+ Oft ég vann að óska mér
Ferskeytt, hringhent / oddhent
Oft ég vann að óska mér
að ég þannig kynni;
líkt og hrannar loga ver
Löndungs spanna minni.
Lesa ef sá þig ljóða skrá
lifnaði hjá mér kæti;
kom ég þá og knjám þér á
kaus mér þráfallt sæti.
Ég var æði lág á legg
lítil bæði í mundum,
þó fyrir kvæði kátan segg
kyssa næði stundum.
Vísur: Júlíana Jónsdóttir
Kvæðamaður: Ingibjörg Friðriksdóttir
Stemma: Úr Breiðfirði. Jón Skúlason
+ Mig við óar afli því
Ferskeytt, hringhent / oddhent
Góuvísur
Mig við óar afli því,
um það þó ég syngi.
Nú er Góa gengin í
garð með snjóa kyngi.
Feikna hleður fönn á slóð
fyllir geðið kvíðinn.
Úti kveður kynjaljóð
kafaldsveðurhríðin.
Sveipa náir sveit og lá
svella gljái breðinn.
Æpa dáin ýlustrá
út við skjáinn freðinn.
Fer um hauður fugla nauð,
finnst ei auður skári.
Ernir snauðir ei fá brauð,
allt er í dauðans fári.
Lyngs á móum raskar ró
rjúpur tóa kringum.
Heim sig þó að húsum dró
hópur af snjótittlingum.
Vísur: Ólína Andrésdóttir
Kvæðamaður: Ingibjörg Friðriksdóttir (Hólmfríður Þorláksdóttir kenndi)
Stemma: Úr Breiðfirði. Jón Oddsson
+ Áður var eg ýtum hjá
Ferskeytt, hringhent
Vertíðarlok 25. nóvember 1934
Áður var eg ýtum hjá
oft í svari glaður.
Lítið þar nú eftir á,
afturfaramaður.
Smátt úr býtum bar ég þá
býsna lítilvirkur.
Þannig flýtur árum á
uns að þrýtur styrkur.
Gleðitíðir flögra frá
fyrir kvíðir lundin.
Tímann líður óðum á.
Engin bíður stundin.
Að mér sest er ellihaust
útveg flestum hallar.
Því er best að bera í naust
bát og festar allar.
Vísur: Bjarni Jónsson, Sýruparti
Kvæðamaður: Björn Friðriksson
Stemma: Frá Akranesi. Bjarni Jónsson, Sýruparti
+ Góu hrósa góðri má
Ferskeytt, hringhent
Góan og lóan
Á góuþræl 1932
Góu hrósa góðri má
gaf hún ljós og varma.
Kvaddi drós með bros á brá
og blíðu rós um hvarma.
Hana lengi muna má
miðlaði feng á vetri.
Hefur gengið garði frá
Góa engin betri.
Lífs framdrátt um lönd og höf
lands um áttir kunnar
þakka mátti og góða gjöf
gæðum náttúrunnar.
Vaxi lyng og laufblöð ný
lóa er slyng að muna,
bráðum syngur „dýrrindí“
dalahringhenduna.
Vísur: Bjarni Jónsson, Sýruparti
Kvæðamaður: Björn Friðriksson
Stemma: Frá Akranesi. Bjarni Jónsson, Sýruparti
+ Á mér hrína urðar spár
Ferskeytt, hringhent
Á mér hrína urðar spár
æsku dvína verkin
ellin mínar yglir brár
árin sýna merkin.
Efnis ringan óðinn þyl
orðin syng af munni,
hugann þvinga því hann vil
þreyta á hringhendunni.
Rofinn skjótt er rökkurmúr
rís af óttu fagur,
lífsins þróttur austri úr.
Eyðir nóttu dagur.
Hugans óðarfylgsni frá
fæðist ljóða senna,
þegar hlóðum andans á
aringlóðir brenna.
Vísur: Guðmundur Ingiberg Guðmundsson
Kvæðamaður: Björn Friðriksson (Tyrfingur Agnarsson kenndi)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Jón Jónsson frá Hofi
+ Það mótlæti þankinn ber
Ferskeytt, hringhent
Tálvon
Kveðið fyrir annan
Það mótlæti þankinn ber,
því er kæti vana,
brást ágætust meyjan mér,
man ég ætíð hana.
