Ferskeytlur 7
+ Flingrið málma fleins um gólf
Ferskeytt, víxlhent, hályklað
Hjálmarskviða
Niðurlag
Flingrið málma fleins um gólf
frétti á hríða-svæði:
yngri Hjálmar öldum tólf
orti síðar kvæði.
Styttist klíðin stöku veik,
stefin gleymsku kafni.
Gæfa síður gjörfuleik
get ég fylgi nafni.
Vísur: Hjálmar Jónsson frá Bólu
Kvæðamaður: María Bjarnadóttir
Stemma: Bjarni Jónsson frá Akranesi
+ Oftast læra árin mann
Ferskeytt, hringhent
Stökur – þankar
Yfir falla skugga ský
skímu er valla að finna
degi hallar dimmir í
dölum fjalla þinna.
Reynslu torgum hrynja hjá
heims í sorgar fári
skýja borgir byggðar á
barnsins morguns ári.
Oftast læra árin mann
æskan nær er þrotin
örðug færist yfir hann
ellin hæru skotin.
Vísur: Guðmundur Ingiberg Guðmundsson
Kvæðamaður: María Bjarnadóttir
Stemma: Sigríður Hjálmarsdóttir frá Haugsnesi
+ Máttarspýtur falla frá
Ferskeytt, hringhent
Máttarspýtur falla frá,
fárra nýtur gæða,
hvar sem lítur augað á
yfir flýtur mæða.
Adams gjalda arfar með,
angrið faldar hjörtu,
Hel um kaldan hjónabeð
hefir tjaldað svörtu.
Vísur: Hjálmar Jónsson frá Bólu
Kvæðamaður: María Bjarnadóttir
Stemma: Hjálmar Hjálmarsson
+ Hrekkur gjóla hafi frá
Ferskeytt, hringhent
Kvöld
Hrekkur gjóla hafi frá,
hættir skjól um voga,
færist njóla yfir á
aftan sólarloga.
Vísa: Guðmundur Ingiberg Guðmundsson
Kvæðamaður: María Bjarnadóttir
Stemma: Árni Árnason gersemi
+ Von oss getur vakið hér
Ferskeytt, hringhent
Vorkoma
Von oss getur vakið hér,
vindar betur kliða.
Dvína hret, því dáinn er
dagur veturliða.
Þiðni vengið, verður fjær
vetrar gengið sporið.
Hörpu strengi er hlýja slær
hátt og lengi vorið.
Vísur: Guðmundur Ingiberg Guðmundsson
Kvæðamaður: María Bjarnadóttir
Stemma: Jónas Jónasson
+ Þiðni vengið, verður fjær
Ferskeytt, hringhent
Vorkoma
Von oss getur vakið hér,
vindar betur kliða.
Dvína hret, því dáinn er
dagur veturliða.
Þiðni vengið, verður fjær
vetrar gengið sporið.
Hörpu strengi er hlýja slær
hátt og lengi vorið.
Vísur: Guðmundur Ingiberg Guðmundsson
Kvæðamaður: María Bjarnadóttir
Stemma: Sigríður Hjálmarsdóttir frá Haugsnesi
+ Leiðum hallar lífdögum
Ferskeytt, hringhent
Stökur – litið um öxl
Hvarmar fella á kinnar tár
kvíðinn velli heldur
daprar elli öldungs brár
ama og hrelling veldur.
Leiðum hallar lífdögum
leið mín allvel sýnir,
í að falla á freistingum
fólust gallar mínir.
Feigs á skörum fallhætt er
fjöldinn gjörir sanna,
misjöfn kjör býr mörgum hér
meiður örlaganna.
Vísur: Guðmundur Ingiberg Guðmundsson
Kvæðamaður: María Bjarnadóttir
Stemma: Sigurjón Stefánsson
+ Drekkur smári dauðaveig
Ferskeytt, hringhent
Heyannir
Drekkur smári dauðaveig,
dagsins tára nýtur.
Einn ég skára engjateig. —
— Ennþá ljárinn bítur.
Glitrar regn um grund og hól,
gróa slegnu sárin.
