2. Kveðandi – Skilgreiningar

Listin að kveða er sérstök um margt. Hún snýst, í stórum dráttum, um flutning kvæðamannsins á texta og laglínu; vísu og stemmu. Enn nákvæmara væri að segja að vísa sé flutt með, eða á, stemmunni. Það eru skiptar skoðanir á því hvað þykir fallegast, sem vonlegt er, því smekkur okkar er misjafn. Í doktorsverkefni mínu ræddi ég við nokkurn fjölda kvæðamanna og þar kemur fram að sumum fannst að einungis þeir sem hefðu dökkar raddir, þ.e. alt eða bassa/baritón, gætu kveðið fallega, á meðan öðrum fannst ljósar raddir, þ.e. sópran eða tenór, vera allra fallegastar. Gera má ráð fyrir að fleiri atriði skipti máli þegar við mótum smekk okkar á kveðandi: þar má fyrst nefna skýrleika í framburði svo að áherslur á orðin sem kveðin eru séu þannig að innihald textans komist auðveldlega til skila. Þarna þarf bæði að gæta að almennum skýrum framburði orða, en einnig því hvar í vísunni orðið stendur, hvort það er í hákveðu eða lágkveðu, hvort það ber í sér afgerandi merkingu fyrir samhengi textans og hvernig það stendur í sambandi við ljóðstafi og rím. Það er augljóst að smekkur félagsmanna í Kvæðamannafélaginu Iðunni árið 1935-6 hefur verið nokkuð fjölbreyttur, þegar stíll kvæðamannanna sem fengnir voru til að kveða inn á silfurplöturnar er skoðaður. Þetta eru 13 kvæðamenn, sem ég hef skipt niður í þrjá hópa.[4]

Eftir að hafa hlustað á allar stemmurnar sem hver kvæðamaður kveður, skilgreindi ég þessa hópa sem I. “söngvara”, II. “hálf-söngvara” og III. “kveðara”. “Söngvara” hópinn skilgreindi ég þannig vegna þess að raddbeitingin er eins og hjá einsöngvurum eða hverjum þeim sem syngur fullum hálsi og lætur tónana njóta sín til fulls, og hefur langa sérhljóða. “Kveðara” skilgreindi ég sem þá sem eru á hinum endanum, þ.e. láta textann hafa forgang, syngja ekki fullum hálsi, heldur tengja textann (og þar með laglínuna) þétt saman á andardrættinum, og skreyta gjarnan laglínuna þar sem það á við. Þessi hópur á það einnig sameiginlegt að hafa aðra tóna í röddinni en þeir sem aldir eru upp við að hlusta á tónlist í útvarpi og syngja eftir nótum. “Hálf-söngvara” skilgreindi ég þarna mitt á milli: stundum eru þeir nær kveðurum og stundum nær söngvurum.

Þessi greining er alls ekki dómur um hlutaðeigandi kvæðamenn, heldur tilraun til að skoða raddbeitingu þeirra og meðferð á texta, þannig að það megi koma nýjum kvæðamönnum að notum.

Danski þjóðfræðingurinn Svend Nielsen birti rannsókn sína á kvæðamanninum Þórði Guðbjartssyni á bók 1982[5] og skýrði þar meðal annars frá tilraun sem hann gerði til að greina hver munurinn væri á upplestri, söng og kveðskap. Þessi rannsóknaraðferð er kölluð “spectral analysis” á ensku, eða hljóðrófsgreining, og hún mælir hér tónlengdina í mannsröddinni við mismunandi raddbeitingu. Niðurstaðan sýnir ótvíræðan mun á þessu þrennu: tónlengdin verður lengst í söng, mun styttri í kveðskap og langstyst í upplestri.

Þegar hlustað er á kvæðamenn er gott að hafa í huga að þeir sem fæddir voru á síðustu áratugum 19. aldar ólust ekki upp við að heyra vestræna klassíska tónlist að neinu ráði og þess vegna má gera ráð fyrir að tónheimur þeirra og hljómhugsun hafi verið töluvert frábrugðin því sem nú er. Sú tónlist sem maður elst upp við hefur mikil áhrif á það hvernig maður syngur sjálfur, og hvernig hugmyndir manns eru um hvað er “rétt” eða “hreint” og hvað er “falskt” þegar kemur að því að mynda sér skoðun á söng annarra. Þjóðir heims hafa ólíka tónhugsun sem kemur til af því að það er leikið á ólík hljóðfæri, sem eru stillt í alls kyns skölum (tóntegundum) sem okkar vestrænu nútímaeyru hafa kannski aldrei heyrt. Áður en Ríkisútvarpið hóf að útvarpa vestrænni “klassískri” tónlist höfðu fáir Íslendingar heyrt slíkt. Raddbeiting elstu kvæðamanna Iðunnar er því mjög frábrugðin raddbeitingu þeirra yngri. Þetta heyrist best þegar bornir eru saman þeir sem eru í flokki I og í flokki III. Þeir sem lenda í miðjuflokknum, samkvæmt minni greiningu, hafa ýmislegt sem minnir á þá eldri, en beita engu síður röddinni á sama hátt og þeir yngri, og þeir sem ólust upp við vestræna klassíska hljómahugsun.

