Ferskeytlur 8
+ Dagur mætur birtu ber
Ferskeytt, hringhent
Dagur mætur birtu ber,
bruggar kæti mönnum.
Mál á fætur orðið er
ála glætu nönnum.
Vísa: Sigurður Bergþórsson
Kvæðamaður: Margrét Hjálmarsdóttir
Stemma: Jón Sigurgeirsson á Tóvegg
+ Nota ber þá tæpu tíð
Ferskeytt, hringhent
Nota ber þá tæpu tíð,
talið fer að skána.
Sverðagrér, ég silfur býð,
seldu mér hann Grána.
Svar við kaupabeiðninni:
Við fróða þjóð er falur ei
né fljóðin góð að vonum,
þótt rjóða bjóði maður mey
og móðuglóð við honum.
Vísa: Húnvetnskar
Kvæðamaður: Margrét Hjálmarsdóttir
Stemma: Jóhann Jóhannsson
+ Margra hunda og manna dyggð
Ferskeytt
Raulað við kisu
Margra hunda og manna dyggð
má sér aftur veita,
en þegar ég glata þinni tryggð
þýðir ei neitt að leita.
Vísa: Þorsteinn Erlingsson
Kvæðamaður: Margrét Hjálmarsdóttir
Stemma: Margrét Hjámarsdóttir
+ Gnauðar mér um grátna kinn
Ferskeytt
Kveðja
Gnauðar mér um grátna kinn
gæfu mótbyr svalur,
nú þig kveð eg síðsta sinn
sveit mín Aðaldalur.
Kveð eg vini, firða og fljóð,
ferðar til ei hlakka.
Kærleik, dyggð og kynni góð
klökkur öllum þakka.
Vísur: Sigurbjörn Jóhannsson
Kvæðamaður: Margrét Hjálmarsdóttir
Stemma: Ketill Indriðason
+ Allra best er ull af sel
Ferskeytt
Öfugmælavísur
Allra best er ull af sel,
æðardúnn í þvöru,
maðkar syngja mikið vel,
mýsnar éta tjöru.
Kisa spinnur bandið best,
baulur kunna að saga,
hrafninn oft á sjónum sést
synda og fiskinn draga.
Tjaran hvergi tollir við,
tinið heitt má beita,
sætur tæta selshárið
saman við ullu geita.
Vísur: Bjarni Jónsson Borgfirðingaskáld
Kvæðamaður: Margrét Hjálmarsdóttir
Stemma: Jónatan Jónatansson
+ Enginn kemur, enginn sést
Ferskeytt
Enginn kemur, enginn sést,
enginn situr hjá mér,
því allir sem ég unni mest
eru burtu frá mér.
Enginn kemur, enginn fer
enginn hér við stendur,
enginn bíður eftir mér
enginn verður sendur.
Gamlar vísur
Kvæðamaður: Margrét Hjálmarsdóttir
Stemma: Jónmundur Halldórsson
+ Heyra brak og bresti má
Ferskeytt, hringhent
Heyra brak og bresti má,
broddur klaka smýgur,
hófa vakur haukur þá
hrannarþakið flýgur.
Þetta orti Jón er hann reið góðhesti sínum yfir Hópið á svo þunnum ísi, að vatnaði upp um skaflaförin.
Vísa: Jón Ásgeirsson
Kvæðamaður: Margrét Hjálmarsdóttir
Stemma: Benedikt Snæbjörnsson
+ Nú fram rásar Norðra knör
Ferskeytt, hringhent
Ávarp
Nú fram rásar Norðra-knör,
Nikulás má heyra.
Gaf mér ása-öðling ör
ögn af Kvásis-dreyra.
Nikulás svaraði:
Siggi lagar sansafrjáls
söfnin braga slyngur;
þú ert, lagar býtir báls,
bestur hagyrðingur.
Vísur: Sigurður Bergþórsson frá Ánabrekku
Kvæðamaður: Margrét Hjálmarsdóttir
Stemma: Jóhann Jóhannsson
+ Kóngs til aftur kastar álm
Ferskeytt, hringhent
Rímur af Svoldarbardaga — Niðurlag 5. rímu
Til konungs aftur kastar álm
korða raftur fríði,
greip svo skaft á gildri skálm,
gekk með krafti að stríði.
