Ferskeytlur 5
+ Þórður sér þá Sörli beint
Ferskeytt, hringhent
Rímur af Þórði hreðu — 16. ríma, vísur 59 — 65
Þórður sér þá Sörli beint,
sóknar fer að sköllum,
mennskum bera mundi hreint
mönnum hér af öllum.
Teiknaði helveg hreysti manns,
hjörs um elfarvegu,
nær á hvelfast hlífar hans,
höggin skelfilegu.
Sörla hamast hyggjan frek,
hjörs í frama róti;
Þórður sama sýndi þrek,
sinn með gram á móti.
Stáls í erjum kappinn knár,
kjóa Herjans tryllir,
hlaut af hverju höggi sár,
hamaður verju spillir.
Bila þundar klæðin klár,
kjalars undan ljóma,
benja dundu ótal ár,
ofan um lunda skjóma.
Kraftastinnir stórhöggvir,
styrjar vinnu þyngja,
hvergi svinnir fundu fyrr,
fullan sinn jafningja.
Hreystifjáðir klóta kíf,
kappar tjáðir vekja,
öll af báðum höggvin hlíf,
hauðrið náði þekja.
Vísur: Hallgrímur Jónsson læknir
Kvæðamaður: Anna Halldóra Bjarnadóttir
Stemma: Lárus Erlendsson
+ Þegar borinn barn eg lá
Ferskeytt, víxlhent
Rímur af Líkafróni kóngssyni og köppum hans — 8. ríma, vísur 45 — 46
Þegar borinn barn eg lá
og bjó hjá móður trauðri,
eg var skorinn fölur frá
fata tróðu dauðri.
Mín er æfin undarlig,
en þær stundir dvína,
veit eg gæfan vill um þig,
vefja mundir sínar.
Vísur: Sigurður Breiðfjörð
Kvæðamaður: Anna Halldóra Bjarnadóttir
Stemma: Þorfinnur Hallsson
+ Alda rjúka gerði grá
Ferskeytt, víxlhend sléttubönd
Úr Grettisrímum 1658
Alda rjúka gjörði grá
golnis spanga freyju,
kalda búka fluttu frá
frændur Dranga eyju.
Vísa: Kolbeinn Grímsson Jöklaraskáld
Kvæðamaður: Anna Halldóra Bjarnadóttir
Stemma: Ragnheiður Brynjúlfsdóttir
+ Falda-borgund beið ei hjá
Ferskeytt, hringhent
Úr Hjálmarskviðu
Svona orðum svifar þá
silkiborða Nanna:
„Varla forða feigum má,
forlög skorðuð banna.
Sýnir herða-bilið breitt,
burði að sverða reiki,
en gæfan verður ætíð eitt
annað ferðugleiki.
Fenginn tapast blíðu blær
böls að hrapar sægur,
enginn knapi flúið fær
feigðar skapadægur.
Þótt ég hrjáist megnum móð
mun ei tjá að harma.“
Svifu þá af sverða rjóð
sólir bláu hvarma.
Falda-borgund beið ei hjá
báru torgi lengur,
hjúpuð sorga hreggi þá
heim til borgar gengur.
Hetjan, frá sem fríðri trað
Freyju láar daga,
sína knáa seggi bað
seglin þá upp draga.
Vísur: Sigurður Bjarnason
Kvæðamaður: Anna Halldóra Bjarnadóttir
Stemma: Pálmi Erlendsson
+ Meðan flaskan full er hjá
Ferskeytt, hringhent
Meðan flaskan full er hjá,
frið ei raskar Gvendur.
Mikið braska mundi þá,
á mínum Laska kenndur.
Guðmundur átti hest er Laski hét og það er hann sem nefndur er í vísunni sem til er í ýmsum útgáfum. Í handriti Ragnheiðar Magnúsdóttur er hún skrifuð upp eftir Sigurði frá Brún á þennan hátt:
Væri flaskan full mér hjá
friði raskar Gvendur.
Mikið braska mundi ég þá
á mínum Laska kendur.
Í grein um Guðmund sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins í janúar 1941 er hún þannig:
Þegar flaskan full er hjá
friði raskar Gvendur.
Mikið braska mun ég þá,
(á) mínum Laska kendur.
