Heimakák og bæjarbaks
bús við skák mig reyrðu.
Beittu fáki fyrir strax,
fjósastrákur, heyrðu!
Helst ég finn að hraða-ferð
hressa sinnið kunni
einu sinni enn – í gerð
eða minningunni.
Vetur, myndir þú mér þá
þægð til yndis vinna;
að mér fyndist flogið á
fjöðrum vinda þinna?
Vísur: Stephan G. Stephansson
Kvæðamaður: Björn Friðriksson
Stemma: Úr Vopnafirði. Sigrún Gestsdóttir
+ Klárnum létta, er lagt af mjöll
Ferskeytt, hringhent
Klárnum létta, er lagt af mjöll
lítur þetta færi,
finnst sem sléttuð álfan öll
örskots sprettur væri.
Teygir í baugum taumabönd,
togar þau en hikar.
Glampa augun ákefð þönd,
allar taugar kvikar.
Skeifublaðið sköflum blá —
skændar traðir bítur,
þegar úr hlaði hoppi á
hringmakkaður þýtur.
Jór á sprikli yfir ís
æðið mikla stöðvar.
Fætur stikla, fagurt rís
fax, en hnyklast vöðvar.
Vísur: Stephan G. Stephansson
Kvæðamaður: Björn Friðriksson (Jósep Húnfjörð kenndi)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Guðmundur Guðmundsson lausi
+ Kveð ég þig, hin sæla sól
Ferskeytt, hringhent
Gamlársdagur
Kveð ég þig, hin sæla sól,
svásúðliga og hlýja,
þig hinnig við fjöllin fól
flóki digur skýja.
Þú með blíðu bjóst oss hjá
bægðir stríðum högum,
þú varst prýðin ekru á
árla og síð á dögum.
Ef ég væri vængjum á
vinda, hræranlegum,
eg þig færi að elta þá
á þeim skæru vegum.
Þegar óhryggur heimi frá
héðan Siggi gengur,
fjöllin skyggja ekki á
alvalds bygging lengur.
Vísur: Sigurður Breiðfjörð
Kvæðamaður: Björn Friðriksson
Stemma: Kunnug víða um land
+ Leggi menn á munaðshaf
Ferskeytt, hringhent
Leggi menn á munaðshaf,
minnkar senn í vösum.
Margur kennir óhægð af;
ástar brennigrösum.
Drjúgum lama drengja þrótt
djúpir amabrunnar.
Slíta gaman strengi fljótt
straumhvörf hamingjunnar.
Víða er andbyr, vegur háll
von á strandi maður,
meinum blandinn mannlífsáll
mörgum vandrataður.
Senn fer klaki, síst þú skalt
sjá mistaka vottinn,
tímans bakvið tjald ávallt
trúlega vakir drottinn.
Vísur: Guðmundur Gunnarsson, Tindum
Kvæðamaður: Björn Friðriksson
Stemma: Úr Breiðafirði. Jón Kr. Lárusson
+ Segl upp undin bera bát (1)
Ferskeytt, hringhent
Við byrjun sjóferðar
Segl upp undin bera bát
brims af sundi vöndu;
nú er lundin létt og kát
leggjum undan ströndu.
Þar mun eyðast þunglyndið,
þó að freyði boðinn;
yfir breiða úthafið
ákaft skeiðar gnoðin.
Þó að freyði úfin unn,
uns að leiðin þrýtur,
samt skal greiða út seglin þunn,
sjá hvað skeiðin flýtur.
Lífs mér óar ölduskrið,
er það nógur vandi,
þurfa að róa og þreyta við
þorska á sjó og landi.
Vísur: Sveinn Hannesson frá Elivogum
Kvæðamaður: Sigríður Friðriksdóttir (Ingþór Sigurbjörnsson kenndi)
Stemma: Úr Kjós. Guðlaugur Hinriksson
+ Glöggt ég nái greina þramm
Ferskeytt, hringhent
Hestafoss
Glöggt ég nái greina þramm
gljúfra máist þvitinn,
Þjórs- hvar áin æðir fram
öskugrá á litinn.