Hlustum nú á kvæðamenn úr þessum þremur flokkum:

Hópur I “kveðari”:

Sigríður Friðriksdóttir. Rödd hennar liggur fremur hátt, þ.e. hún myndi flokkast sem sópran. Sigríður er ein hinna fjögurra systkina sem ásamt öðrum stofnuðu Kvæðamannafélagið Iðunni. Hún ólst upp við kveðskap og þótti einn besti kvæðamaður Iðunnar. Takið eftir „slaufunum“ hennar, þ.e. hvernig hún skreytir laglínuna, sérstaklega í númer 123. [Silfurplötur Iðunnar númer 121, 122 og 123]

Hópur II “hálf-söngvari” (eða “hálf-kveðari”):

Sigríður Hjálmarsdóttir. Rödd hennar liggur mjög hátt og hún er einnig næstyngsti kvæðamaðurinn, 26 ára þegar upptökur voru gerðar. Sigríður var dóttir Önnu Bjarnadóttur og Hjálmars Lárussonar og ólst því upp við kveðskap. Á hitt ber einnig að líta að í hennar æsku er orðin meiri völ á ýmiss konar tónlist og má ætla að tóneyra hennar hafi einnig mótast af vestrænni hljómahugsun. [Silfurplötur Iðunnar númer 181, 182 og 183]

Hópur III “söngvari”:

Kjartan Ólafsson. Kjartan var fyrsti formaður Iðunnar og sat í stjórn Verkamannafélagsins Dagsbrúnar. Hann hafði áður tekið þátt í uppfærslum á söngleikjum í Reykjavík. Fyrstu kynni Kjartans af kveðskap voru gegnum félaga hans í Iðunni. [Silfurplötur Iðunnar númer 51, 52 og 53]

Í fyrsta hópnum eru systkinin Björn, Ingibjörg, Sigríður og Þuríður Friðriksbörn, Magnús Sigurðsson og Sigurður S. Straumfjörð. Kveðandi systkinanna fjögurra og Magnúsar er nánast eins: þau kveða bundið (legato), með skreytingum sem virðast koma alveg áreynslulaust. Sigurður hefur svipaðan stíl, en hefur þann vana að hika, stundum í miðju orði, í síðustu skreytingunni í lok hverrar vísu. Systkinin nota andardráttinn til að undirstrika textann, en hvorki Magnús né Sigurður nýta þá “tækni”. Raddir allra þessara kvæðamanna eru “lausar”, með náttúrulegri vibrato (sveiflu) sem lætur skreytingar hljóma áreynslulausar. Hljómhugsun þeirra allra virðist vera hin sama og er oftast mjög frábrugðin venjulegum dúr og moll eins og við þekkjum þá.

Í hópi II eru Magnús Pétursson, Sigríður Hjálmarsdóttir og Jón Eiríksson sem var aðeins 9 ára þegar upptökur fóru fram. Magnús hefur nokkuð af sömu hljómhugsun og kvæðamennirnir sex í flokki I, en hann hefur samt annan hátt á flutningnum, þannig að kveðandi hans líkist meira söng, þ.e. hann hálf-syngur. Hljómhugsun þessa hóps má lýsa þannig að hún standi mun nær vestrænni harmónískri hefð. Sigríður og Jón hafa svipaðar raddgerðir. Rödd Jóns er þó enn skærari en hennar og algjörlega “in tune”. Hann ber þess þó einnig merki að hafa lært hjá Birni Friðrikssyni. Sigríður kveður oft legato (bundið) eins og hópur I, en hún leggur jafna áherslu á öll atkvæðin sem er mjög frábrugðið kveðandi systkinanna fjögurra, sem leggja að jafnaði áherslu á hvert orð, þ.e. fyrsta atkvæði í hverju orði, en einnig leggja þau áherslu á þau orð sem skipta miklu máli í frásögninni.

Í hópi III eru Kjartan Ólafsson, Bjarni Guðmundsson, Jóhann Garðar Jóhannsson og Kristmann Sturlaugsson. Stíll þeirra einkennist af löngum nótum, þ.e. tónlengdin hjá þeim er mun lengri en hjá hópi I og yfirleitt lengri en hjá hópi II. Áhersla á orð og atkvæði er einnig frábrugðin því sem hinir kvæðamennirnir gera. Þessir kvæðamenn anda á öðrum stöðum í vísunum en þeir sem ólust upp við kveðskap og hreinlega syngja meira.

[4] Sjá: Ragnheiður Ólafsdóttir: Deep Freeze: The social and musical impact of the Idunn Society on the Icelandic rimur, bls. 158 og áfram.

[5] Svend Nielsen, 1982, bls. 124-128.

Hefðin og Arfurinn

Kveðskaparkverið