Öldum saman styttu Íslendingar sér stundir við vinnu sína á kvöldin í baðstofunni með ýmis konar skemmtun, afþreyingu og fræðslu. Á meðan heimilisfólk sat á rúmstokknum með verk í hönd tók eitthvert þeirra að sér að kveða, segja sögu eða lesa upp úr gömlum eða nýjum ritum hinum til skemmtunar.
Á Safnanótt býðst gestum Þjóðminjasafnsins að hverfa aftur á 19. öld, setjast á bekk með kamba eða snældu í hönd, og upplifa kvöldvöku þar sem félagsfólk Kvæðamannafélagsins Iðunnar sér um afþreyinguna. Dagskráin verður milli kl. 18:00 og 21:00 og hefst með kvæðalagaæfingu þar sem ungum sem öldnum verður kennt að kveða nokkar stemmur við vísur sem höfða til barna. Síðan verður dagskráin óslitin og afar fjölbreytt því allan tímann tekur eitt við af öðru, svo sem ýmiss konar kveðskapur, rímur og vísur, fluttar af kvæðamönnum og -konum, einnig börnum, sagnaþulur segir sögu, vísur og kvæði lesin upp, langspilsleikur, söngur, lítið hagyrðingamót þar sem þrír hagyrðingar flytja frumsamdar vísur með ákveðnu þema og sagnadans (víkivakadans/hringdans).
Dagskráin:
Kl. 18:00 Kvæðalagaæfing fyrir unga sem aldna. Kennd verða kvæðalög úr safni Iðunnar og fleira, við vísur sem höfða vel til barna. Umsjón hefur Rósa Jóhannesdóttir.
Kl. 18:45 Sagnakonan Rósa Þorsteinsdóttir segir sögu.
Kl. 19:00 Kveðskapur. Bára Grímsdóttir kveður nokkrar skemmtilegar vísur fyrir börn.
Kl. 19:10 Tríó Zimsen syngja og kveða af sinni rómuðu list. Tríóið skipa börnin Iðunn. Helga, Gréta Petrína og Jóhannes Jökull Zimsen.
Kl. 19:20 Ljóðaflutningur. Valdimar Tómassonn flytur frumsanin ljóð.
Kl. 19:25 Langspilsleikur. Chris Foster og Bára Grímsdóttir leika á langspil og syngja.
Kl. 19:35 Kveðskapur. Ásta Sigríður Arnardóttir kveður nokkar vísur..
Kl. 19:45 Litla hagyrðingamótið. Þrír hagyrðingar flytja frumsamdar vísur.
Kl. 19:50 Tvísöngvar. Linus Orri Gunnarsson Cederborg og Chris Foster flytja.
Kl. 19:55 Ljóðaflutningur og kveðskapur. Gunnar Straumland flytur frumsamin ljóð.
Kl. 20:05 Kveðskapur. Linus Orri Gunnarsson Cederborg kveður vel valdar vísur.
Kl. 20:15 Ljóðaflutningur. Sigurlín Hermannsdóttir flytur frumsamin ljóði.
Kl. 20:25 Kvæðakórinn flytur kvæðalög. Stjórnandi Linus Orri Gunnarsson Cederborg.
Kl. 20:35 Sagnadans. Atli Freyr Hjartarson leiðir alla í söng og dans.
Man ég bjarta bæinn minn frá bernskudögum,
þar sem rjáfrið söng af sögum,
sónargaldri, rímnalögum.
Pabbi sjálfur sat þar oft við sagnalestur.
Þróttur kvæða þótti mestur
þegar skemmti næturgestur.
Vísur: Steinn Sigurðsson
Kvæðamannafélagið Iðunn er stofnað þann 15. september árið 1929. Tilgangur félagsins er að æfa kveðskap og safna rímnalögum (íslenskum stemmum) og alþýðuvísum, fornum og nýjum. Jafnframt sinnir félagið fræðslu- og kynningarstarfi um þjóðlög og alþýðutónlist. Núverandi formaður félagsins er Bára Grímsdóttir.