Straumadísir dansinn þar
dags mót lýsing stíga,
ógnun frýsa aflþrungnar
aðeins rísa og hníga.
Bærist negg þá báran traust
bjargs af egg sig lægir
straums í hreggi hlífðarlaust
hamravegginn fægir.
Bergið veitir viðnám mest
vá þó sveitir lerki,
ör þar breyting engin sést
eða þreytumerki.
Vísur: Þórarinn Bjarnason
Kvæðamaður: Sigríður Friðriksdóttir (Anna Bjarnadóttir kenndi)
Stemma: Úr Árnessýslu. Úthlíðar-Dóri
+ Sé ég gróa og grænka kvist
Ferskeytt, hringhent
Lóuvísur 1929
Sé ég gróa og grænka kvist
grynnist snjóatakið.
Vonin hló er heyrði ég fyrst
hlýja lóukvakið.
Ennþá mæta óminn þinn
oss þú lætur heyra,
vertu ætíð velkomin
vort þú kætir eyra.
Hingað seiðir sefa þinn
sól og hreiðurrunnar
yfir breiðu úthöfin
eru þér leiðir kunnar.
Enn er sveitin söm og fyrr
svip hún breytir varla,
þú skalt leita úr stormastyr
að ströndum heitra fjalla.
Vísur: Stefán Vagnsson, Hjaltastöðum, Skagafirði
Kvæðamaður: Sigríður Friðriksdóttir (Jósep Húnfjörð kenndi)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Pálína Pálsdóttir
+ Góðir menn og mjúklynd sprund
Ferskeytt, hringhent / víxlhent
Góðir menn og mjúklynd sprund
mitt ei fennir í skjólið,
hingað enn á ykkar fund
æfi rennur hjólið.
Hérna finn ég frelsi margt
fornu kynninganna
hér er inni hlýtt og bjart
hljómar minninganna.
Bragi svipheill semur skrá
söngvar liprir vaka.
Strengjagripinn Iðunn á
öndveg skipar staka.
Iðunn baðar oss í kveld
andans skarti sínu.
Við þann glaða arineld
orna ég hjarta mínu.
Vísur: Ólína Andrésdóttir
Kvæðamaður: Sigríður Friðriksdóttir
Stemma: Ólína Andrésdóttir
+ Heiðin stingur eiturör
Ferskeytt, hringhent
Heiðin stingur eiturör
inn í bringu mina.
Dauðinn glingrar kalt um kjör
kreppir fingur sína.
Sólin hneigir hýra brá
hafs og reginfjalla.
Laugavegi lífsins á
lúinn beygir alla.
Vil ég arðinn öðrum ljá
eftir jarðarkynni,
svo mín varða sjáist frá
sorgafjarðar mynni.
Fjallavegir fluttu mér
fjörráð megingalla,
reynslan þegir burtu ber
bergmál eigin kalla.
Vísur: Einar Backmann
Kvæðamaður: Sigríður Friðriksdóttir (Anna Bjarnadóttir kenndi)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Stefán Guðmundsson á Kirkjuskarði
+ Ljúft í fangi leikur þrá
Ferskeytt, hringhent
Ljúft í fangi leikur þrá,
léttir gangi mínum.
Lífsins angan fann ég frá
fölvum vanga þínum.
Oft ég missti merki glögg
málsins list að heyra.
Varir kyssti, dagsins dögg
drakk, en þyrsti meira.
Vígja hlaustu viljans þor
vona traustum ferjum,
breyttir hausti í blessað vor
byggðir naust úr skerjum.
Bjarta sveiga bindur nú
blóma feigum runni.
Skáldsins veigar skýrir þú.
Skál! Ég teyga’ að grunni.