Blóma vegna brosir sól
blítt í gegnum tárin.
Kæti létt á ljósum teig
lætur ettir þránni. —
Mætan fléttar sigursveig
sæta nett úr ljánni.
Vængi baðar lóulið
laufs í blaðasagga;
frjálsir, glaðir flokkar við
flekkjaraðir vagga.
Fóstra bjó þeim friðardvöl;
fæðu dró að kjarna.
Tína frjó og moldarmöl
munnar lóubarna.
Vísur: Valdimar K. Benónýsson
Kvæðamaður: Flosi Bjarnason
Stemma: Sigríður Hjálmarsdóttir frá Haugsnesi
+ Fulla af táli faðma ég þig
Ferskeytt, hringhent
Fulla af táli faðma eg þig
flaskan hála, svarta.
Þó á báli brenni mig
bæði á sál og hjarta.
Vísa: Albert Kristjánsson
Kvæðamaður: Flosi Bjarnason
Stemma: Úr Norðfirði
+ Litlum unga á svarðar sæng
Ferskeytt, hringhent
Litlum unga á svarðar sæng
svellur drunguð lundin,
undir þungum arnarvæng
er hann tungubundinn.
Vísa: Magnús Jónsson frá Barði
Kvæðamaður: Flosi Bjarnason
Stemma: Úr Norðfirði
+ Beittu að strandar breiðri hlein
Ferskeytt, hringhent, hályklað
Göngu-Hrólfs rímur — 20. ríma, vísur 20 — 21
Beittu að strandar breiðri hlein,
brims um granda víðan,
þeyttu í sandinn þungum flein,
þustu á landið síðan.
Friðinn grenna fullhugar,
fólkið kennir ótta,
ræna og brenna byggðirnar,
bændur renna á flótta.
Vísur: Hjálmar Jónsson frá Bólu
Kvæðamaður: Ingimann Ólafsson
Stemma: Þórður Þórðarson
+ Þrjóti mátt í þrengslum dals
Ferskeytt, hringhent
Úr mansöng
Þrjóti mátt í þrengslum dals
þaðan brátt ég sveima,
búast mátt við komu karls
hvar sem áttu heima.
Harmi kynni að hrinda frá,
hæstan vinning bjóða,
einu sinni enn að sjá
engilinn minn góða.
Ljóðaveigar lífga þjóð,
lífið sveigum krýna,
þann við eigum saman sjóð,
sem ei megum týna.
Engin særa sortaský
sjafnar hræringuna,
þá hún fær við faðmlög hlý
forðanæringuna.
Allmargt gerir ófarnað
ævi hér í straumi,
svo ég beri betur það
birstu mér í draumi.
Sjúkan fylla muna má
mætum gyllivonum
dýra snillidrós að sjá
draums í hyllingonum.
Þér ég hól í brögum bý,
bestu fjólum tjalda,
þar til sólin sígur í
sortabólið kalda.
Þegar slóðin úti er,
enduð blóðug skrefin,
ég í hljóði helga þér
hinstu ljóðastefin.
Guð þér sýni grið og skjól,
gifta týnist eigi,
ætíð skíni auðnusól
yfir þína vegi.
Allri mæðu flúin frá,
frjáls um svæði geimsins,
lifðu í næði lengi hjá
láni og gæðum heimsins.
Sláttinn ljóða minnka má,
máttinn hljóða brenndi,
háttinn góða þrýtur þá,
þáttinn fljóði sendi.
Vísur: Sveinn Hannesson frá Elivogum
Kvæðamaður: Ingimann Ólafsson
Stemma: Þórður G. Jónsson
+ Hesturinn minn heitir Brúnn
Ferskeytt
Hesturinn minn heitir Brúnn
hann er ekki falur,
þó bjóðist annar beislahúnn
og bankaríkisdalur.
Vísa: Sigurður Breiðfjörð
Kvæðamaður: Kristmann Sturlaugsson
Stemma: Úr Dalasýslu
+ Dregur úr Ránar dimmum þyt
Ferskeytt, hringhent
Dregur úr Ránar dimmum þyt,
dag fyrir blánar nýjum.
