Skammhent

- Annað getum ekki að sinni

Skammhent, frumhent

Rímur af Hænsna-Þóri5. ríma, vísur 71 — 74

Annað getum ekki’ að sinni
yður nýrra sagt:
en Blund-Ketil brenndan inni,
og ból í ösku lagt.

Hver nam valda verki hroða
vandlega spyr hann að;
en Þorvald og Arngrím goða
aftur Trefill kvað.

Þessir unnu verkið versta
víst í fyrri nátt.
Ei lét Gunnar á sér festa
og um það ræddi fátt.

Laufa runnar lögðust niður
lúnir þiggja ró.
Árla Gunnar bregða biður
blundi rekka þó.

Vísur: Sveinn Sölvason
Kvæðamaður: Kjartan Ólafsson (kenndi og kvað)
Stemma: Úr Árnessýslu

+ Vör þó mæti kaldra kossa

Skammhent, hringhent

Vör þó mæti kaldra kossa
koma bæturnar;
Ægir lætur hægt mér hossa
heimasæturnar.

Gesti fögnuð hrannir halda
hér á lögninni.
Kynjamögn, er veðrum valda,
vaka í þögninni.

Röng og bendur skálda í skyndi
skarpa hendingu;
dulin hendi veifar vindi
vog og lendingu.

Brims af sogum blönduð þræta
byltir vogunum.
Siglur boga bentar mæta
bylja togunum.

Vísur: Valdimar K. Benónýsson
Kvæðamaður: Þuríður Friðriksdóttir (Ingþór Sigurbjörnsson kenndi)
Stemma: Úr Húnavatnssýlsu. Valdimar K. Benónýsson

+ Fokkubanda-fák ég vendi

Skammhent, hringhent

Fokkubanda-fák ég vendi
fram að grandanum. —
Stjórnarvandinn hæfir hendi,
höndin andanum.

Dreg ég tröf að hæstu húnum,
herði á kröfunum.
Drekahöfuð byltir brúnum
brims í köfunum.

Fann ég stoð að farmanns reglum,
firrtur voðanum;
fleytti gnoð með fullum seglum
fram hjá boðanum.

Lífs til stranda ljóst ég kenndi
leið úr vandanum.
Bar mig andi í Herrans hendi
heim frá grandanum.

Vísur: Valdimar K. Benónýsson
Kvæðamaður: Þuríður Friðriksdóttir (kenndi og kvað)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Valdimar K. Benónýsson

+ Hvað er synd hjá seggja grúa

Skammhent

Í skemmtiferð Iðunnar 1958

Hvað er synd hjá seggja grúa
sögð af blindum heim?
Hún er yndi, ég vil hlúa
enn að myndum þeim.

Vísa: Jóhann Garðar Jóhannsson
Kvæðamaður: Ragnheiður Magnúsdóttir
Stemma: Helga Þórðardóttir

+ Þá skal tjá frá Þingeyingum

Skammhent

AlþingisrímurUpphaf 13. rímu

Þá skal tjá frá Þingeyingum,
þá var dauft og hljótt,
drúpti Bensa dáinn kringum
dauðans kalda nótt.

Þá var allur „eldur dauður“
eftir voða-skell,
þegar Bensi hart á hauður
hinsta sinni féll.

Yfir sig þeir ákaft jusu
ösku og fóru í sekk;
þá í augun illa gusu
æðimargur fékk.

Vísur: Úr Alþingisrímum
Kvæðamaður: Ragnheiður Magnúsdóttir
Stemma: Úr Skaftafellssýslu

+ Blóðgum klafa læst í langa

Skammhent, hringhent

Mansöngur

Blóðgum klafa læst, í langa
lest á grafarslóð,
ríms á hafið hélt til fanga
höfuðstafaþjóð.

Köld og ber, að kæfðum ekka,
kafin frerasnæ,
bar hún sér á borð að drekka
Báleygs kerasæ.

Glöð og snotur gamla bagan
gull í brotum var.
Heim í kotið hetjusagan
hljóm úr sloti bar.

Myrkrið hneig að stafni og stéttum,
stormur geigvænn hvein,
en Hnitbergsveigar hrundu létt um
hrifineygan svein.

Hvílíkt yndi anda fleygum
af þeim lindum veitt:
rímið sindrar, rósasveigum
rist, og myndum skreytt.

— Aldarslagur annar sunginn
er, og dagur nýr. —
Hvað skal sagan hljómi slungin,
hvað skal bragur dýr?

Glæpabræður grafa og slæða
gullsins væðum í.
— List og fræði fagurkvæða
ferst í æði því.

Tungustamir stáli gjalla
steðji og hamar þar.
— Öldur ramar ennþá falla
„of et sama far“.

Mútur bjóðast, böðlar tryllast,
blása í glóðina.
— Ert þú þjóð mín ekki að villast
út í móðuna?

Grimmur heimur hlær og lokkar
heiðarfeiminn álf.
En hver mun geyma arfinn okkar
ef við gleymum sjálf?

Blikur sverða blóðgar lýsa
brattan ferða stig.
Bylgjuherðar háar rísa —
Hvað mun verða um þig?

*

Þjóðir eyðast, svipur sagnar
sést um skeið og dvín.
Gleymskan breiðir bleikrar þagnar
blæju á leiðin sín.

Þegar endist ei né hrökkur
annáls bending nein
seinast stendur reifð í rökkur
rímuð hending ein

eins og raf í djúpsins dróma,
— dylst í kafinu.
Og það stafar undraljóma
upp úr hafinu.

Vísur: Guðmundur Böðvarsson
Kvæðamaður: Jóhann Garðar Jóhannsson
Stemma: Jóhann Garðar Jóhannsson

+ Þrautir allar þurftir líða

Skammhent, hringhent

Herdísarvíkur-Surtla

Þrautir allar þurftir líða
þar á fjallinu.
Þú ert fallin, hlaust að hlýða
heljarkallinu.

Oft var hart í útlegðinni,
angrið margt þá slær.
Þjóðarhjarta er því í minni
þessi svarta ær.

Vítt um svæðið valdið nauða
völdum ræður enn.
Hana af bræði hröktu í dauða
hundar bæði og menn.

Þú í blóði þínu liggur,
— þér ég óðinn syng. —
Skyttan góða þegar þiggur
þráðan blóðpening.

Miskunn skeikar, minnkar fremdin,
mannúð reikul er. —
Sauðfjárveikivarnarnefndin
víða hreykir sér.

Morðið arma upp til fjalla
eykur harmana.
Surtla jarmar uppá alla
ólánsgarmana.

Vísur: Gísli Ólafsson
Kvæðamaður: Flosi Bjarnason
Stemma: Bjarni Jónsson frá Akranesi

+Náði elli bríkin bolla

Skammhent, hringhent, síðbaksniðhent

Náði elli bríkin bolla,
bjó til vellu sull.
Þórunn féll og þá var kolla
þung af gelli full.

Vísa: Eftir óþekktan höfund
Kvæðamaður: Margrét Hjálmarsdóttir
Stemma: Jóhann Jóhannsson