Blíðu vana beygð er önd
böls að flanar sægur,
fríða man eg faldaströnd
fram á banadægur.
Prettum slegið, mjúkt finnst mál
manns það beygir hjarta.
Þó að meyjar tryggð sé tál
tjáir ei að kvarta.
Áður bar mér auðnan þýð
ástríkari daga,
það sem var á þeirri tíð
það er farin saga.
Vísur: Guðmundur Ingiberg Guðmundsson
Kvæðamaður: Björn Friðriksson
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Ari Árnason, Illugastöðum
+ Þótt að lág við lúakjör
Ferskeytt, hringhent
Þótt að lág við lúakjör
lemstrun fái að vonum,
leitar þráin einatt ör
upp að Bláfjöllonum.
Við einstakan geislaglans
gleymast sakamálin,
af blætaki andvarans
er mér vakin sálin.
Ljóss mót vegi hugur hlær
hryggð burt slegið getur,
sínu eigin eðli nær
er og þreyir betur.
Bjartra nátta fanginn frið
finn ég háttu kunna;
örvar sláttinn, ymur við
afltök náttúrunnar.
Vísur: Björn Friðriksson
Kvæðamaður: Björn Friðriksson (kenndi og kvað)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Árni Árnason gersemi
+ Gömlum eftir greppa sið
Ferskeytt
Rímur af Ingólfi Arnarsyni — Upphaf
Gömlum eftir greppa sið,
glæddur andans loga,
fyrir kæra kvenfólkið
kveða rímur voga.
Bað mig ein með blóma krans
bjórs þegar hreyfðust vímur
láta fyrsta landnámsmanns
ljósar koma rímur.
Æfintýri í eina heild
öll hans saman draga,
lýsir helst í leturs deild
landnáms rituð saga.
Vísur: Símon Dalaskáld
Kvæðamaður: Björn Friðriksson (Jósep Húnfjörð kenndi)
Stemma: Úr Skagafirði. Símon Dalaskáld
+ Úða þakin glitrar grund
Ferskeytt, hringhent
Sólaruppkoma
Úða þakin glitrar grund,
geisla vakin sólar.
Álftir kvaka út við sund,
endurtaka hólar.
Laugast blóma land og haf
lífsins ómar bragur.
Sviftir dróma sálum af
sólarljómi fagur.
Sólin hlýjar, roðar rein
rósar nýja feldi.
Árdags gígja hreima hrein
hljómar um skýjaveldi.
Geislum nærist grundin oft
gríma fjær er hnigin.
Eygló kær um austurloft
eldi slær á skýin.
Vísur: Jóhann Garðar Jóhannsson
Kvæðamaður: Jóhann Garðar Jóhannsson
Stemma: Úr Húnavatnsýslu. Hnausa-Sveinn
+ Knúði þrá um kaldan sjá
Ferskeytt, oddhent / hringhent
Hátíðarljóð 1930 II
Knúði þrá um kaldan sjá
knerri háum voðum.
Noregs bláu fjörðum frá
fram hjá gráum boðum.
Þar á flótta hélt um haf
Hávadróttin bjarta.
Langt var sótt, en ljósið gaf
landnámsþrótt í hjarta.
Djúpin grófu Dofrahöll,
drauma ófu nýja.
Aldin hófust Íslandsfjöll
úti í kófi skýja.
Jökla fljóðið eyjan auð
orpin glóð og hjarni,
faðminn Óðins aðli bauð
eins og móðir barni.
Liðið hrausta stýrði að strönd
stefndi í naustin skeiðum.
Svam þá laust við sjónarrönd
sól á austurleiðum.
Vísur: Jóhannes úr Kötlum
Kvæðamaður: Jóhann Garðar Jóhannsson
Stemma: Úr Breiðafirði
+ Út í haga einn ég geng
Ferskeytt
Út í haga einn ég geng
ekkert hug minn bindur,
leikur um minn ljóðastreng
léttur sumarvindur.
Með sínu lagi sólarljóð
syngur blessuð lóan,
þó skorti tóna í þann óð
ennþá vantar spóann.
Þakka ykkur ljúflingslag
loftsins farar góðir,
veit ég best að vera í dag
vinda og fuglabróðir.
