Hefðin og Arfurinn

Skilgreiningar

Rímur

Rímur eru löng kvæði í reglubundnu formi (rímnaháttum) þar sem sagðar eru sögur. Elsta varðveitta ríman er ríma af Ólafi helga Haraldssyni í Flateyjarbók þannig að rætur þeirra má rekja aftur til 14. aldar. Þetta er stök ríma en fljótt varð venjan sú að söguefnið skiptist niður í einstakar rímur sem saman mynda síðan rímnaflokk. Skipting rímnaflokks niður í einstakar rímur fylgir oft kafla- eða þáttaskilum í sögunni en oft er líka skilið við atburðarásina á spennandi stað til að auka eftirvæntingu eftir framhaldinu. Í rímum frá miðöldum var algengast að sami bragarháttur væri á flestum eða öllum rímunum í sama rímnaflokki en seinna varð að venju að skipta um bragarhátt við hverja nýja rímu. Rímur virðast alltaf hafa verið ortar eftir sögum sem voru til fyrir, oftast riddarasögum, fornaldarsögum eða ævintýrum, nokkrar rímur eru ortar eftir Íslendingasögum og einstaka eru til um kristileg efni.

Rímnahættir

Rímur eru ortar undir ákveðnum bragarháttum, með föstum reglum um rím, stuðlasetningu og atkvæðafjölda. Þær eru stuðlaðar þannig að þar myndast svokölluð braglínupör, tvær línur stuðla saman. Fyrri lína braglínuparsins, sem kallast frumlína, hefur tvo stuðla og svokölluð síðlína, sem er þá seinni línan í parinu, hefst á höfuðstaf sem samsvarar stuðlunum í frumlínunni. Stuðlar og höfuðstafir kallast einu nafni ljóðstafir. Braglínur skiptast í svokallaðar kveður eða bragliði, sem að sumu leyti samsvara taktbilum í tónlist. Rímur eru ortar undir ýmsum bragarháttum sem eiga þó sitthvað sameiginlegt. Allir rímnahættir eru byggðir á tvíliðum, þ.e. í hverri kveðu eru tvö atkvæði, þeir eru með endarími og alltaf stuðlaðir eftir fyrrnefndum reglum. Hættirnir skiptast í ferkvæða hætti (með fjórum línum), þríkvæða hætti (með þremur línum) og tvíkvæða hætti (með tveimur línum). Braglínulengd er mismunandi eftir háttum en þar er þó líka fylgt ströngum reglum.

Rímnalög

Rímnalögin (sem líka eru kölluð kvæðalög eða stemmur) einkennast af því að þau tengjast ekki ákveðnum textum heldur eiga þau við ákveðna bragarhætti. Til þess að flytja rímnaflokk sem ortur er undir mörgum bragarháttum þarf kvæðamaður að kunna að minnsta kosti eitt kvæðalag við hvern bragarhátt. Til er ógrynni rímnalaga í ótalmörgum tilbriðgum og útgáfum, þau eru af ýmsu tagi og hafa margskonar svipmót og stemningu. Eins og mismunandi bragarhættir kalla á mismunandi rímnalög getur efnið ráðið valinu. Angurvær stemma getur farið vel við mansöngsvísur eða ástarljóð en ef kveðnar eru blóðidrifnar bardagalýsingar rímna hentar oft betur að nota hraðkvæðar stemmur sem ná yfir lítið tónsvið. Val á stemmum veltur því á efni og aðstæðum.

Lagboðar

Innan Iðunnar hefur orðið til mjög fastmótuð hefð sem felst í því að hafa eina tiltekna vísu til þess að kveða við hverja einstaka stemmu. Vísan er notuð til að læra stemmuna, festa hana í minni, æfa hana og koma henni á framfæri í munnlegri geymd. Slíkar vísur hafa verið kallaðar lagboðavísur og oft er talað um þær og stemmurnar í einu lagi sem ‘lagboða’.

Kvæði og lausavísur

Íslendingar hafa lengi ort önnur kvæði, og ekki síst lausavísur, undir sömu bragarháttum og rímur, þ.e. rímnaháttum. Iðunn hefur lagt sérstaka rækt við slíka vísnagerð og er til aragrúi lausavísna í safni félagsins, og á hverjum félagsfundi bætist í sjóðinn, enda fjöldi hæfileikaríkra hagyrðinga meðal félagsmanna. Segja má að vísnagerð hafi verið þjóðariðkun frá fornu fari og hlutverk vísnanna og efni þeirra er nánast samofið lífi þjóðarinnar í landinu. Í þeim er fjallað um náttúruna, ástina, heimþrá og söknuð eftir látnum vinum; en einnig er ort um hesta, ferðalög, drykkjuskap og veðrið. Þá eru ótal barnagælur til undir rímnaháttum sem einnig eru fjölbreyttar að efni. Þar birtast oft litlar myndir úr daglegu umhverfi barnsins: kveðið er um dýrin og blómin, börnin sjálf og leiki þeirra og störf. Allar vísur og kvæði sem ort eru undir rímnaháttum er hægt að kveða með rímnalögum.

Tvísöngur

Tvísöngur er tvíradda söngur þar sem laglínan er sungin ein- eða tvíradda til skiptis og samstíga fimmundir eru áberandi. Algengasta tóntegund tvísöngslaganna er lýdísk kirkjutóntegund sem er eins og F-dúr með h í stað b. Algengast var að víxla á h-inu, sjálfum tónskrattanum. Einnig er til að rímnalög séu kveðin í tvísöng.