Dagskráin hefst á degi rímnalagsins 15. september með rímnatónleikum Iðunnar á Kex hostel sem hefjast kl. 20.
Laugardaginn 16. september heldur dagskráin áfram á Kex hostel með vinnustofum í dansi og tónlist. Laugardagskvöldið, þungamiðja hátíðarinnar, hefst með matarveislu með sérstöku haustuppskeruþema að hætti Antje Taiga áður en húsbandið leikur þjóðlagatónlist fyrir dansi og sérfræðingar í þjóðdansi leiða fólk í gegnum sporin. Kvöldinu lýkur með dúndrandi stemningu með Skuggamyndum frá Býsans.
Sunnudaginn 17. september kl. 14 verður haldið málþing um fortíð, nútíð og framtíð íslenskrar þjóðlagatónlistar og langspilsmót í Eddu – húsi íslenskunnar. Þar verða flutt stutt inngangserindi um efnið frá ýmsum sjónarhornum og síðan taka við umræður með þátttöku málþingsgesta. Málþingið er samvinnuverkefni Vöku-félagsins, Stofnunar Árna Magnússonar, Iðunnar og Tónlistarborgarinnar Reykjavík.
Nánar um dagskrá Vöku þjóðlagahelgar. Nánar um málþing og langspilsmót