Vísur: Einar Backmann
Kvæðamaður: Sigríður Friðriksdóttir
Stemma: Úr Skagafirði. Baldvin Jónsson skáldi
+ Eg skal reyna elskan mín
Ferskeytt, hringhent
Eg skal reyna elskan mín
óskum leyna hryggur,
innvið hreinu augun þín
ást mín beina þiggur.
Bit raunkjör þó bægi mér
býst þeim kjörum glaður;
með þeim svörum að ég er
enginn förumaður.
Hrjáð og grætt þú hefir mig
hjálpa ættir betur.
Ef ég hætti að elska þig
enginn bætt mig getur.
Harmi seldur hvíld ég kýs
kvölum veldur undin,
vil ég heldur viðjast ís
en vaða eldinn bundinn.
Vísur: Einar Backmann
Kvæðamaður: Sigríður Friðriksdóttir (Anna Bjarnadóttir kenndi)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Hanna í Holti
+ Laufið þýtur lokast blóm
Ferskeytt, hringhent
Laufið þýtur lokast blóm
leiðin þrýtur vinir.
Glaður lít ég drottins dóm
deyja hlýt sem hinir.
Fölna meiðir mæðir þraut
myrka leið ég þreyti.
Svífa heiða himinbraut
hjartans neyðarskeyti.
Sólin óttans sæði ber
signir hljótt að barmi.
Sef ég rótt þá sigin er
síðsta nótt að hvarmi.
Missi takið, færist ferst
fárra vakir hylli,
kyssi flakið, bærist, berst,
blárra jaka milli.
Vísur: Einar Backmann
Kvæðamaður: Sigríður Friðriksdóttir
Stemma: Úr Barðastrandarsýslu. Jóhann Eiríksson
+ Bænar velur blótskapinn
Ferskeytt, víxlhent
Rímur af Jómsvíkingasögu — 12. ríma, vísur 43 — 46
Bænar velur blótskapinn
byrstur meiðir spanga;
dimmir elið annað sinn,
eldur og reiðir ganga.
Vinda þeyrinn vaxa fer,
veðri kyrra linnir;
hálfu meira elið er
en hið fyrra sinnið.
Hetju jafni Hávarð sér
Hörgabrúði ljóta;
annan stafninn Yrpa ver,
allt eins knúð að skjóta.
Þá Sigvaldi hrópar hátt:
Hirðum minna að bíða;
burtu haldi héðan brátt
hver einn minna lýða.
Vísur: Sigurður Breiðfjörð
Kvæðamaður: Sigríður Friðriksdóttir (Anna Bjarnadóttir kenndi)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Jón Konráðsson
+ Dagsins runnu djásnin góð
Ferskeytt, víxlhent / hringhent
Rímur af Núma kóngi Pompílssyni — 12. ríma, vísur 15 — 18
Dagsins runnu djásnin góð,
dýr um hallir vinda;
morgunsunnu blessað blóð,
blæddi um fjallatinda.
Ljósið fæðist dimman dvín
dafnar næðið fróma
loftið glæðist láin skín
landið klæðist blóma.
Dýrin víða vakna fá
varpa hýði nætur
grænar hlíðar glóir á
grösin skríða á fætur.
Hreiðrum ganga fuglar frá
flökta um dranga bjarga
sólarvanga syngja hjá
sálma langa og marga.
Vísur: Sigurður Breiðfjörð
Kvæðamaður: Sigríður Friðriksdóttir
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Hnausa-Sveinn
+ Himinvindur hressing ljær
Ferskeytt, hringhent
Himinvindur hressing ljær
hjartans yndi vekur.
Sól í lindum skýja skær
skuggamyndir tekur.
Degi hallar – hart við land
húmið skallann rekur,
aldan spjallar út við sand —
undir fjallið tekur.
Er sig grettir umhverfið —
ást er sett á haka,
ekkert réttir andann við
eins og glettin staka.
Slær í hnjúka – villt um ver
vastir rjúka og krauma.