Vinstri höndu hrífur skjöld,
hafs á löndum klára,
flæmdi önd úr fanta öld
og flengdi vöndum sára.
Alldjarflega braust fram beim
við bófa trega að stíma;
mig ég dreg frá honum heim;
hættir þegar ríma.
Þrjóti ræða, lundin lýr,
ljót vill mæða baga,
njóti klæða hrundin hýr,
hljóti gæða daga.
Vísur: Sigurður Breiðfjörð
Kvæðamaður: Margrét Hjálmarsdóttir
Stemma: Jónmundur Halldórsson
+ Ögra læt mér ægislið
Ferskeytt, hringhent
Rammislagur
I.
Grána kampar græði á,
gjálpir hampa skörum,
titra glampar til og frá,
tifur skvampa í fjörum.
Ögra læt mér Ægis lið
upp úr sæti malar.
Ránar dætur dansa við
deigum fæti kjalar.
Undir bliku beitum þá
bát og strikið tökum.
Stígum vikivakann á
völtum kvikubökum.
Gólf er liðugt, löng og stór
leikjarsvið hjá unni.
Spriklar, iðar allur sjór,
ystu mið að grunni.
Utan sendar öldur sér
áfram henda og flýta,
vilja að lendi í lófa mér
löðurhendin hvíta.
Byljir kátir kveðast á,
hvín í sátri og hjöllum.
Báruhlátrar hlakka frá
hamralátrum öllum.
II.
Stormur þróast, reigir rá,
Rán um flóann eltir,
kólgum sjóarkletta á
köldum lófa veltir.
Heim að vörum hleypum inn
hátt á skörum rasta.
Bára ör, á arminn þinn
önd og fjöri ég kasta.
Skipið stansar, skýst á hlið
seið til landsins horfna.
Bárur glansa og glotta við,
glatt er á dansi norna.
Mastrið syngur sveigt í keng,
seglið kringum hljómar,
raddir þvinga úr stagi og streng
stormsins fingurgómar.
Léttum gang um græði svíf,
gleymi angri mínu,
þegar hangi um hel og líf,
haf, í fangi þínu.
Leggðu barminn alvot að,
aftanbjarma gljáa.
Strjúktu harm úr hjartastað,
hrönn in armabláa.
Vísur: Stephan G. Stephansson
Kvæðamaður: Margrét Hjálmarsdóttir
Stemma: Árni Árnason gersemi
+ Linna bóla Hroftum hjá
Ferskeytt, hringhent
Hjálmar og Ingibjörg — Hjálmarskviða — Vísur 23 – 32
Linna bóla Hroftum hjá
Hárs er fólu brímann,
svo til bóli buðlungs á
bar um jólatímann.
Sat við drykkju sveitin kná,
sem að þrykkir trega,
höllu gikkir hrundu frá
hurð óskikkanlega.
Þrimla Manar þollar tólf
þar inn flana ótregir,
blóði vanan benjakólf
báru hranalegir.
Fanta skarinn fram sig dró
fyrir hara nýta,
mestur var einn þeirra þó,
þokkaspar að líta.
Hildarklæðin hafði blá,
heldur gæðatregur.
Byrjar ræðu þannig þá
þursinn hræðilegur:
„Hér má stýrir líta lands
láni dýru ríka
Angantýr og trausta hans
talda hlýra líka.
Arngríms kundar erum við,
ala mundir hrafna,
aldrei Þundar elds í klið
okkar fundum jafna.
Hingað tróðum til þess inn,
Trana rjóður dýnu;
gildur bróðir girnist minn
giptast jóði þínu.
Sá var heitinn Hjörvarður,
hreysti beitir nægri,
aldrei þreytist aflramur,
engan leit ég frægri.
Bál ei Rínar brestur þann
bæna Gínars hlenna;
dóttir þína hyggur hann
höndum sínum spenna.“
Vísur: Sigurður Bjarnason
Kvæðamenn: Jónbjörn Gíslason og Júdit Jónbjörnsdóttir
Stemma: Erlendur Erlendsson
+ Vors ei leynast letruð orð
Ferskeytt, hringhent
Harpa
Svipnum breytir, lagi, lit,
loftið, sveit og vegur —
á sig veit sín valdaslit
vetur þreytulegur.
