Dagskrá fundarins er afar áhugaverð:
Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi alþingismaður, ráðherra og forseti Alþingis mun spjalla um bók sína Fólk og flakk, sagnakvöld af baksviði stjórnmálanna, á léttum nótum. Í bókinni er meðal annars að finna Alþingistengdan hagyrðingabálk með sýnishorni af kveðskap þingmanna. Þá er einnig fjallað um sögumenn og hagyrðinga eins og Stefán Jónsson alþingismann og fréttamann og Jakobínu og Starra í Garði. Hestamenn og hagyrðingar eins og Pétur Pétursson læknir og Jóhannes á Gunnarsstöðum, bróðir Steingríms, koma við sögu í bókinni og þannig mætti áfram telja. Bókin dregur upp mynd af umhverfi og aðstæðum stjórnmálanna fyrir hartnær hálfri öld, kryddað er með gamansögum af framboðsfundum og ferðalögum. Hvað fær að fljóta með í stuttu erindi verður að koma i ljós.
Kristinn Schram, dósent í þjóðfræði við Háskóla Íslands, mun spjalla um rannsóknir á því hvernig dýr birtast í alþýðuhefðum og þá sérstaklega í alþýðufrásögnum um bjarndýr. Þar eru meðal annars skoðaðar frásagnaraðferðir sem sagnaþulir nota við lýsingar á líkamshegðun, hugsunum og tilfinningum bjarndýra. Síendurteknar hugmyndir um náttúrulega og yfirnáttúrulega eiginleika koma við sögu sem og það hvernig sú merking sem menn gefa hvítabjörnum hefur frá fornu fari tekið breytingum. Tekin verða dæmi úr Hrólfs sögu Kraka, Bjarkarímum og af íslenskum þjóðsögum og ævintýrum. Þá væri gaman að taka spjall, og kannski einhverjar stemmur og vísur um dýr í kveðskap.
Þau Kristín Lárusdóttir sellóleikari og skáldið Anton Helgi Jónsson flytja ljóða- og tónlistaratriði sem kallast Jónas á tímum loftslagsbreytinga. Það byggist á kvæðum sem skáldið orti út frá kvæðaflokki Jónasar Hallgrímssonar Annes og eyjar og undir sama bragarhætti. Kristín fléttar táknrænum tónum og hljóðum kringum rödd Antons og bæði kallast þau á við hefðina um leið og þau líta til framtíðar.
Ingimar Halldórsson kvæðamaður flytur vel valdar vísur við áhugaverðar stemmur eins og honum er einum lagið.
Einnig verða fastir liðir, samkveðskapur í umsjón Iðunnar Helgu og Grétu Petrínu Zimsen, litla hagyrðingamótið og afli Skáldu í umsjón Sigurlínu Davíðsdóttur.