Sveipar gljána silfurlit
svalur máni í skýjum.
Vísa: Gísli Ólafsson
Kvæðamaður: Kristmann Sturlaugsson
Stemma: Úr Dalasýslu
+ Það er vandi að varast land
Ferskeytt, oddhent, hringhent
Landkenning
Það er vandi, að varast land
vel þótt strandir ratir,
eins er fjandi að binda í band
bæði anda og hvatir.
Vísa: Jón S. Bergmann
Kvæðamaður: Kristmann Sturlaugsson
Stemma: Bogi Sigurðsson
+ Hún var lengi lífs á slóð
Ferskeytt, hringhent
Gránuvísur
Margt vill hrella hug og hold
heims er brellinn siður.
Fyrir elli ofar mold
allt má skellast niður
Hörð mig þjáir hugar pín
hvergi eg nái þreyja,
hryssan gráa mátti mín,
sem margur fá að deyja.
Hún var ættuð Fljótum frá,
firða kætti tíðum,
en kynþætti eg um þá
ei fékk rætt hjá lýðum.
Hún var lengi lífs á slóð
lista gengi búin.
Geðs um engi gladdi þjóð
galla strengjum rúin.
Hennar víða ei myndast mynd
á mótum þýðum vega.
Búin prýði beislahind
bar mig prýðilega.
Gild og há var hún að sjá
heldur kná því var hún
lýðum hjá því lýsa má
litinn gráa bar hún.
Harma felldi hófa ljón
hlín hjá elda laga,
er þaut sem elding yfir frón
eins um kveld sem daga.
Tauma mundum teygði frá
týru sunda lundi,
á reiðarfundum fremst var þá
fleiðraðist grundin undir.
Blak ei þoldi af keyriknút
kvalráð voldugt mannsins
þá nam holdið þrútna út
þyrlaðist moldin landsins.
Undan fótum grýttist grjót
geist að njótum sverða,
eins var fljót sem elding skjót
á reiðmótum ferða.
Bragna óslaka bar hún vel
bakkar taka að skjálfa,
sprengdi klaka, mold og mel
molaðist þakið álfa.
Geðs af róti gnúði mél
og grimmdar hótum stundi
leiftur þjóta lands um mel
logaði fótum undir.
Hvort hún þaut um for og fell
að fagrar lautir rynni,
aldrei hnaut þar eða féll
ævibraut á sinni.
Kvæðið linna læt ég hér
lítt sem kynnir vana.
Gránu minning úti er
aldrei finn ég hana.
Nú er ég Gránu orðinn án
ei má Gránu finna.
Seinna af Gránu síst hef lán
sakna ég Gránu minnar.
Vísur: Ásgrímur Sigurðsson
Kvæðamaður: Hallgrímur Jónsson
Stemma: Hallgrímur Jónsson
+ Kyrjaðir ungur kvæðalag
Ferskeytt
Ávarp til Hallgríms Jónssonar
Sérhver reyna maður má
mannlífs kulda og varma;
skýra sérðu skiptast á
skugga og sólarbjarma.
Þegar syrti og þyngdi í kring
þung var stundum raunin,
svona er oft með Íslending;
erfiði meira en launin.
Þó að dimmdi stutta stund
og stundum af þér tekið,
aftur gaf þér gull í mund
glaðværðin og þrekið.
Kyrjaðir ungur kvæðalag
kveður enn með gleði.
Fátítt orðið er í dag
að Íslendingur kveði.
Fram um leyndan lífsins stig
lengist ævivakan,
þegar kveldar kæti þig
kvæðalag og stakan.
Vísur: Sigurbjörn K. Stefánsson
Kvæðamaður: Sigurbjörn K. Stefánsson
Stemma: Sigurbjörn K. Stefánsson
+ Álfan, sem er ætíð blá
Ferskeytt
Út vil ég
Álfan, sem er ætíð blá,
ef í lofti heiðir,
alúð mína og innstu þrá
út á djúpið seiðir.