Hrannir strjúka úr muna mér
móðursjúka drauma.
Vísur: Guðmundur Eyjólfsson Geirdal
Kvæðamaður: Sigríður Friðriksdóttir (Ingþór Sigurbjörnsson kenndi)
Stemma: Úr kjós. Guðlaugur Hinriksson
+ Syrgir margt hin sjúka lund
Ferskeytt, hringhent / óbreytt
Syrgir margt hin sjúka lund
sálar partast styrkur.
Unaðsbjarta breytist stund
böls í svarta myrkur.
Sárt þó blæði sorgarund
sálarnæði banni.
Öll lífsgæði aðra stund
endurfæðast manni.
Lífsins fley er hlaðið harm
hrönn á borðið sýður.
Greini ég land við grafarbarm
góð þar höfn mín bíður.
Fellur snær á Garðarsgrund
gustar blær um vanga.
Blikusærinn bindur mund
báran hlær við dranga.
Vísur: Valdimar K. Benónýsson
Kvæðamaður: Sigríður Friðriksdóttir (Anna Bjarnadóttir kenndi)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Valdimar K. Benónýsson
+ Man ég gleggst, þú gladdir mig
Ferskeytt, óbreytt / hringhent
Minning
Man ég gleggst, þú gladdir mig,
góðum yndisfundum;
því skal fórnað fyrir þig
flestum vökustundum.
Þó að okkar ástaskeið
enti að beggja vilja,
þá er einum örðug leið
eftir að vegir skilja.
Tungan lostin missti mál,
mörkin brostin sýna;
þegar frostið fór um sál,
fann ég kosti þína.
Alltaf finn ég farinn dag
fyrir kynning mína;
síðast inn í sólarlag
sveipa eg minning þína.
Vísur: Jón S. Bergmann
Kvæðamaður: Sigríður Friðriksdóttir
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Ragnheiður Pálsdóttir
+ Austrið skreytir árdagsblik
Ferskeytt, hringhent
Morgunvísur
Austrið skreytir árdagsblik,
andar heiti blærinn.
Allt um sveitir kemst á kvik,
klæðum breytir særinn.
Fuglar sniðug hefja hljóð,
harpan liðugt bærist.
Bjarta viður geislaglóð
gleði og friður nærist.
Blunds af dýnum drótt er leyst,
deyfðum týna allir.
Allt mér sýnist endurreist,
einnig mínar hallir.
Kringum hrjónótt liggja lönd,
lúa og tjón er auka.
En við sjónhrings ystu rönd
eygi ég gróna lauka.
Vísur: Sveinn Hannesson frá Elivogum
Kvæðamaður: Jón Eiríksson, 9 ára
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Árni Árnason gersemi
+ Meðan hringinn hönd þín ber
Ferskeytt, hringhent
Ríma af Hjálmari og Ingibjörgu — vísur 56 — 59
„Meðan hringinn hönd þín ber,
hraust að stinga törgu,
geymdu í slyngum þanka þér
þína Ingibjörgu“.
Hans frá streymir svara sal
sagna eimur hagra:
„Aldrei gleyma eg þér skal,
ekran seima fagra.
Nær flugsvinnar engjum á
eggja linnir byljum
aftur finna þig skal þá,
þótt að sinni skiljum.
Hlýt ég ganga fljóði frá
fram á ranga hundinn“.
Hans í fangið fellur þá
fögur spanga hrundin.
Vísur: Sigurður Bjarnason
Kvæðamaður: Jón Eiríksson, 9 ára
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Bjarni Björnsson á Vatnshorni
+ Frelsi sálgar löggjöf lúð
Ferskeytt, víxlhent / hringhent
Frelsi sálgar löggjöf lúð
lítt fær þrifist öldin;
af oss tálga hold og húð
harðdræg yfirvöldin.
Liggur ber í bóli, þá
bragna hver er róinn.