Blána lít ég heiðið hjá
hnjúkastrýtum bröttum;
þeyrinn ýtir þeim frá brá
þokuhvítum höttum.
Þó að varla andi yl
yfir mjallar skara,
sól og fjalla suður til
sveitir allar stara.
Vona, að hrifin verði af sér
veðurdrifin mjöllin;
vita, að svifið vorið er
vestan yfir fjöllin.
Vor, sem frjói laufgar lund,
litkar mó og víðir,
kaldan snjó af gróðurgrund
geislalófum þíðir.
Springa hvellt í skrugguskúr
skýjabeltin fjallsins.
Krapinn veltist votur úr
vetrarkeltu dalsins.
Gils úr fangi flosnar snjár.
Fjalla vangar þána.
Skýjadrangar reisa í rár
rauða, langa fána.
Munni blautum ljóðalög
leystar tauta iður,
meðan laut og leirug drög
léttfætt stauta niður.
Jakaæki áin ber,
ísaflækju rastar.
Vakrir lækir leika sér —
lífið hækjum kastar.
Vötnum sækja farveg frá
flóð, sem krækja í slökkum.
Uppi flækjast fiskar á
flæddum lækjarbökkum.
Straumönd þrautfleyg áir á
uppheims brautum norðar —
setin laut og sundfær á
söngla í skauti storðar.
Hnappa skæra í hárið fá
hríslur, ærið snoðnar
jafnvel hærum holta á
hvíti blærinn roðnar.
Vors ei leynast letruð orð
ljóst á grein og móa:
Sæla reynast sönn á storð
sú mun ein, að gróa.
Einskis rétt ég man til meins
meðan þetta er kveðið.
Vorsins fréttir þig yngi eins
upp, og létti geðið
Umhverfis
Gyllt er brá á bjargasal,
blómstrum gljáir haginn,
tindrar áin ofan dal
út í bláan sæinn.
Vísur: Stephan G. Stephansson
Kvæðamaður: Indriði Þórðarson
Stemma: Indriði Þórðarson
+ Stjörnu hnýtir hyrnu blá
Ferskeytt, hringhent
Morgunn
Nóttin heldur heimleið þar
himins feldur blánar,
logar eldur ársólar
yst í veldi ránar.
Dagsetur
Stjörnu hnýtir hyrnu blá
himins nýtu veldi.
Burtu ýtir eygló frá
ofnum hvítum feldi.
Sól í hafi
Upp við dranga, hnjúk og hól
hallast langir skuggar.
Rjóð á vanga runna sól
Rán í fangi huggar.
Vísur: 1. — 2. Erlingur Friðjónsson, 3. Adam Þorgrímsson
Kvæðamaður: Indriði Þórðarson
Stemma: Indriði Þórðarson
+ Lauf út springa, lifna blóm
Ferskeytt, hringhent
Lauf út springa, lifna blóm,
lífið yngist fríða.
Velli kringum vinar óm
vorið syngur blíða.
Vorvísur 1915
Ljómar sól um sæ og ver,
signir hól og dranga;
vors í skjóli orðið er,
allt sem kól á vanga.
Vordís kallar veldishá,
vikna fjallið tekur.
Rósin vallar rísa má
rödd sú alla vekur.
Fuglar syngja fögrum róm
frjógvast lyng um tóna;
taka að yngjast aftur blóm
út hver springur króna.
Lindin smáa lifnuð er,
Ijóða má hún kvæði.
Klakinn grái úr farveg fer,
flytur snjá að græði.
Lífið hlær með létta brá
ljómar særinn fríður;
gleðiblær er öllu á
unaðsvær og þýður.
Ganga sauðir grundum á
gleyma nauðum kífsins;
finnst þá hauður frítt að sjá
fullt af auði lífsins.
Vetrarangur víkur frá,
vors um langa daga.
Blikar stangir bjarkar á
blómin anga í haga.
Vellur spói um vallartó,
vælir kjói í flóa.
Kveður lóan kærast þó,
kvakar í skóg og móa.
Allt er kátt sem anda má,
óma dátt söngmunnar. —
Hrifinn máttu hlusta á,
hljóma náttúrunnar.