Eg vil elska fugl og fjöll
foldarblóm sem anga,
verður þá mín ævi öll
eins og morgunganga.
Vísur: Kjartan Gíslason, Mosfelli
Kvæðamaður: Sigríður Friðriksdóttir (Anna Bjarnadóttir kenndi)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Ólafur Bjarnason
+ Morgunsólar geislaglóð
Ferskeytt, hringhent / óbreytt
Morgunsólar geislaglóð
gyllti njóluhvarma,
grundir, hól og græðisslóð
gullnum fól í bjarma.
Skúrin grætir lauf og lyng
langar nætur rosa.
Skinið kætir, himinhring
heiðan lætur brosa.
Hallar degi, haustar að,
húmið brýst til valda;
rósir fölna, bliknar blað,
bleiku hlíðar tjalda.
Sumar liðið, lengist nátt,
lokast rósabráin.
Leggur haustið hélugrátt
hramm á blessuð stráin.
Vísur: Þorleifur Jónsson, frá Skálateigi
Kvæðamaður: Sigríður Friðriksdóttir (Kristín Friðriksdóttir kenndi)
Stemma: Úr Þingeyjarsýslu
+ Man ég vorsins vinarorð
Ferskeytt
Man ég vorsins vinarorð,
vökufossaniðinn,
fjallatign og fríða storð
fagran lóukliðinn.
Man ég sumars sólskinstíð,
sefgræn engi, bala,
fjóluangan, fjallahlíð,
fegurð innstu dala.
Man ég vetrar dimman dag,
dapran, frosta-raman,
úfinn Norðra nístingslag
nöldra vikum saman.
Eins ég man hans kyrru kvöld
klakabundna voga,
norðurljósa-logatjöld
lýsa himinboga.
Vísur: Þorleifur Jónsson frá Skálateigi
Kvæðamaður: Sigríður Friðriksdóttir (Kristín Friðriksdóttir kenndi)
Stemma: Úr Þingeyjarsýslu
+ Hvíld skal taka, blaut er braut
Ferskeytt, hringhent / frumbakhent
Hvíld skal taka, blaut er braut,
blakkar vakrir mása,
grasi þakin laut við laut
liggur bak við ása.
Hér er kliður heiðlóar
hýrgar sviðinn bala,
geislaiða eyglóar
inn við niðinn dala.
Blika lindir, brosa fjöll
bergmál tindar óma,
laxar synda fossaföll
fuglar mynda hljóma.
Fleygur kári fer á sprett
fyllir gárum haga,
neðar báran leikur létt
laugar tárum skaga.
Vísur: Hallgrímur Jónsson
Kvæðamaður: Sigríður Friðriksdóttir
Stemma: Úr Húnavatnssýslu
+ Alla hrinda hörðum snjá
Ferskeytt, þráhent / óbreytt
Alla hrinda hörðum snjá
hjallarinda sjáum.
Falla lindir fram í sjá
fjalls af tindi háum.
Drífur særinn sína braut
svífur blær að húni,
lífið færir foldu skraut
fífill grær í túni.
Þrýtur dagur þykkna ský,
þagnar fuglaóður.
Liljur vagga væran í
vöggu sinnar móður.
Sérhvað drjúpir dauðahljótt,
dylst oss máni fagur.
Stjörnur renna, nálgast nótt
nú er þrotinn dagur.
Vísur: Hallgrímur Jónsson
Kvæðamaður: Sigríður Friðriksdóttir
Stemma: Úr Skagafirði
+ Skúrir stækka, skinið dvín
Ferskeytt, hringhent
Skúrir stækka, skinið dvín,
skuggar hækka í bænum.
Sunna lækkar ljósin sín,
laufum fækkar grænum.
Ljóssins fengur fjörgar mál
fleira í gengur haginn,
því að strengir þiðna í sál
þegar lengir daginn.
Oft mig seiða augun blá
út í neyð og vanda.
Því ég leiðist einatt á
ástar veiði granda.
Vísur: 1. Hjálmar Þorsteinsson frá Hofi, 2. Karl Friðriksson, 3. Ókunnur höfundur
Kvæðamaður: Sigríður Friðriksdóttir
Stemma: Úr Húnavatnssýslu
+ Golan létt í laufi þaut
Ferskeytt, hringhent
Golan létt í laufi þaut,
liljur nettar gróa,
hamraklettar, hlíð og laut
hugann metta og fróa.