Korðaverinn Kambi frá
hvergi fer á sjóinn.
Yndi sóar eyddur þrá,
ætíð þó er glaður.
Kiddi Jói Kambi frá
kvað nú skógarmaður.
Tíðum hló að veiðivað
vísur dró fram glaður.
Þannig Jói Kiddi kvað
karlinn grófraddaður.
Vísur: 1. Kristján Jóhann Jóhannsson, 2. - 4. Björn Friðriksson
Kvæðamaður: Björn Friðriksson
Stemma: Úr Barðastrandarsýslu. Jóhann Kristjánsson, Kambi
+ Ágirnd stingur auraþjón
Ferskeytt, hringhent
Ágirnd stingur auraþjón
annan hring þó gangi.
Hefur ringa sálarsjón
seggurinn fingralangi.
Dreypir bara víni á vör
vopna snari álfur,
geymir rara gætni í för
goodtemplarinn sjálfur.
Þó ei sýnist gatan greið
geðró týni eg eigi.
Fram ég mína feta leið,
farðu þína vegi.
Veit ég beinn minn vegur er
verður neinn ei skaðinn.
Kemur einn þá annar fer
ungur sveinn í staðinn.
Vísur: 1. - 2. Eggert Eggertsson, 3. - 4. Sigríður Jónsdóttir
Kvæðamaður: Björn Friðriksson
Stemma: Úr Húnavatnssýslu
+ Mína ef sjá vilt hagi hér
Ferskeytt, hringhent / óbreytt
Mína ef sjá vilt hagi hér
hryggða er á slær skugga,
hafðu þá í huga þér
hrakið strá á glugga.
Örðugan ég átti gang
yfir hraun og klungur.
Einatt lá mér fjall í fang
frá því ég var ungur.
Á lífsins fjalli er færð ógreið
frost og byljir skæðir,
og varða há sem villtum leið;
vísar á sigurhæðir.
Meinleg örlög margan hrjá
mann og ræna dögum;
sá er löngum endir á
Íslendingasögum.
Vísur: 1. Júlíana Jónsdóttir, 2. Þórarinn Sveinsson, 3. Theodóra Thoroddsen, 4. Þorsteinn Erlingsson
Kvæðamaður: Kjartan Ólafsson (Jósep Húnfjörð kenndi)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Pálína Pálsdóttir
+ Yfir kaldan eyðisand
Ferskeytt, óbreytt / hringhent
Yfir kaldan eyðisand
einn um nótt ég sveima,
nú er horfið Norðurland
nú á ég hvergi heima.
Guð þér sýni grið og skjól
gifta týnist eigi.
Ætíð skíni auðnusól
yfir þína vegi.
Allri mæðu flúinn frá
frjáls um svæði geimsins.
Lifðu í næði lengi hjá
láni og gæðum heimsins.
Sláttinn ljóða minnka má
máttinn hljóða brenndi.
Háttinn góða þrýtur þá
þáttinn fljóði sendi.
Vísur: 1. Kristján Jónsson, 2.- 4. Sveinn Hannesson frá Elivogum
Kvæðamaður: Kjartan Ólafsson
Stemma: Úr Húnavatnssýslu (tvísöngstemma)
+ Logar eldur andans glatt
Ferskeytt, hringhent
Logar eldur andans glatt
Ólafur heldur velli,
sextíu geldur sumra skatt,
sigri felldi Elli.
Enn um brána ítra fer
æskufrána blikið.
Búi lán og list hjá þér,
þó lokkar gráni mikið.
Lífs um sæ þú sigldir vel,
sveifst fyrir ægi-dranga.
Segl er lægir síðast Hel,
sýnir hún daginn langa.
Vísur: Ólína Andrésdóttir
Kvæðamaður: Ingibjörg Friðriksdóttir
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Ebeneser Árnason
+ Fylli vindur voðirnar (2)
Ferskeytt, hringhent
Siglingavísur
Fylli vindur voðirnar,
væri synd að neita,
að þá sé yndi yfir mar
árahind að beita.
