Hefðin og Arfurinn

Bragfræði og háttatal

Formáli fyrstu útgáfu 1953

Margir hafa yndi af vísum. Oft langar menn til að vita um bragarhætti vísna. Það eru mörg ár síðan mér datt í hug að semja bók um bragfræði. Fyrst ætlaði ég að taka vísur eftir aðra og greina háttaheiti þeirra og þá hefði ég einkum tekið vísur úr Bragfræði Helga Sigurðssonar. Þetta reyndist ófær leið, af ýmsum ástæðum.

Þá tók ég fyrir að yrkja háttatal.

Þeir, sem eitthvað hafa kynnt sér rímnabragafræði, vita, að nöfn á háttum eru mjög breytileg og eiga sumir hættir mörg nöfn, en aðrir ekkert; einnig er sama nafn stundum notað á marga bragi.

Ég nota að nokkru nýtt nafnakerfi, en reyndi þó að taka sem mest af eldri bragorðum. má deila á sumar nafngiftir bókarinnar, og hef ég valið þær eftir sem mér féll bezt og lýsti helzt einkennum hátta.

Orðaskrárnar vísa til, hvar finna má skýringu á torgætum orðum.Skáletraðir rímliðir, sem einkenna hvert afbrigði, en ekki það rím, sem er öllum flokknum.

Bragorð eru ýmist rituð sem nafnorð eða lýsingarorð; eða braghent o.s.frv. Til samræmis er notuð lýsingarorðmyndin við háttatal, ferskeytt, nýhent, o.s.frv. Sumir hættir eiga sérnöfn, sem ekki eru eiginleg bragorð, nema nokkur nöfn úr ferskeytta flokknum. Ég hef tekið allt, sem hægt var, af slíkum nöfnum.

Eftir Háttatali má skilgreina flesta rímnahætti, sem til eru; þótt þar vanti marga hætti, má oft finna rétt bragfræðiheiti með því að setja saman dýrleika tveggja eða fleiri tilbrigða. Ég tók alla þá hætti, sem ég veit að hafa verið ortar undir heilar rímur, en engan hátt það dýran, að ekki mætti yrkja heila rímu við hann.

Þessir hafa helzt ritað um bragfræði, svo mér yrði gagn að: Helgi Sigurðsson prestur á Melum í Borgarfirði, Björn Karel Þórólfsson doktor, Sigurður Kristófer Pétursson, Sir William Craigie, Jón Helgason prófessor.

Nokkrir hafa leiðbeint mér eitthvað við að semja þetta og nefni ég helzt til þess þá Freystein Gunnarsson skólastjóra og Snæbjörn Jónsson. Slík aðstoð hefur orðið mér nokkur styrkur í þessum fræðum og ekki síður í trúnni á gildi þeirra.

Ég hef reynt að tína til þau braglýti, sem algengust eru, einkum ef stærri skáldin hafa hnotið um þau.

Auðséð er, að bragregla er ekki trygging þess að kvæði sé mikils virði, en alltaf er leitt að sjá fagra hugsun í tötrum. Þarflegt væri að hafa aðra bók um höfuðeinkenni góðra kvæða, önnur en bragreglur. Hvað bíður síns tíma.

Von mín er, að einhverjir hafi nokkurt gagn af bragfræði þessari, en mér hefur orðið það lærdómsríkt á margan hátt, að semja hana.

Ritað á Draghálsi í Borgarfirði,

20. apríl 1953.

Sveinbjörn Beinteinsson.

Sveinbjörn Beinteinsson (1924-1993)