Guðmundi hefur líka verið eignuð þessi vísa um hestinn Glám:
Mesta gull í myrkri og ám,
mjúkt á lullar grundum.
Einatt sullast ég á Glám
og hálffullur stundum.
Vísa: Guðmundur Magnússon í Stóru-Skógum
Kvæðamaður: Anna Halldóra Bjarnadóttir
Stemma: Af ókunnum uppruna
+ Kallaði hátt svo heyrði hinn
Ferskeytt, með stuðlagöllum
Kallaði hátt, svo heyrði hinn,
hönd fyrir auga brá hann.
Komdu aftur með klárinn minn,
Eysteinn Jónsson á hann.
Vísa: Eftir óþekktan höfund
Kvæðamaður: Anna Halldóra Bjarnadóttir
Stemma: Eysteinn Jónsson á Orrastöðum
+ Auðna og þróttur oft má sjá
Ferskeytt, hringhent
Krókárgerði
Auðna og þróttur, oft má sjá,
eru fljótt á þrotum.
Gakktu hljótt um garða hjá
gömlum tóttarbrotum.
Rústin geymir gömul spor,
gengnar heimaslóðir,
áhrif streyma enn til vor,
andar á sveimi hljóðir.
Lagst í eyði löngu er
litla heiðarkotið.
Fyrr á leiðum hafa hér
hugir þreyð og notið.
Orpin sandi í eyðiró
eru handaverkin,
ófrjótt land, en eftir þó
ennþá standa merkin.
Orðin smá er þessi þúst
þar á lágum bala.
Töðustrá við stekkjarrúst
og steinar gráir tala.
Inni í þröngu klettakró
Króká söng í næði,
leiddust öngum er hér bjó
öll þau löngu kvæði.
Myndir hreinar hjúpast frið,
hugans leynum orna.
Hér var einatt hinkrað við
hestasteininn forna.
Víns hér draup oft drjúgum tár,
djarft í kaup var slegið.
Oft af raupað röskum klár,
rennt úr staupi og hlegið.
Fjörið glæðast þótti þá
þar um hæðadrögin.
Dals í næði hrein og há
hljómuðu kvæðalögin.
Lundin yngist, lóan hér
ljóðin syngur hverjum,
allt í kringum kumblið er
krökkt af lyngi og berjum.
Hér í skjóli hýr á brá
hlýju fjólan nýtur,
Kvíahólinn ofan á
ennþá sólin lítur.
Treyst var lengi á moldarmátt
mátti engu hagga,
hugðu drengir hollan þrátt
heimafenginn bagga.
Hér var þrátt með þreki og raun
þreytt við máttarvöldin,
fjalls í átt um urð og hraun
einatt smátt um gjöldin.
Dimmum slóðum dalsins á,
dagar hljóðir runnu,
en sögu og ljóða lestri frá
ljósar glóðir brunnu.
Háð var stríð við hretin köld,
hugarkvíða magnað,
eftir hríð og vetrarvöld
vori blíðu fagnað.
Vakti gróður, vöxt og þrá
vorið góða, bjarta,
milt sem óður ástar frá
ungu móðurhjarta.
Kraftur ól á kynngi þors
— kærust sólin bjargar —
hér í skjóli vörmu vors
vonir fólust margar.
Gafst hér ró, sem innst í önd
unun nóga leiddi,
heim í gróin heiðalönd
hugann dró og seiddi.
Fólkið þreytta flúið er
fjalls úr skreytta salnum,
minjum eytt að mestu hér,
margt er breytt í dalnum.
Fornhelg kenning, farsæl þrátt,
fallin senn að grunni,
skákar enn á ýmsan hátt
ungu menningunni.
Vísur: Ólína Jónasdóttir
Kvæðamaður: Guðríður B. Helgadóttir
Stemma: Guðríður B. Helgadóttir
+ Drýgja vinn ég varla synd
Ferskeytt, hringhent, víxlframlyklað
Drýgja vinn ég varla synd
vín þó hlynni barmi,
í ómynnis meina-lind
mínum brynni ég harmi.
Lífs fram stígur straumur hart
stund án flýgur biðar
fljótt á sígur seinni part
sól til hnígur viðar.