Þegar í hroða hræða drótt
Hvæsvelgs voða sköllin,
þýtur gnoðin áfram ótt
yfir boðaföllin.
Signi band og bogni rá,
bólgni strandir hlýra,
eykst þá vandi um úfinn sjá
öldugandi að stýra.
Þegar kringum skipið skafl
skall með ringi sína,
best sá þvinga báruafl
Breiðfirðinga mína.
Vísur: Herdís Andrésdóttir
Kvæðamaður: Ingibjörg Friðriksdóttir
Stemma: Ragnhildur Ebeneserdóttir
+ Þó í hugans hörkubyl
Ferskeytt, óbreytt / hringhent
Þó í hugans hörkubyl
hryggðir vilji kvelja,
vermir gegn við skýjaskil
skin á milli élja.
Stundum þungbær þögnin er
þrauta lífs á vöku.
Alltaf lifnar yfir mér
ef ég raula stöku.
Ei ég hræðist mannleg mein
met því næði og penna.
Staka fæðist ein og ein
andans glæður brenna.
Vísur: Jósep S. Húnfjörð
Kvæðamaður: Ingibjörg Friðriksdóttir (Jósep S. Húnfjörð kenndi)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Jósep S. Húnfjörð
+ Ferskeytlan er lítið ljóð
Ferskeytt, óbreytt / víxlhent / hringhent
Ferskeytlan er lítið ljóð
létt, sem ský í vindi,
þung og dimm, sem þrumuhljóð,
þétt, sem berg í tindi.
Bæði í gleði og þrautum það
þjóðin fjalla syngur.
Á þessu lagi þekkist, að
þar fer Íslendingur.
Þar skal okkar móðurmál
minni dýrsta finna,
er þú hvessir stuðlastál
sléttubanda þinna.
Ljós þitt skíni manni og mey;
mýktu elli kalda.
Meðan týnist málið ei
muntu velli halda.
Þá um sögn og söng er hljótt,
segul mögnuð straumum
fremst af rögnum ríður nótt
reifuð þögn og draumum.
Vísur: Ólína Andrésdóttir
Kvæðamaður: Ingibjörg Friðriksdóttir
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Pálína Pálsdóttir
+ Tálið margt þó teflum við
Ferskeytt, hringhent
Tálið margt þó teflum við,
tjáir vart að flýja.
Veiku hjarta veitir frið
vorið bjarta, hlýja.
Strýkur glóey grösin smá
geislalófa þýðum.
Lautir, flóar litkast þá;
leysir snjó úr hlíðum.
Þröstur hátt með kátum klið
kveður þrátt í runna.
Þar er dátt að dreyma við
dásemd náttúrunnar.
Vorið hló og hratt sig dró
heim á gróin engi,
þar sem lóa í lágum mó
ljúfa sló á strengi.
Vísur: Herdís Andrésdóttir
Kvæðamaður: Ingibjörg Friðriksdóttir (Hólmfríður Þorláksdóttir kenndi)
Stemma: Úr Breiðafirði. Guðfinna Einarsdóttir
+ Himins stóli háum frá
Ferskeytt, hringhent
Himins stóli háum frá
hverfa njólutjöldin;
tímgast fjóla túni á;
tekur sólin völdin.
Býður fangið hlýtt og hljótt
hlíðarvangi fagur,
viðarangan – engin nótt,
allt er langur dagur.
Hýrt og blátt er himintjald,
hægur sláttur Unnar.
Glöð og sátt ég geng á vald
Guðs og náttúrunnar.
Mitt við hæfi’ á móðurarm
mun ég gæfu finna.
Þar skal svæfa hjartaharm
heillar ævi minnar.
Vísur: Herdís Andrésdóttir
Kvæðamaður: Ingibjörg Friðriksdóttir
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Björn Friðriksson