Aldur hækkar eyðist þrá
unaðs smækka hagar.
Sólin lækkar lofti á
lífsins fækka dagar.
Vísur: 1. Óþekktur höfundur, 2. Jens Sæmundsson, 3. óþekktur höfundur
Kvæðamaður: Indriði Þórðarson
Stemma: Indriði Þórðarson
+ Röðull skjótt um geislagnótt
Ferskeytt, oddhent, hringhent
Náttsefjan
Upphaf
Röðull skjótt með geislagnótt
gengur hljótt að viði.
Blessuð nóttin býður drótt
blunda rótt í friði.
Börnin huggar hóglátt rugg.
Hjaðnar gluggaskíma.
Svefninn stuggar ótta og ugg
yfir skuggatíma.
Vitund naum í ferðaflaum
flýr á straumum hærri,
gefur tauminn dulardraum
dægurglaumi fjarri.
Líkt og þrifin sé á svif
sál mín hrifin flýgur,
hjarni drifin hæstu klif
huglétt yfir stígur.
Hvorki bundin stað né stund
stjarna skundar hylinn,
svo sem undir sætum blund
sé við grundu skilin.
Falla bönd af fæti og hönd
furðuströndin laðar
líður önd um loftin þönd
leifturbröndum hraðar.
Vísur: Steinn Sigurðsson
Kvæðamaður: Jón Sigurgeirsson
Stemma: Jón Sigurgeirsson
+ Lofa Kiljan lúselskir
Ferskeytt
Ort undir Háskólavöku
Lofa Kiljan lúselskir,
lærðir háskælingar,
um hann vitna innfjálgir
eins og herkerlingar.
Sjúkt og leikið sálarman
sanna stefnumiðin.
Andleg þjáir óværan
út frá honum skriðin.
Vísur: Guðmundur Þorsteinsson frá Lundi
Kvæðamaður: Guðmundur Þorsteinsson frá Lundi
Stemma: Jón Þórðarson almáttugi
+ Sléttu bæði og Horni hjá
Ferskeytt, hringhent
Lágnætti
Brot
Sléttu bæði og Horni hjá
heldur Græðir anda
meðan hæðir allar á
aftanklæðum standa.
Einn „eg stend á eyri vaðs“
Aftankali um engjaver
eykur tal við jörðu,
rakur svali, er rökkva fer
rýkur um dal og fjörðu.
Kringum bæi kulna fer
kjarni, fræjum sendur;
fölri blæju falda sér
fjalls og slægju lendur.
Sjaldan laus við þykkjuþel
þyngir raustu kalda
komið haust í sólarsel.
Sækir í naustin alda.
Bylgjur kvaka á dvergadyr,
dunur taka að vaxa.
Uppreisn vakin enn sem fyrr
undir þaki laxa.
Dembi fjúki, er drjúgum gefst,
dyngja rjúki fanna;
tekur í hnjúka innst og efst
iktarsjúklinganna.
Sefja fyllir byggð og bæ,
bending illra kjara;
áin hyllir ís og snæ,
efld í milli skara.
Sumararði sigldi í strand
sá er varðar logni,
draumar harðir draga á land
drátt úr fjarðasogni.
Sólargangi þverrar þor,
þungt er í fangi skímu; —
út með dranga á eg spor,
undir vanga grímu.
Oft er mengi í innstu þraut
útigengnu, mætur
sá er gengur bogabraut
bláa — lengi nætur.
Sálu hrelldri setti grið
sær, ef veldi kliðinn,
mánaeldinn vaka við
veitir á kveldi friðinn.
Sinutó og bjargabrík
blikin glóa um vanga,
bárur róa á vogi og vík,
vöðla ló um dranga.
Sálu greiðir ferðaflug,
fram á leið hún spyrnir,
þrotlaust skeið fyrir þrá og hug,
þegar heiði stirnir.
Andanum þá, ef öðlast frið
unnt er að ná til vina, —
ítök dágóð eigum við
upp um blásúðina.
Sumir handa sinna skil
sjá, þó vandist efni.
Framsýnn andi flýgur til
furðustranda — í svefni.
Hátt og lágt frá hafi er
hljóðrar náttar lenda,
þegar eg hátta þykir mér
þangað dátt að venda.