Vísur: Jónas Jónasson
Kvæðamaður: Kjartan Hjálmarsson
Stemma: Sigfús Jónasson
+ Lukku strikar hjól í hring
Ferskeytt, hringhent
Lukku strikar hjól í hring,
harma-vik og dreymi.
Allt er svikul sjónhverfing,
sæluryk í heimi.
Vísa: Baldvin Jónsson skáldi
Kvæðamaður: Kjartan Hjálmarsson
Stemma: Árni Árnason gersemi
+ Töpuð snjöll mín æskan er
Ferskeytt, hringhent
Ellivísur
Töpuð snjöll mín æskan er
ægja fjöllin sýnum
mér í öllu aftur fer
utan göllum mínum.
Ellin skorðar líf og lið
leggst að borði röstin
ég er orðinn aftan við
ungra sporðaköstin.
Vonargnoðin klýfur kífs
kalda hroðasjái
árdagsroða æðra lífs
eg svo skoða fái.
Um tóbakspontu
Jónatan Sigurðsson var eitt sinn að staddur í brúðkaupi á Þingeyrum. Þar voru líka Páll Bjarnason, síðar prestur að Undirfelli, Jón Þingeyradjákni Oddson og Gísli stúdent Magnússon. Sá síðastnefndi átti tóbakstönn, allhaglega gjörða, silfurbúna rostungstönn og skoraði hann á hina þrjá að kveða um tönnina, þar sem þeir væru allir skáld. Jónatan kvað þegar vísu:
Þinn við munn ég mynnist greitt
mitt í nunnu safni.
Þér ég unni af þeli heitt;
þú ert sunnu jafni.
Jón djákni Oddsson kvað:
Sú ber ljóma geddu geims
gleður fróma drengi
fríar dróma angurs eims
eg það róma lengi.
Þá kvað Páll Bjarnason:
Ó, hvað þú ert yndislig
orma búin dýnu
líkt og frúin faðmi mig
fati rúin sínu.
Vísur: 1. Jón Þorvaldsson, 2. Jónatan Sigurðsson
Kvæðamaður: Kjartan Hjálmarsson
Stemma: Jón Þorvaldsson
+ Enginn maður á mér sér
Ferskeytt
Enginn maður á mér sér,
inn þá blæða sárin.
Hef ég lært að harka af mér
hlægja gegnum tárin.
Þér er ekki unnt að ná
ómi úr strengjum braga
þú mátt leita og lifa á
leifum fyrri daga.
Vísur: 1. Einar E. Sæmundssen, 2. óþekktur höfundur
Kvæðamaður: Kjartan Hjálmarsson
Stemma: Páll Böðvar Stefánsson
+ Leó óðum æsir hljóð
Ferskeytt, oddhent, hringhent
Númarímur — 14. ríma, vísur 11 — 12
Leó óðum æsir hljóð,
úti stóð á skeiðum;
kallar þjóð að kynda af móð,
kjalars glóðum breiðum.
Brjótar randa, reifðir brand,
róa í land af vogi;
þekur strandar svalan sand,
sveit í andartogi.
Draugamálin
Hallgríms sálma höndlað gat,
því hugurinn vondu spáði.
Um Pétur, þann í salnum sat
sönginn velja náði.
Vísur: Sigurður Breiðfjörð
Kvæðamaður: Kjartan Hjálmarsson
Stemma: Ingimundur Sveinsson læknir
+ Kuldinn skekur minnar mas
Ferskeytt, hringhent
Kuldinn skekur, minnkar mas,
mig um hrekur vegi,
trega vekur, tómt er glas,
tungu á lekur eigi.
Vísa: Jón Konráðsson
Kvæðamaður: Kjartan Hjálmarsson
Stemma: Jón Konráðsson
+ Báran hnitar blævakin
Ferskeytt, hringhent
Báran hnitar blævakin,
borða titrar kjóinn.
Sólin glitar gullroðin
guðdómsrit á sjóinn.
Rammislagur II
Stormur þróast, reigir rá,
Rán um flóann eltir,
kólgum sjóarkletta á
köldum lófa veltir.
Heim að vörum hleypum inn
hátt á skörum rasta.
Bára ör, á arminn þinn
önd og fjöri ég kasta.