Meðan yfir bláma býr
blika úr silki sniðin,
opnum faðmi að mér snýr
út við dýpstu miðin.
Gott er að rétta himni hönd,
er hvelfist yfir sjáinn,
manni á ystu mararströnd,
er mænir út í bláinn.
En það mun bæði vandi og vá
verða, hálft í hváru,
skútu valtri að skríða á
skers í milli og báru.
Vísur: Guðmundur Friðjónsson
Kvæðamaður: Hallgrímur Jónsson
Stemma: Af óvissum uppruna
+ Veitist fátt af völdum hér
Ferskeytt, hringhent
Veitist fátt af völdum hér
vanda, ef átt með sanni.
Enginn máttur yljar mér,
óláns sláttumanni.
Mótgangsspor ef mörgum ger
magnast þor í skyndi.
Bráðum vorið blessað fer
að breyta sora í yndi.
Viska og hrós mér veitist þá
er vatn í ósi hlýnar,
þegar ljósið lýsir á
lífsins rósir mínar.
Vísur: Njáll Sigurðsson
Kvæðamaður: Njáll Sigurðsson
Stemma: Af óvissum uppruna
+ Á allar lundir laga klið
Ferskeytt, víxlhent
Númarímur — úr 12. rímu
Dagsins runnu djásnin góð
dýr um hallir vinda;
morgunsunnu blessað blóð,
blæddi um fjallatinda.
Dýrin víða vakna fá,
varpa hýði nætur
grænar hlíðar glóir á
grösin skríða á fætur.
Hreiðrum ganga fuglar frá
flökta um dranga bjarga,
sólar vanga syngja hjá,
sálma langa og marga.
Á allar lundir laga klið,
lofts í bláu rúmi;
létta blundi lætin við
Leó þá og Númi.
Númi elur andsvör þá:
„Ills er völ að kalla;
eg vil felast, ef að má,
innst í dölum fjalla.
Birni hér og ljóna lið
lands um slóðir harðar
betra er að búa við
en blindar þjóðir jarðar.“
Vísur: Sigurður Breiðfjörð
Kvæðamaður: Jón Aðalsteinn Sigfússon
Stemma: Af óvissum uppruna
+ Lyngs við bing á grænni grund
Ferskeytt, þráhent
Lyngs við bing á grænni grund
glingra og syng við stútinn.
Þvinga ég slyngan hófahund
hring í kringum Strútinn.
Vísa: Sigurður Eiríksson frá Kalmanstungu
Kvæðamaður: Símon Jóh. Ágústsson
Stemma: Úr Strandasýslu
+ Rísa fríðar Ægi af
Ferskeytt, hringhent. Sléttubönd
Ólafs ríma Grænlendings — Mansöngur og upphaf rímu
Veri signuð okkar átt,
auðgist hauðrið fríða;
beri tignarhvarminn hátt
heiða auðnin víða.
Fögur dregur móðurmóld
muna handan sjávar.
Mögur tregar föðurfold
fjalla strandir bláar.
Strauma kaldra brúast bil,
blasir skammur vegur;
drauma aldna túnsins til
taugin ramma dregur.
Skaflar háir, sollinn sær
sýnist innri taugum.
Gaflar lágir, burstabær
birtist minnis augum.
Kólga norðurs faðmar fjöll,
fölvar strýkur grundir.
Ólga storðar fossaföll
fannabríkum undir.
Lampabrosin glitra glöð
gegnum dökka karma.
Glampa frosin húsahlöð,
hringa rökkurs arma.
Vakan ómar háreyst hér
hurðu fyrir innan.
Stakan hljómar. Úti er
utandyravinnan.
Harða stóðið étur jörð.
Jötu skallar hnoða.
Garðafóðrið hníflar hjörð;
hestar stallinn moða.
Saman bekkjast kona, karl,
kvæðamanninn heyra.
Gaman ekkert prúðan pall
prýðir annað meira.
Handa allra milli má
margvíst skoða tóið,
bandakarlsins fléttu frá
fram í voðar þófið.
