Ferskeytlur 6

+ Karl ógiftur einn réð á

Ferskeytt

Einbúavísur

Karl ógiftur einn réð á
einverunni að klifa,
hann kvað það þunga kvöl og þrá,
konulaus að lifa.

Hvað forsjónin hefir sett
hingað til að vinna
einn fyrir utan ekta stétt,
eg því hlýt að sinna.

Mig hefir engin falda fit
né frúin viljað taka,
síðan eg fékk á svönnum vit,
sér til ektamaka.

Eg er því um afturkast
einsamall á fæti,
sokkur og skór í sundur brast,
sjálfur einn eg bæti.

Íleppana einn eg vind,
einn eg skóna þvengi,
einn eg að mér brækur bind,
og buxur upp eg strengi.

Alla vorsins úti stund
er eg á velli að berja,
súreygður í sama mund
sjá um hann og verja.

Einn til sauða ætíð fer,
einn tilhleypi og stía,
einn eg lömbin að mér ber,
einn eg tel og kvía.

Einn eg mína aska og trog
úti þvæ í tjörnum,
einn eg kyndi á eldi log,
undir mjólkur hvernum.

Einn eg síðan eldinn fel,
inn í búrið dratta,
einn eg set á síu þel,
síðan fer að skatta.

Allt sumarið út í gegn
einn eg þúfur kroppa,
helst þá úti er rosi og regn
reiti eg græna toppa.

Einn eg baka, einn eg bind,
einn eg geng með byrði,
einn eg tyrfi og tengsli vind,
töður og engey hirði.

Einn er hugsa um eldivið,
einn eg ber í hripi,
einn á völlinn reynum ryð,
róta eg einn á skipi.

Einn eg set það upp í naust,
enn þótt stærra væri,
einn eg ber heim orðalaust
öll mín veiðarfæri.

Einn eg slátra, einn eg sýð,
einn eg kjöt uppfesti,
einum mér það upp á býð
allan lauk og þvesti.

Einn eg sit við öskustall,
einn eg slógið kroppa,
eldinn tendra eg einsamall,
einn eg fleyti og kokka.

Einn eg soðið allt upp lep
áður en sný til gátta,
einn eg lýsnar af mér drep,
einn svo fer að hátta.

Einn í blundinn eg þá hníg,
einn eg vakna og kveina,
einn í koppinn minn eg míg
og mest ei um við neina.

Aftur að sofna er mér kært,
er þá hálfnuð gríma,
einum lítt mér verður vært,
vaki eg langan tíma.

Einn eg róla út og inn,
einn á nótt og degi,
einn eg týni, einn eg finn,
einn eg tala og þegi.

Einn eg tíni og aftur tek,
einn eg leysi hnýti,
einn eg hósta, einn við rek,
einn eg geispa og snýti.

Kýrnar bind á klafann eg,
klára fjós og brynni,
læt í meisa, mjólka, gef,
mæddur af heysóttinni.

Einn eg sauma, einn eg sníð,
oft þó saumur flái,
einn eg er svo ár og síð,
að öllu mínu stjái.

Leiði eg mína lund þar í,
lítt þó um mig varði,
einn þó sé eg upp frá því,
úti í kirkjugarði.

Láti þeir vel líka sér,
línspöng sem að hljóta,
vandlifað þeim virðist mér,
vel sé þeim, sem njóta.

Þó eg gangi einn til alls,
aldrei skal mig gifta.
Hér skal niður kífið karls
kljáð til þagnar lykta.

Vísur: Benedikt Jónsson
Kvæðamaður: Sigurbjörn K. Stefánsson
Stemma: Ólafur Arngrímsson

+ Ef að lund er upp í loft

Ferskeytt, hringhent

Ef að lund er upp í loft
illa bundin saman,
ljóðafundur finnst þá oft
færa stundargaman.

Hríðin ströng í heiftarmóð
herti söng við bæinn;
var því öngum værðin góð
vorinngöngudaginn.

Vísur: Stefán Ásmundsson
Kvæðamaður: Sigurbjörn K. Stefánsson
Stemma: Norðlensk

+ Ef að geð er gramt og þreytt

Ferskeytt, hringhent

Ef að geð er gramt og þreytt,
— grimmar hreður vaka,
hjartans gleði getur veitt,
góð og kveðin staka.

Hvar sem að ég kem og fer,
— í hvíld og önnum dagsins,
hljómar þrátt í huga mér,
harpa kvæðalagsins.

Vísur: Sigurbjörn K. Stefánsson
Kvæðamaður: Sigurbjörn K. Stefánsson
Stemma: Úr Skagafirði

+ Við skulum ekki hafa hátt

Ferskeytt

Barnagælur

Við skulum ekki hafa hátt;
hér er margt að ugga.
Eg hef heyrt í alla nátt
andardrátt á glugga.