Skipið stansar, skýst á hlið
skeið til landsins horfna.
Bárur glansa og glotta við,
glatt er á dansi norna.
Mastrið syngur sveigt í keng,
seglið kringum hljómar,
raddir þvinga úr stagi og streng
stormsins fingurgómar.
Léttum gang um græði svíf,
gleymi angri mínu,
þegar hangi um hel og líf,
haf, í fangi þínu.
Leggðu barminn alvot að
aftanbjarma gljáa.
Strjúktu harm úr hjartastað
hrönn in armabláa.
Vísur: 1. Kristján Benjamínsson eða Skúli Bergþórsson, 2. Stephan G. Stephansson
Kvæðamaður: Kjartan Hjálmarsson
Stemma: Árni Árnason gersemi
+ Straumur reynir sterkan mátt
Ferskeytt, hringhent
Straumur reynir sterkan mátt
stíflum einatt ryður,
lækur hreini kvakar kátt
kalda steininn viður.
Vísa: Baldvin Halldórsson skáldi eða Baldvin Jónsson skáldi
Kvæðamaður: Kjartan Hjálmarsson
Stemma: Árni Árnason gersemi
+ Mjög umróta veldi vann
Ferskeytt, frumhent
Úr Hjálmarskviðu
Mjög umróta veldi vann,
viður spilltist eyin;
jörð og grjóti hraustur hann
hlóð að öllumegin.
Skilin stóð svo eignum á
afrekskappinn mætur:
Vopnin blóðug hverjum hjá
hauginn geyma lætur.
Haugs við búinn hættir smíð,
hróður ber af verki.
Sagt er nú á seinni tíð
sjái þessa merki.
Vísur: Hjálmar Jónsson frá Bólu
Kvæðamaður: Kjartan Hjálmarsson
Stemma: Þóra Kristín Jónsdóttir
+ Ekki grand ég efa það
Ferskeytt, hringhent
Ekki grand ég efa það
um sig vandi grefur,
voða stand mér víkur að,
vaxið Blanda hefur.
Læknis vandann napra nótt
neyðar grandið brennur,
grannar anda ekki rótt
ófær Blanda rennur.
Vísur: Eftir óþekktan höfund
Kvæðamaður: Kjartan Hjálmarsson
Stemma: Guðný S. Sumarliðadóttir
+ Hilmir nefnist Hreggviður
Ferskeytt
Göngu-Hrólfs rímur — Upphaf 42. rímu
Hilmir nefnist Hreggviður,
hér á byrjar saga.
Garðaríki ráðhagur
réði forðum daga.
Ríkur bæði og vinsæll var
vísir máttardigur,
hvar sem hermanns brandinn bar
buðlung hafði sigur.
Gjörðu fæstir gylfa mein,
gæfan lék í höndum,
hetja mesta hann var ein
hér á Norðurlöndum.
Öðling ríkið efldi og jók
afbragðs hreysti meður,
en um síðir eldast tók
eins og tíðum skeður.
Vísur: Hjálmar Jónsson frá Bólu
Kvæðamaður: Kjartan Hjálmarsson
Stemma: Hjörtur Jónasson
+ Montinn lalla leiðir kann
Ferskeytt, hringhent
Montinn lalla leiðir kann,
líst þó valla fríður,
meður skalla skyrhvítan
skekst á allar síður.
Vísa: Jón Þorvaldsson
Kvæðamaður: Kjartan Hjálmarsson
Stemma: Jón Þórðarson á Auðólfsstöðum
+ Hér um drengir hefja spaug
Ferskeytt, hringhent
Hér um drengir hefja spaug
heim þá gengur öldin,
niðr’ á engjum eru þaug
æði lengi á kvöldin.
Vísa: Páll Pálsson
Kvæðamaður: Kjartan Hjálmarsson
Stemma: Guðmundur Gíslason
+ Ekki er margt sem foldar frið
Ferskeytt, hringhent
Lágnætti
Margoft þangað mörk og grund
mig að fangi draga,
sem þær anga út’ við Sund
eftir langa daga.
Bundinn gestur að ég er
einna best ég gleymi
meðan sest á sumri hér
sól í vesturheimi.
Ekki er margt sem foldar frið
fegur skarta lætur,
eða hjartað unir við
eins og bjartar nætur.