Stálið óðar þróttarþungt
þrumulagi kveður.
Málið góða, alltaf ungt,
allan bæinn gleður.
Öngum stundin leiðist löng,
léttar mundin vinnur.
Löngum undir sagnasöng
sveitahrundin spinnur.
Spangagrundu alltaf ei
ófrið sagan hermir.
Vanga stundum mjúkan mey
mansöngs baga vermir.
Situr stokkinn fljóðið frítt,
feimin undan lítur,
flytur hnokkann, brosir blítt,
bláþráð sundur slítur.
— Skiptast myndir. Draumur dvín.
Daprar sveitir hvíla.
Sviptast vindar. Líkhljóð lín
lágum reitum skýla.
Grundir fölnuð byrgja blóm.
Bleika gröfin þegir.
Undir fjölnis dauðadóm
dísin höfuð beygir.
Ljóði hljóðu illa er
okkar blóði farið.
Óði þjóðin hefur hér
helgar glóðir varið.
Dýrra braga þrjóti þögn,
þjóðlög Íslands syngist.
Nýrra daga söngvum, sögn,
sveitavísan yngist.
Þjóðleg fræði orðum óðs
eddu hending glæði.
Fróðleg kvæði listin ljóðs
lýðnum endurfæði.
Meðan álfur heimsins hátt
hefja efnis menning
héðan sjálfir æðri átt
andans stefnum kenning.
Anda kraftinn hverri hryggð
Hallgríms kveði sálmar.
Landa aftur beri byggð
Breiðfjörð eða Hjálmar.
Friður haldist, blómgist bú.
Blessist frúar arinn.
Siður aldinn tengist trú,
tryggist hjúa skarinn.
— Kunni sögur Íslands ey.
Aldrei ljóðin gleymist.
Unni brögum marar mey,
meðan þjóðin geymist. —
Falla tímans voldug verk,
varla falleg baga.
Snjalla ríman stuðlasterk
stendur alla daga.
Rísa fríðar Ægi af
Eiríks hlíða byggðir.
Ísar víðir hylja haf,
himins prýði skyggðir.
Vísur: Einar Benediktsson
Kvæðamaður: Símon Jóh. Ágústsson
Stemma: Úr Strandasýslu
+ Gaman er að glettunni
Ferskeytt
Gaman er að glettunni,
gott er að hlýða og þegja.
Heyri ég fyrir hettunni
hvað þeir vísu segja.
Vísa: Jóhann Ásgrímsson
Kvæðamaður: Margrét Hjálmarsdóttir
Stemma: Ketill Indriðason
+ Gengið hef ég um garðinn móð
Ferskeytt
Einu sinni var tekin gröf í kirkjugarði nokkrum, og kom upp mikill gröftur. En eins og vandi er, var hann látinn niður aftur með kistunni. Um nóttina eftir dreymdi konu kirkjubóndans, að kvenmaður kæmi til hennar. Hún kvað:
Gengið hef ég um garðinn móð,
gleðistundir dvína.
Hauskúpuna, heillin góð,
hvergi finn ég mína.
Síðan lét konan leita, og fannst hauskúpa fyrir utan kirkjugarðinn, er hundar höfðu borið út úr honum, meðan beinin lágu uppi, án þess því væri veitt eftirtekt. Konan lét jarða kúpuna og svaf síðan í næði.
Draumvísa
Kvæðamaður: Margrét Hjálmarsdóttir
Stemma: Ketill Indriðason
+ Tekur Jakob tóbakskorn
Ferskeytt
Tóbaksvísur
Tekur Jakob tóbakskorn,
tómið fyllir nasa.
Pontu, dósir, pung og horn
pilturinn ber í vasa.
Tyggur margur tóbaksrót
tíðkast mjög það fárið,
hálfvættin í Heiðarbót
hrekkur vart um árið.
Flýgur hátt um heiðar hér
hás og falskur strengur,
tóbaksstrauma breiða ber
besti tófusprengur
Vísur: Ketill Indriðason
Kvæðamaður: Margrét Hjálmarsdóttir
Stemma: Ketill Indriðason