Hefðin og Arfurinn

Kveðskaparkverið

1. Kveðskapur í sögulegu samhengi.

Kveðskapur verður að teljast elsta þekkta tónlistariðkun Íslendinga. Kvæðamennskan á 19. og fram á 20. öld fór að mestu fram á kvöldvökum í baðstofum torfbæjanna, ef marka má heimildir,[1] þar sem heimafólkið sat við vinnu sína og gesturinn (eða heimamaðurinn) kvað rímur eða stökur. Seinna meir, þegar útvarpið kom til sögunnar má segja að það hafi haldið fram hefðbundnum aðstæðum kveðskaparins, þannig að úr útvarpinu heyrðist í einum kvæðamanni[2] (í einu) og heima sátu hlustendur, gjarnan með handavinnu. Í millitíðinni var Kvæðamannafélagið Iðunn stofnað, þar sem kvæðamenn komu fram við allt aðrar kringumstæður: þeir stóðu einir á sviði, fyrir framan áheyrendur sem höfðu greitt aðgangseyri/félagsgjald, í sal sem greidd var leiga fyrir.

Margir góðir kvæðamenn urðu þekktir í sínu nærsamfélagi og sumir um land allt. Jón Lárusson var líklega þekktasti kvæðamaðurinn á þeim tíma sem Kvæðamannafélagið Iðunn var stofnað, og hann var fljótlega kosinn heiðursfélagi þess. Það er ekki ólíklegt að tónleikahald Jóns og barna hans í Reykjavík á árunum 1928-1930 hafi beinlínis stuðlað að stofnun Iðunnar. Jón hélt marga kvæðatónleika á þessum árum, ýmist einn eða með börnum sínum. Tónskáldið Jón Leifs hljóðritaði kveðskap nafna síns árið 1925 og hvatti hann til að kveða opinberlega. Jón Lárusson var eini kvæðamaðurinn sem boðið var að kveða á Alþingishátíðinni á Þingvöllum árið 1930.

Talið er að kvæðamaður hafi kveðið annað hvort upp úr bókum eða eftir minni, ýmist heilar rímur eða lausavísur, við ýmsar stemmur. Líklega hafði kvæðamaðurinn sínar eigin stemmur og notaði jafnvel sömu stemmuna við marga bragarhætti með því að laga hana að hrynjandi hvers háttar. Þó hafa ýmsar stemmur orðið landskunnar og skilað sér gegnum tíðina en margar þeirra má sjá í bók Bjarna Þorsteinssonar Íslenzk þjóðlög og í Silfurplötum Iðunnar, og heyra á upptökum Iðunnar auk fjölda annarra á www.rimur.is og www.ismus.is .

Kvæðamannafélagið Iðunn var stofnað í Reykjavík árið 1929 af fólki sem flust hafði þangað í atvinnuleit um og uppúr aldamótum. Félagið hefur starfað óslitið síðan. Veturinn 1935-6 lét félagið gera upptökur af 200 kvæðalögum (stemmum) á silfurplötur sem var fullkomnasta hljóðritunartækni þess tíma. Þetta voru allt stemmur sem félagsmenn kunnu og höfðu kennt hver öðrum frá stofnun félagins. Félagið lét gera tvö sett af silfurplötunum og var annað þeirra fært Þjóðminjasafni Íslands til varðveislu, en hitt var í vörslu félagins og var notað til að rifja upp stemmurnar og kveðskapinn á hverju ári í mörg ár eftir að upptökurnar voru gerðar. Eintökin sem til voru á Þjóðminjasafni voru síðar nýtt þegar Kvæðamannafélagið Iðunn ákvað að gefa þessar stemmur út á diskum og í bók, í tilefni af 75 ára afmæli sínu árið 2004. Bókin heitir Silfurplötur Iðunnar, í ritstjórn Gunnsteins Ólafssonar. Í doktorsritgerð minni Deep Freeze: The social and musical influence of the Idunn Society on the Icelandic rímur tradition,[3] geri ég grein fyrir áhrifum Kvæðamannafélagsins Iðunnar á kveðskaparhefðina.

Á síðustu árum hafa fleiri kvæðamannafélög verið stofnuð, svo sem Gefjun á Akureyri, Árgali á Selfossi, Ríma á Siglufirði, Gná í Skagafirði og nú síðast Snorri í Borgarfirði, auk landssamtaka kvæðamannafélaga, Stemmu. Þessi félög hafa notað Silfurplötur Iðunnar til að læra kveðskap. Um það er allt gott að segja, en það verður samt að benda á að í hljóðritasafni Þjóðfræðasafns Stofnunar Árna Magnússonar er til miklu fjölbreyttara efni en Silfurplöturnar geyma. Í þessu kveri er byggt á stemmum af Silfurplötunum, vegna þess að bæði stemmurnar sjálfar og allar upplýsingar um þær eru aðgengilegar á heimasíðu Kvæðamannafélagsins Iðunnar.

[1]Sjá t.d. Jónas Jónasson frá Hrafnagili, Svend Nielsen og Hrein Steingrímsson.
[2]Ég nota karlkynsorðið kvæðamaður jafnt um konur sem karla, en ávarpa lesendur í kvenkyni, jafnt konur sem karla.
[3]Titill á íslensku: Djúpfryst: félagsleg og tónlistarleg áhrif Kvæðamannafélagsins Iðunnar á kvæðahefðina. Doktorsritgerð, Australian National University, 2011.