Farðu að sofa fyrir mig
fyrst þú mátt og getur.
Ég skal breiða ofan á þig
ofurlítið betur.

Vísur: 1. Þórður Magnússon; 2. óþekktur höfundur
Kvæðamaður: Sigurbjörn K. Stefánsson
Stemma: Guðrún Pálsdóttir

+ Góðan daginn, Gísli minn

Ferskeytt

Upphaf ljóðabréfs til Gísla Wíum
á bóndadaginn 1864

Góðan daginn, Gísli minn!
Ég gæti fyrir önnum,
verði svona veturinn,
vísur kveðið mönnum.

Undir Miðfelli í Þingvallasveit

Skulfu klettar, skall hann á
skeiðið rétt við hjallann.
Þessi blettur muna má
margan sprettinn snjallann!

Hann er ekkert hismisblað
hégómi né glingur
og líkt er sem hann þekki það
þegar flaskan syngur.

Kvað ég undir spreng og span
spottaður og lúinn,
laraður með lungnaþan,
lotan mín er búin.

Vísur: 1. Páll Ólafsson; 2. Einar E. Sæmundsen; 3. — 4. óþekktir höfundar
Kvæðamaður: Sigurður Jónsson frá Brún
Stemma: Sigurður Jónsson frá Brún

+ Líkast er það ljósum draum

Ferskeytt

Vísur

Líkast er það ljósum draum
að liggja svona og heyra
heillar nætur glasaglaum
glymja sér við eyra.

Þennan hvella hljóm ég læt
hringja mig að beði;
mér er hann angan unaðsæt
ásta, víns og gleði.

Þangað til að þennan klið
þaggar blundur sætur,
ligg ég hér og leik mér við
ljúfar myndir nætur.

Það er sárt að sofna frá
söngum minna fljóða,
enga mjúka arma fá
eða vínið góða.

Ó, hvað leið hún undur fljótt
í þeim töfra glaumi,
þessi blessuð brúðkaups nótt,
betri hverjum draumi.

Það var allt í lófa lagt
líkt og mun á hæðum,
eftir því sem af er sagt
í þeim helgu fræðum.

Allir glaðir unnu það
sem englum bar að gera:
Þar var hverjum yndi að
öðrum sæla að vera.

Unaðsþrungin englaskaut
opin stóðu löngum
og nóttin öll sem eilífð flaut
í endalausum söngum.

Þetta aðeins englum má
eilífð stutta gera,
og ætti ég þeim að una hjá,
yrði hún svona að vera.

Kæra frú, hve fegnir vér
föðmum þínar dætur;
gæfan sæla sjálfri þér
sendi slíkar nætur.

Nú vil ég heldur hópinn þinn,
en hittu sálu mína,
ef þú byrjar annað sinn
æskuleika þína.

Svæfðu mínar meyjar blítt,
mildi næturkliður;
minntu þær á margt og frítt
meðan þær leggjast niður.

Vísur: Þorsteinn Erlingsson
Kvæðamaður: Ragnheiður Magnúsdóttir
Stemma: Úr Skaftafellssýslu

+ Þá er yndi er alda og strind

Ferskeytt, oddhent, hringhent

Þá er yndi er alda og strind
óma af fyndnum kvæðum.
Geislar á tind er tjörn og lind
taka mynd af hæðum.

Vísa: Anna Guðný Sigurðardóttir
Kvæðamaður: Þorgrímur Einarsson
Stemma: Anna Guðný Sigurðardóttir

+ Dagaláardísirnar

Ferskeytt, hringhent

Rímur af Tístran og IndíönuMansöngur 2. rímu

Dagaláardísirnar
dyggvar, smáar, rjóðar,
viljið þið sjá á vísurnar,
verið þið þá svo góðar.

Þótti áður þjóðunum
þokkaráð og æra
máls af láði ljóðunum
liljum þráða að tæra.

Baugahlíðum semja sinn
söngva blíðan þorra
kunnu fríðu fornskáldin
fyrri tíða vorra.

Öllu standi aftur fer
okkar landi er vikið
skálda anda hefur hér
hnignað fjandans mikið.

Það var áður auðvelt spaug,
ef menn þráðu bjargir,
niður í láðið dimman draug
dauðan kváðu margir.

Þá voru kvæði fim og fljót
fram sem ræða barin,
ef þá stæði í þeim hót
öll voru gæðin farin.

Tófan átti ekki gott
óðs við háttinn snjalla,
hlaut hún þrátt, þess vitum vott,
voluð lágt að falla.