Gróa vallargrösin smá
glitra um hjalla og bala.
Enn mig kallar einhver þrá
upp til fjalla og dala.
Láta gjalla létt og hátt
ljóð sem falla öngum.
Ég hef valla á því mátt
inni í fjallaþröngum.
Huldur tvinna höppin vís
hlýtt í sinnið gjarnar.
Drauma finn ég fagra dís
flétta minningarnar.
Vísur: Þuríður Friðriksdóttir
Kvæðamaður: Ingibjörg Friðriksdóttir
Stemma: Úr Húnavatnsýsslu. Friðrik Gunnarsson
+ Tvíblinds skara týr þá spur
Ferskeytt, hringhent
Rímur af Friðþjófifrækna — 4. ríma, vísur 12 — 13 og 15 — 16
Tvíblinds skara týr þá spur
tryggðum svarinn hlýra:
„Hvurt skal fara Friðþjófur
fáki marar stýra?”
Gegndi óraga hetjan hátt
hita lagar þundi:
„Ég í haga Baldurs brátt
borða slaga hundi.“
Björn þá megin byrstur tér
beiskum sleginn vanda:
„Grem þú eigi goð að þér
gildi fleygir branda.“
Eggja meiðir aftur lét
andsvör greiðast fríðu:
„Baldurs reiði eg minni met
menjaheiðar blíðu.“
Vísur: Lúðvík Blöndal
Kvæðamaður: Ingibjörg Friðriksdóttir
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Friðrik Gunnarsson
+ Veikir stálið, létt við loft
Ferskeytt, hringhent
Veikir stálið, létt við loft,
leikur þjálum fæti.
Kveikir bál á urðum oft,
eykur sálar kæti.
Greitt inn auðar götur Fróns
gnístist nauðum þvitinn.
Fer ótrauða Fluga Jóns
fagurrauð á litinn.
Tauga lúðum þróttur þver
þreytu hnúðum barinn.
Fölnuð húðin orðin er
æsku skrúði farinn.
Ljósa marar lofnin fróm
láttu af svari þínu.
Hirtu ei þar að hefja dóm
hugarfari í mínu.
Vísur: Friðrik Gunnarsson
Kvæðamaður: Ingibjörg Friðriksdóttir
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Friðrik Gunnarsson
+ Hrímgva perlur hríslum á
Ferskeytt, hringhent
Hrímgva perlur hríslum á,
hættir erli þráin,
haustið ferli flækist á,
frostið merlar stráin.
Sætt er vann ég sofna frá
sólblikanna vöfum.
Dýrsta fann ég drauma hjá
dauðra manna gröfum.
Leið margfarna liggur hér
ljúft ég gjarnan prísa.
Eins og stjarna í muna mér
minningarnar lýsa.
Þróttur finn ég farinn er
forðast grynningarnar.
Æðstu kynni eiga í mér
endurminningarnar.
Vísur: Björn Friðriksson
Kvæðamaður: Ingibjörg Friðriksdóttir
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Friðrik Gunnarsson
+ Segl upp undin bera bát (2)
Ferskeytt, hringhent
Segl upp undin bera bát
brims á sundi vöndu;
nú er lundin létt og kát,
leggjum undan ströndu.
Þar mun eyðast þunglyndið,
þó að freyði boðinn;
yfir breiða úthafið
ákaft skeiðar gnoðin.
Þó að freyði úfin unn,
uns að leiðin þrýtur,
samt skal greiða út seglin þunn,
sjá hvað skeiðin flýtur.
Vísur: Sveinn Hannesson frá Elivogum
Kvæðamaður: Ingibjörg Friðriksdóttir
Stemma: Uppruni ókunnur
+ Hels á slóðir hrapaði (2)
Ferskeytt, hringhent
Hels á slóðir hrapaði,
harmar þjóðin skaðann,
Árni góði gersemi,
gullvel ljóðin kvað hann.
Þó hann gengi í þrælaspor,
þrátt hjá mengi hló ’ann,
róms í strengi von og vor
vel og lengi dró ’ann.
Þegar bylur bæinn sló,
burtu yl að strjúka,
muna þilin reifði ró
raddarspilið mjúka.