Kvikt er valla um sveit né sjá
svo að kalla megi;
raddir allar þagna þá,
þegar hallar degi.
Sofnar lóa er löng og mjó
ljós á flóa deyja;
verður ró um víðan sjó,
vötn og skógar þegja.
Hérna brunnu blóma munn
brosin sunnu viður,
nú að grunni út í unn
er hún runnin niður.
Stjörnur háum stólum frá
stafa bláan ósinn
út’ við sjávar ystu brá
eftir dáin ljósin.
Utar bíða óttutíð
Ægis fríðu dætur,
þar sem víði sveipar síð
sól um blíðar nætur.
Á um njólu aldinn mar
út’ hjá póli gaman:
árdags sól og aftann þar
eiga stóla saman.
Þeim er yndi út’ um sjá
yfir lindum bláum
skýjum bindast örmum á
eða tindum háum.
Blómin væn þar svæfir sín
sumarblænum þýðum
yst í sænum eyjan mín
iðjagræn í hlíðum.
Sléttu bæði og Horni hjá
heldur Græðir anda
meðan hæðir allar á
aftanklæðum standa.
Ekki er nóttin leið né löng:
landið rótt þar bíður
meðan hljótt að sævarsöng
Sól um óttu ríður.
Ægis dætur hafsbrún hjá
hárið væta langa,
sem hún lætur líðast frá
ljósrar nætur vanga.
Sóley kær, úr sævi skjótt
sunnan skæra líður.
Sé þér blær um bjarta nótt
bæði vær og þýður.
Vísur: Þorsteinn Erlingsson
Kvæðamaður: Kjartan Hjálmarsson
Stemma: Af óvissum uppruna
+ Minna kjara brýt ég band
Ferskeytt, hringhent
Minna kjara brýt ég band,
best það svarar geði.
Nú skal fara í Norðurland,
nú skal vara gleði.
Vísa: Halldór Snæhólm Halldórsson
Kvæðamaður: Halldór Snæhólm Halldórsson
Stemma: Halldór Snæhólm Halldórsson
+ Lífsins hála harma nótt
Ferskeytt, hringhent
Sjálfslýsingar Snæhólms
Lífsins hála harma nótt
hugann stálum klípur,
minn þó sálar magnar þrótt
meðan skálin drýpur.
Máls á engi muna ör
magna strengi varnar,
gáskafengin greiði svör
gegnum þrengingarnar.
Þó að glati gullnum seim
gjarn að hrata og slóra,
en ef ratar ekki heim
illa fatast Dóra.
Vísur: Halldór Snæhólm Halldórsson
Kvæðamaður: Halldór Snæhólm Halldórsson
Stemma: Halldór Snæhólm Halldórsson
+ Það er svona þetta ár
Ferskeytt
Halldór bauð kunningja sínum vín
Það er svona þetta ár,
þegnar verða að brosa.
Ef að þú vilt taka tár
tappann skal ég losa.
Ort á Húnvetningamóti
Glasi lyfti, glúpnar önd
glaums í boðaföllum.
Rétti eg mína hægri hönd
Húnvetningum öllum.
Ort við Stafnsrétt
Nótt að beði sígur senn,
sofnar gleði á vörum.
Samt við kveðum eina enn,
áður en héðan förum.
Vísur: 1. og 2. Halldór Snæhólm Halldórsson, 3. Jón Þorfinnsson
Kvæðamaður: Jóhannes Ásgeirsson
Stemma: Jóhannes Ásgeirsson
+ Oft var stakan yndi fljóðs
Ferskeytt, hringhent
Kveðið við andlát Ólínu Jónasdóttur
Endar saga ævin þver
óminn braga skarðar
heiðra laga hljóðnuð er
harpa Skagafjarðar.
Færð var glóð í fagran hátt
fram að hljóðu kveldi
hefur góðan þrotið þátt
því í ljóðaveldi.
Oft var stakan yndi fljóðs
yfir klakaspori,
þar gat vakið löngun ljóðs
lóukvak á vorin.
Kvað um þraut og knappan yl
kleifar brautir fjallsins
blómalaut og bæjargil
byggð í skauti dalsins.