Vogarskál við unnir á
óðarmála smiður,
heillar sálu, hug og þrá
hafs í álinn — friður.
Undir bjargi eigi er skin
út við kargann bleika,
þar, sem margur þráir vin —
þar, sem vargar leika.
Dulargráði dregin er
dröfn á báðar lundir;
inn um láðið lýsa mér
leiftrum stráðar grundir.
Í mig togar eins og dans
öldusog í lónum —
upp frá vogum inn til lands
allt er í loga á snjónum.
Eiga í vörnum augu tvö,
eigi gjörn að brögðum.
Eg á börn í sjónum sjö,
sjö á tjörnum lögðum.
Hugurinn tefur hér og þar,
sem hulan gefur eftir,
máni krefur sæ um svar,
særinn hefur fréttir.
Hríðakorg þó hefji á loft,
hrönn þó orgi að bátum,
renni eg dorg að ýsu oft
eftir morgungátum.
Út um rendur ævihlaðs
enginn Sendling varnar
einn „eg stend á eyri vaðs“
og elti — hendingarnar.
Vísur: 1. Þorsteinn Erlingsson, 2. — 24. Guðmundur Friðjónsson
Kvæðamaður: Guðmundur Þorsteinsson frá Lundi
Stemma: Friðgeir Siggeirsson
+ Er sú klárust ósk til þín
Ferskeytt, hringhent
Agnes og Rósa
Meðan Agnes var að Stóru-Borg kom Rósa þar eitt sinn. Kvað hún þá vísu þessa til Agnesar:
Undrast þarft ei, bauga brú
þó beiskrar kennir pínu;
hefir burtu hrifsað þú
helft af lífi mínu.
Agnes svaraði samstundis:
Er mín klára ósk til þín,
angurs tárum bundin:
Ýfðu ei sárin sollnu mín,
sólar báru hrundin!
Sorg ei minnar sálar herð!
Seka Drottinn náðar,
af því Jesús eitt fyrir verð
okkur keypti báðar.
Vísur: Agnes Magnúsdóttir
Kvæðamaður: Hólmfríður Pétursdóttir frá Gautlöndum
Stemma: Hólmfríður Pétursdóttir frá Gautlöndum
+ Útsuður í einstaka hól
Útsuður í einstaka hól
ætlum við Bjössi að reyna
litlu Gránu og Jarpkollu
ætlum við Bjössi að reyna.
Vísa: Eftir óþekktan höfund
Kvæðamaður: Hólmfríður Pétursdóttir frá Gautlöndum
Stemma: Hólmfríður Pétursdóttir frá Gautlöndum
+ Enginn grætur Íslending
Ferskeytt
Stökur
Enginn grætur Íslending
einan sér og dáinn,
þegar allt er komið í kring
kyssir torfa náinn.
Mér er þetta mátulegt,
mátti vel til haga,
hefði ég betur hana þekkt
sem harma ég alla daga.
Lifðu sæl við glaum og glys,
gangi þér allt í haginn;
í öngum mínum erlendis
yrki ég skemmsta daginn.
Sólin heim úr suðri snýr,
sumri lofar hlýju;
ó, að ég væri orðinn nýr
og ynni þér að nýju!
Vísur: Jónas Hallgrímsson
Kvæðamaður: Hómfríður Pétursdóttir frá Gautlöndum
Stemma: Sigtryggur Helgason
+ Smátt úr býtum bar eg þá
Ferskeytt, hringhent
Vertíðarlok 25. nóvember 1934
Áður var ég ítum hjá
oft í svari glaður.
Lítið þar nú eftir á,
afturfararmaður.
Smátt úr býtum bar eg þá,
býsna lítilvirkur.
Þannig flýtur árum á
uns að þrýtur styrkur.
Gleðitíðir flögra frá,
fyrir kvíðir lundin.
Tímann líður óðum á.
Engin býður stundin.
Að mér sest er elli haust
útveg flestum hallar.
Því er best að bera í naust
bát og festar allar.
Vísur: Bjarni Jónsson frá Akranesi
Kvæðamaður: Bjarni Jónsson frá Akranesi
Stemma: Bjarni Jónsson frá Akranesi