Öls í krá ef komast vann,
kættist dável sálin.
Man ég þá er þrumdi hann
Þorsteins Hávamálin.
Þó við bindi Bakkus ást
bæri lyndisgalla,
heilsteypt mynd af manni sást
milli syndafalla.
Vísur: Sveinn Hannesson frá Elivogum
Kvæðamaður: Ingibjörg Friðriksdóttir (kenndi og kvað)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Björn Jóhannesson
+ Heims er kynning hliðatvenn
Ferskeytt, hringhent
Heims er kynning hliðatvenn,
hérvistin er svona,
eflaust finna færri menn
fylling sinna vona.
Stopult er oft staðviðrið,
stormar sverir mæta,
margþætt gerist mótlætið,
margs því ber að gæta.
Vildarkjörin veitast fá
víst má öruggt sanna,
misjafn gjörist afli á
óskafjörum manna.
Lífsins strönd er löngum grýtt,
lamast hönd til dáða,
oft eru böndin illa knýtt,
oft úr vöndu að ráða.
Vísur: Sveinn Hannesson frá Elivogum
Kvæðamaður: Ingibjörg Friðriksdóttir
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Björn Jóhannesson
+ Reiðar þurrka þeir ei val
Ferskeytt, hringhent
Rímur af Þórði hreðu — 16. ríma, vísur 41 — 43 og 53 — 55
Reiðar þurrka þeir ei val
þreytuslurk þó reyni
allt fram skurka Yxnadal
upp að Lurkasteini.
Sörli meðan lagði leið
landveg neðan bestan
þeim að téða þvita reið
Þórður hreða vestan.
Hnút við stóran hafla beins,
heilsan fóru að vanda
stigu af jórum undir eins
allir þórar branda.
Er mín trú þar gramur gó
grand ei flúa mundi
illa búinn eg var þó
okkar nú við fundi.
Við skulum tveir á hólmi hér
hefja geira messu
þá ei fleiri fylgi mér
fyrðar eiri þessu.
Vísur: Hallgrímur Jónsson
Kvæðamaður: Ingibjörg Friðriksdóttir (Anna Bjarnadóttir kenndi)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Lárus Erlendsson
+ Margoft þangað mörk og grund (2)
Ferskeytt, hringhent
Margoft þangað mörk og grund
mig að fangi draga,
sem þær anga út’ við Sund
eftir langa daga.
Bundinn gestur að ég er
einna best ég gleymi
meðan sest á sumri hér
sól í vesturheimi.
Ekki er margt sem foldar frið
fegur skarta lætur,
eða hjarta unir við
eins og bjartar nætur.
Vísur: Þorsteinn Erlingsson
Kvæðamaður: Sigríður Hjálmarsdóttir (Anna Bjarnadóttir kenndi)
Stemma: Úr Strandasýslu
+ Vogur kraup í kastbyl tinds
Ferskeytt, hringhent
Vogur kraup í kastbyl tinds,
hveljur saup með teygjum.
Ygldar gaupur vatns og vinds
veðra hlaupa úr beygjum.
Geysast öldur ólgu-veg
að fer kvöld með bliku;
Rán er köld og reigingsleg,
reisir tjöldin kviku.
Stækkar voða-stormsins önn,
strauma gnoðin brokkar.
Upp af froðu-fextri hrönn
flaksast boða-lokkar.
Stormur köldum höndum hast
hrifsar völdin stærstu.
Sýður öldu-afturkast
upp úr földum næstu.
Vísur: Kristinn Stefánsson
Kvæðamaður: Sigríður Hjálmarsdóttir (Anna Bjarnadóttir kenndi)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Hnausa-Sveinn
+ Sest í rökkurs silkihjúp
Ferskeytt, hringhent
Sumarkvöld 1908
Sest í rökkurs silkihjúp
sæll og klökkur dagur.
Er að sökkva í sævar djúp
sólarnökkvi fagur.
Fjöruboga bröttum í
bárur soga, renna.
Öll í loga eru ský,
áll og vogur brenna.
Í logni bátur, létt sem ský,
líður státinn, hraður.
Þar er káta æskan í,
ómar hlátur glaður.
Ungamóðir út á vog
æfir jóðin hljóðu.
Værðaróður, vatnasog
verða að ljóði góðu.