Þó að ending gröf sé gist
geymast kenndir farnar
eftir stendur ljóðalist
lögð í hendingarnar.
Vísur: Kristján Samsonarson
Kvæðamaður: Vigdís Kristmundsdóttir
Stemma: Ásbjörn Eggertsson
+ Tvö við undum, elskan mín
Ferskeytt, hringhent
Fundurinn
Tvö við undum, elskan mín,
út við sundið fríða,
þar sem lundin ljúfa þín
léði stundu blíða.
Engum harmi hugur kveið.
Hvíldi í barmi friður.
Sól í arma ægis hneig
ástarvarma niður.
Hjörtun ungu ákaft þá
ástarþrungin slógu.
Okkar tunga í læðing lá.
Lóur sungu og hlógu.
Vísur: Jóhann Gunnar Sigurðsson
Kvæðamaður: Vigdís Kristmundsdóttir
Stemma: Ásbjörn Eggertsson
+ Lífs við stjá er líður hjá
Ferskeytt, oddhent / hringhent
Meðan líður æfi á,
áfram lífið drögum,
andinn gleðst við geislann frá
gömlum björtum dögum.
Einn á báti árum tveim,
æfidjúpmið róinn,
kvölds og morgna hugsa heim,
— um Hlíðina mína og sjóinn.
Lífs við stjá er líður hjá,
er líkn að fá að gleyma,
hversu þrái sárt að sjá,
sundin bláu heima.
Vísur: Sigurbjörn K. Stefánsson
Kvæðamaður: Sigurbjörn K. Stefánsson
Stemma: Sigurbjörn K. Stefánsson
+ Mætum undi mér hjá höld
Ferskeytt, hringhent
Vísur ortar til kvæðamanns
Hingað kominn hýr á brá,
heilsa glöðum vini,
og stilli kvæðastrengi hjá,
Stefáni Árnasyni.
Betur enginn hátt og hlýtt,
hreyfði drengur ómi.
Kvaðst þú lengi ljúft og þýtt,
ljúflingsstrengjarómi.
Hress í anda hljóðs þér baðst,
— hari kvæðaþinga.
Úrvals stöku oft þú kvaðst,
eftir Skagfirðinga.
Bragafræða besta hljóm,
byggðu í næði glaður,
styrkur bæði í starfi og róm,
Stefán kvæðamaður.
Mætum undi mér hjá höld,
marga stundu inni.
Man ég fundi og kvæðakvöld,
kærust lundu minni.
Báðir unnum orðsins gnótt,
— að þar runnum — hlynir.
Urðum kunnir furðu fljótt,
ferhendunnar vinir.
Ættum léða ölsins veig,
— yfir réðum tíma,
oft það gleði undir steig,
— enda kveðin ríma.
Heill og gæði hér á jörð,
hljóttu í næði, glaður.
Stattu um fræði stuðla, vörð
Stefán kvæðamaður.
Vísur: Sigurbjörn K. Stefánsson
Kvæðamaður: Sigurbjörn K. Stefánsson
Stemma: Stefán Árnason
+ Ýmsum hagur leggur lið
Ferskeytt, hringhent
Brot úr vísnaflokkum til Stefáns Ásmundssonar
Ýmsum hagur leggur lið
list úr draga hýði.
Margt þú lagar mætur við
málm og braga smíði.
Oft er ferju æfiskeið,
illt að verja í sundum.
Milli skerja, myrka leið,
máttir berja stundum.
Sættir deilur, sannur varst,
— sjaldan veila í orði.
Jafnan heila heim þú barst,
hlutarseil frá borði.
Vísur: Sigurbjörn K. Stefánsson
Kvæðamaður: Sigurbjörn K. Stefánsson
Stemma: Sigurbjörn K. Stefánsson
+ Þýtur í stráum þeyrinn hljótt
Ferskeytt
Hélu af þéttum skýjaskjá
skafa glettur vinda,
sólskinsblettum bregður á
brúnagretta tinda.
Þýtur í stráum þeyrinn hljótt,
þagnar kliður dagsins.
Guð er að bjóða góða nótt
í geislum sólarlagsins.
Vísur: Trausti Á. Reykdal
Kvæðamaður: Sigurbjörn K. Stefánsson
Stemma: Arngrímur Sveinsson