Þyrfti eina fjöður fá
flokkur sveina ótrauður,
krummi meina kenndi þá
kveðinn steinadauður.

Draugs í hami út og inn
oft var frama lestur,
áfram laminn andskotinn,
eins og tamur hestur.

Færi að reiðast greppa geð
gjörðust bleyður klökkvar,
létu heiðurs hróðri með
heilar skeiðir sökkva.

Ef skáldum frama þjóðin þá
þorði ama í geði,
var með sama sálin frá
syndahamnum kveðin.

Þessi gengin íþrótt er,
að oss þrengir betur,
kveðið enginn hölda hér
hún af drengjum getur.

Þó oss með ráni illþýðið
auki þjáning pretta,
hafa þeir lán og haldast við.
Hvílík smán er þetta!

Þrjóta bætur þar um stund
því með kæti forma,
ég ef gæti glatt í lund
Gefjun sætis orma.

Vísur: Sigurður Breiðfjörð
Kvæðamaður: Þorgrímur Einarsson
Stemma: Jón Jónsson

+ Þó að vandinn veiki þrótt

Ferskeytt, hringhent

Þó að

Þó að ótti eflist, þá
ýmsra njóttu hylli.
Kvæðin sótt í kærleiksþrá
kveddu af þrótt og snilli.

Þó að ami illfær skeið
ýmsir hami kaldir.
Þín til frama liggur leið
list ef tama valdir.

Þó að bylur berji skjá
bresti yl í ranni.
Víst er til að veri þá
vandlega skilinn granni.

Þó að gleymist gráhærðum
gleði seim er þráði.
Mun þó geymast minning um
margt er dreyma náði.

Þó að grettar leiðir lands
liggi ei réttu megin.
Heimtum rétt hins rænda manns
reynum að slétta veginn.

Þó að lækki lágir menn
Lofnar fækki um miðið.
Alltaf hækka afreksmenn,
alltaf stækkar sviðið.

Þó að hljóðir miðlungsmenn
meti gróða vænan.
Konur góðar gera enn
garðinn ljóðum rænan.

Þó að glitið lækki um lönd
lýi þviti sporið.
Gegn um stritið haldi í hönd
hugsun vit og þorið.

Þó að beinna liggi ljúf
langt um geima förin.
Trauðla geymir tæknin sú
töpuðu heima kjörin.

Þó að sálin dæmist dæmd
dregur ei tál úr vonum.
Ekki er skálin alveg tæmd
eða mál hjá konum.

Þó að hraustir haldi af stað
hvellar raustir þrotna,
beri flaustur illa að
örðugu nausti og brotna.

Þó að vandinn veiki þrótt
vart mun andann saka.
Fyrir handan húm og nótt
heiðar strandir vaka.

Vísur: Jóhann Garðar Jóhannsson
Kvæðamaður: Jóhann Garðar Jóhannsson
Stemma: Jóhann Garðar Jóhannsson

+ Heimur kaldur hefur mér

Ferskeytt, hringhent

Kveðið við burtför úr heimahögum

Heimur kaldur hefur mér
hryggðar — valdið — pínu.
Glaður sjaldan eg því er
á undanhaldi mínu.

Þagnar óður, gljúpnar geð,
gáski og móður dvínar.
Afar hljóður eg því kveð
æskuslóðir mínar.

Ótal snörur ýfa sár —
ill eru kjörin meðan.
Ég er á förum eins og nár
á líkbörum héðan.

Deyfir þróttinn dauðans hönd,
drottnar óttinn hraður.
Einn um nótt á eyðiströnd
er ég flóttamaður.

Vísur: Benjamín Sigvaldason
Kvæðamaður: Kjartan Hjálmarsson
Stemma: Úr Þingeyjarsýslu

+ Nú er fjaran orðin auð

Ferskeytt, hringhent

Nú er fjaran orðin auð,
öll í þara gróin.
Ég vil fara að reyna hann Rauð
og ríð honum bara í sjóinn.

Vísa: Hákon Hákonarson í Brokey
Kvæðamaður: Kjartan Hjálmarsson
Stemma: Úr Þingeyjarsýslu

+ Bernsku forðum aldri á

Ferskeytt, hringhent

Bernsku forðum aldri á
eið mér þorði vinna,
fyrir norðan fjöllin há
fögur skorðin tvinna.

Vísa: Árni Sigurðsson Eyfirðingaskáld
Kvæðamaður: Kjartan Hjálmarsson
Stemma: Jónas Jósefsson

+ Er sem líti eg blakta í blæ

Ferskeytt

Sílalækjarför — II
Farið hjá Tjörn

Er sem líti eg blakta í blæ
bleikan ættarfána,
þegar ég kem að Þórkels bæ,
þess hins löngu dána.