Vísur: Ólöf Sigurðardóttir frá Hlöðum
Kvæðamaður: Sigríður Hjálmarsdóttir (Anna Bjarnadóttir kenndi)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Guðrún Ólafsdóttir, Keldulandi
+ Máninn skein á marinn blá
Ferskeytt
Máninn skein á marinn blá,
mundi skemmta höldum;
vindur svalur vestri frá
velti löngum öldum.
Stjarnan yfir lagar leið
langan þreytti boga;
fögur ljósa fimbulreið
flaug í bylgju loga.
Stóð ég fram’ á stafna-jó
stundi þungan alda.
Örn og svanur ásamt fló
yfir djúpið kalda.
Afl og fegurð ásamt fer
Yfir lífið manna,
feykir burtu feigum her
„fölsku spámannanna.“
Vísur: Benedikt Gröndal
Kvæðamaður: Sigríður Hjálmarsdóttir (Anna Bjarnadóttir kenndi)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Anna Árnadóttir frá Köldukinn
+ Bylgjur flasa fram um mar
Ferskeytt, frumhent
Brim
Bylgjur flasa fram um mar,
við fjöllin stæla hnúa,
einatt þrasa þunglyndar
þær við klettabúa.
Þeirra hingað erindi er
öngvum þó að notum,
því þær springa og sálga sér.
Sönglar í hausabrotum.
Hættið þið ofur aðsókn, því
yðar reiðar völdum.
Hamra vofur innan í
öskra bláum tjöldum.
Ef þær kindur útkomast
og öldruð fjöllin brotna,
þeim helgrindur halda ei fast
hafs eða veðra að drottna.
Vísur: Sigurður Breiðfjörð
Kvæðamaður: Sigríður Hjálmarsdóttir (Anna Bjarnadóttir kenndi)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Guðmundur Finnbogason
+ Unnar göltur undir lá
Ferskeytt
Unnar göltur undir lá
átján fulla daga
sjóar bylgjum Fróni frá
fram um Veldilskaga.
Svaf ég vært þá bylgjan blá
braut yfir höfði mínu;
þunn og lítil þilja má
þeirri varna pínu.
Svaf ég oft þá báran brött
báðar síður lamdi,
og stirður garður strauma kött
strengdi, beygði, kramdi.
Svaf ég oft við sjóar kvak
söng í hverju bandi;
kunni ég helst við brest’ og brak
blunda fjærri landi.
Vísur: Eggert Ólafsson
Kvæðamaður: Sigríður Hjálmarsdóttir (Anna Bjarnadóttir kenndi)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Hannes Magnússon á Árbakka
+ Heyrast sköllin há og snjöll
Ferskeytt, oddhent
Formenn í Letingjavogi
Heyrast sköllin há og snjöll,
hvín í föllum boðinn,
súgs á völlum svignar öll
Sigurðar trölla gnoðin.
Þessi vagar viður dag
verkum hagar súða,
essi lagar eykur slag
Ólafur Skagabrúða.
Beitir þjálu brims úr ál
borða fálu „máski“
freyrinn stála mars við mál
Magnús sálarháski.
Frí við sút með fullan kút
færir hnúta niður,
stýrir skútu á æginn út
einn Jón hrútasmiður.
Vísur: Gísli Konráðsson
Kvæðamaður: Sigríður Hjálmarsdóttir (Anna Bjarnadóttir kenndi)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu
+ Þó að öðrum bregði í brún
Ferskeytt
Landvarnarmaðurinn
Sendur Bjarna frá Vogi fimmtugum, 13. október 1913
Þó að öðrum bregði í brún,
bólgni og rjúki leiðin,
siglir hann alltaf efst við hún,
á því þekkist skeiðin.
Hvar sem hann til fanga fór
fyrir sínum ströndum,
reyndist ærið óhreinn sjór
öllum drengskaps fjöndum.
Þegar hann undir flauga flug
fremstur seglin þandi,
veilu fylgi og hálfum hug
hitaði skömm í landi.
Þar gat fley hins frjálsa manns
farið djarfast skeiða;
allir vissu, að ábyrgð hans
enginn þurfti að greiða.
Vísur: Þorsteinn Erlingsson
Kvæðamaður: Sigríður Hjálmarsdóttir (Anna Bjarnadóttir kenndi)
Stemma: Jón Þorsteinsson úr Kjós
+ Það hefur ekki þennan svip
Ferskeytt
Landvarnarmaðurinn
Framhald
Það hefur ekki þennan svip,
þar sem stafna milli
allt er veðsett, von og skip,
væskla og þræla hylli.
Hann gat dugað hvar sem var,
höggvið frjálsum brandi:
kotungsútgerð átti þar
engan hund í bandi.
Enginn sveina keyrir knör
knárra í beinan voða,
þar sem reynir feigð við fjör
faldur á einum boða.
Það, sem forðum æskan ör
eigi þorði af vonum,
nú er orðið oft í för
innanborðs hjá honum.
Vísur: Þorsteinn Erlingsson
Kvæðamaður: Sigríður Hjálmarsdóttir (Anna Bjarnadóttir kenndi)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Jón Konráðsson
+ Fyrir vestan fjöll og höf
Ferskeytt
Systurminning
Fyrir vestan fjöll og höf
fullkomnað er skeiðið.
Systur minni er grafin gröf,
gleymist bráðum leiðið.
Hvíli ég við þúfu þá
þreytt og angrað hjarta,
legg svo bráðum eftir á
út í myrkrið svarta.
Saman lágu leiðirnar
því lýkur ætíð svona
yfir háu heiðarnar
harma, kæti’ og vona.
Bundum fast í æsku ást,
sem engum tókst að slíta.
Hvar sem annað okkar sást,
æ var hitt að líta.
Vísur: Páll Ólafsson
Kvæðamaður: Sigurður S. Straumfjörð
Stemma: Úr Mýrarsýslu
+ Hann varð aldrei höndlaður
Ferskeytt
Göngu-Hrólfs rímur — 1. ríma, vísur 27 — 30
Hann varð aldrei höndlaður
hóp af neinum lýða,
ef sá hafði ósigur,
út sem vildi ríða.
En ef sigurs auðið varð
ættartanga brjóti,
hann gekk sjálfur heim í garð
herra sínum móti.
Sá var lofðungs léttfeti
laukur Svaðilfara,
þegin gjöf af Guðmundi
Glæsivalla hara.
Sagan því næst segir frá,
sjóli frægur átti
barða, hjálm og brynju þá
bíta járn ei mátti.
Vísur: Hjálmar Jónsson frá Bólu
Kvæðamaður: Sigurður S. Straumfjörð
Stemma: Úr Mýrarsýslu
+ Yndi færir fjalla vist
Ferskeytt, hringhent
Kveðið í Brynjudal
Yndi færir fjalla vist
foss hvar slær á grjóti.
Strýkur blærinn blað og kvist,
brekkan hlær á móti.
Eyðast svell á andans glóð
engin hrelling lifir.
Sólin hellir geislaglóð
grund og fellið yfir.
Fellur um græði geislalind
gliti klæðast hólar.
Esju flæða efsta um tind
aftanglæður sólar.
Fljótt vér könnum ferlegt haust
förlast mönnum ganga.
Komin fönn og kaldri raust
kveður hrönn við dranga.
Skúrir æða, skíma naum,
skyggist hæð og drangi.
Foss í bræði búnum straum
byltir að græðis fangi.
Vísur: Markús Hallgrímsson
Kvæðamaður: Magnús Sigurðsson
Stemma: Magnús Sigurðsson
+ Sinnir spaka sveitin mæt
Ferskeytt, hringhent
Rímur af Án bogsveigi — 4. ríma, vísur 1 — 3 og 5
Sinnir spaka sveitin mæt
svefni slaka valdið.
Einn eg vaki og ljóðum læt
litla þakið spjaldið.
Hvert ónaumar lund mun ljá
lukku tauma njóta,
vaða drauma, eða á
óðar straumum fljóta.
Drauma stand og vísna veg
við sem blandast gaman,
fyrir andann álít eg
ótakandi saman.
Vakinn maður þegar það
þekking laðar fremur;
tvennt er hvað þá tíðast að
til hugnaðar kemur.
Vísur: Sigurður Bjarnason
Kvæðamaður: Jóhann Garðar Jóhannsson
Stemma: Úr Breiðafirði. Jóhann Garðar Jóhannsson