Hér lét karl í koti gætt
kvistanna sinna ungu.
Sá var beint af Illuga ætt
og með lipra tungu.

Að þeir magni orða seið,
efli vísnagaman,
það hefir æði langa leið
loðað við að framan.

Þeir hafa löngum dillað dátt
drótt, með liprum hljóðum.
Fáir kváðu eins hratt og hátt
hér á þessum slóðum.

Þá mun leika í þeli kætt
þögn, á slitna strenginn,
þegar hinn síðsti af Illuga ætt
er til náða genginn.

Vísur: Indriði Þórkelsson
Kvæðamaður: Kjartan Hjálmarsson
Stemma: Kjartan Hjálmarsson

+ Gleði raskast, vantar vín

Ferskeytt, hringhent

Gleði raskast, vantar vín,
verður brask að gera,
ef að taskan opnast mín
á þar flaska að vera.

Vísa: Friðrik Sigfússon
Kvæðamaður: Kjartan Hjálmarsson
Stemma: Parmes Sigurjónsson

+ Örðugan ég átti gang

Ferskeytt

Erfiðleikar

Örðugan ég átti gang
yfir hraun og klungur.
Mér hefur legið fjall í fang
frá því ég var ungur.

Vísa: Þórarinn Sveinsson frá Kílakoti
Kvæðamaður: Ríkarður Hjálmarsson
Stemma: Þórarinn Sveinsson frá Kílakoti

+ Meðan foldar fjalla safn

Ferskeytt

Meðan foldar fjalla safn
fanna skautar tröfum,
saga geymir greppsins nafn
gullnum ritað stöfum.

Vísa: Eftir óþekktan höfund
Kvæðamaður: Kjartan Hjálmarsson
Stemma: Guðrún Hjálmarsdóttir

+ Bylgjan frá við borð leikur

Ferskeytt, hringhent

Bylgjan frá við borð leikur,
brögnum spáir tjóni.
Stýrir knái Steingrímur
stafna háu ljóni.

Vísa: Húnvetnsk
Kvæðamaður: Kjartan Hjálmarsson
Stemma: Jónas þóftubróðir

+ Hreiðrum ganga fuglar frá

Ferskeytt, hringhent

Númarímur Upphaf 12. rímu

Dagsins runnu djásnin góð
dýr um hallir vinda;
morgunsunnu blessað blóð
blæddi um fjallatinda.

Ljósið fæðist, dimman dvín,
dafnar næðið fróma,
loftið glæðist, láin skín,
landið klæðist blóma.

Dýrin víða vakna fá
varpa hýði nætur;
grænar hlíðar glóir á,
grösin skríða á fætur.

Hreiðrum ganga fuglar frá
flökta um dranga bjarga,
sólarvanga syngja hjá
sálma langa og marga.

Á allar lundir laga klið,
lofts í bláu rúmi;
létta blundi lætin við,
Leó þá og Númi.

Vísur: Sigurður Breiðfjörð
Kvæðamaður: Kjartan Hjálmarsson
Stemma: Sigríður Hjálmarsdóttir frá Bólu — Pálmi Lárusson, sonur hennar, kenndi

+ Situr karta mín hjá mér

Ferskeytt, hringhent

Situr karta mín hjá mér
mörg er vartan stærri,
þels um parta engin er,
auðgrund hjarta kærri.

Vísa: Eftir óþekktan höfund
Kvæðamaður: Kjartan Hjálmarsson
Stemma: Símon elskubróðir

+ Kaffibaunir mala má

Ferskeytt, hringhent

Kaffibaunir mala má
Magnús raunum hlaðinn.
Hefur kaunin höndum á
heimtar laun í staðinn.

Gömul vísa
Kvæðamaður: Ingþór Sigurbjörnsson
Stemma: Sigríður Jóhannsdóttir Brandson

+ Tryllt er sótt um traðir ótt

Ferskeytt, oddhent, hringhent

Tryllt er sótt um traðir ótt,
Trausta þróttur brennur.
Liðin ótta, allt er hljótt,
óðum nóttin rennur.

Vísa: Ingþór Sigurbjörnsson
Kvæðamaður: Ingþór Sigurbjörnsson
Stemma: Ásbjörn Eggertsson

+ Sóley kær, úr sævi skjótt

Ferskeytt, hringhent

Lágnætti
Lokaerindi

Sóley kær, úr sævi skjótt
sunnan skæra líður.
Sé þér blær um bjarta nótt
bæði vær og þýður.

Vísa: Þorsteinn Erlingsson
Kvæðamaður: Nanna Bjarnadóttir
Stemma: Sigríður Hjálmarsdóttir frá Haugsnesi