Braglínur og bragliðir

Ferskeytt vísa lítur þannig út:

Frelsisdagsins brúnin björt
blikum tvístar öllum,
því hún bjarmar ærið ört
upp af vonarfjöllum.
(Bólu-Hjálmar.)

Í henni eru fjórar ljóðlínur, einnig nefndar braglínur eða vísuorð (stundum kallaðar hendingar, en það orð er ekki notað hér). Fyrsta og þriðja lína heita frumlínur, en önnur og fjórða síðlínur. Ef önnur eða þriðja lína er órímuð, heitir hún viklína.

Séu braglínur þrjár, þá heitir sú fyrsta frumlína, en hinar tvær síðlínur og, ef aðgreina þarf, miðlína og loklína. Ef vísuorð eru tvö þá heita þau frumlína og síðlína.

Einnig má kalla sérlínur ef vísuorð eru ekki tengd við önnur með stuðlum; sjá ljóðahátt og fleira.

Bragliðir eru missterkir. Fer jafnan sterkur bragliður fyrst í ljóðlínu, en síðan áhersluminni, þá sterkur og síðan léttur. Þyngri bragliðurinn heitir hljómstig, en sá léttari lágstig.

Fyrri stuðull í frumlínu heitir yfirstuðull, en sá síðari undirstuðull og verður annar hvor að vera í hljómstigi. Það er algild regla. Þriðji stuðull er alltaf í fremstu áherslu síðlínu og heitir höfuðstafur. Aldrei má stuðull vera í forlið. Ekki má vera meira en einn bragliður milli stuðla; frá því er samt vikið í löngum ljóðlínum og fornyrðislagi og ljóðahætti.

Bezt þykir að yfirstuðull sé í fyrsta braglið, en undirstuðull í þriðja og eru þá báðir í hljómstigi. Það heitir hástuðlað:

Kveður í runni, kvakar í mó
kvikur þrastasöngur.
(Jónas Hallgrímsson.)

Sé yfirstuðull í öðrum braglið, þá verður undirstuðull að vera í þriðja, sem er hljómstig. Þetta er lágstuðlað:

Sé þér blær um bjarta nótt
bæði vær og þýður.
(Þorsteinn Erlingsson.)

Stundum eru stuðlarnir í öftustu bragliðum. Þá er síðstuðlað, og er jafnan þannig í sléttuböndum:

Dafnar bráðum fólkið Fróns,
felldu býlin reisir.
(Einar Benediktsson.)

Forðast ber að ofstuðlun verði:

Ljóð frá auði lyfti Lofti.
(Matthías Jochumsson.)

Vont er að stuðlar séu í orðum sem lítið ber á í ljóðlínu. Velja þarf áhrifamestu orðin fyrir stuðlana; þess gættu fornskáldin oftast:

Sal veit eg standa
sólu fjarri.
(Völuspá.)

Slæmt er að stuðla þannig:

Að nokkurri eykt lét svífast — —.
(Snorri á Húsafelli.)

Í löngum ljóðlínum gilda ekki að öllu sömu reglur og í þeim styttri. Stundum eru í langlínum tveir bragliðir milli stuðla:

Hún réðst með hrífu sína og reiddan miðdagsverð.
(Guðmundur Friðjónsson.)

 

Við gleymdum lengur liðnum tímans hætti;
enn lifir skuggi af þeim í okkar reit.
(Einar Benediktsson.)

Það hendir suma að hafa tvenna stuðla í langlínum og er það ljótt:

Þá auga manns sér allri fjarlægð fjær.
(Einar Benediktsson.)

Þess ber að gæta við stuðlun, að langar ljóðlínur hafa allt annan hljómblæ en þær styttri og minna um sumt á fornyrðislag, en þar voru oft nokkur áherslulítil atkvæði á milli stuðla:

Máni það né vissi
hvað hann megins átti.
(Völuspá.)

Sumum hættir til að hafa of langt milli stuðla og verða þeir þá að engu:

Örðug fór að verða eftirreiðin.
(Grímur Thomsen.)

Þessi ljóðlína er það heilsteypt, að hún þolir ekki að tveir bragliðir verði á milli stuðla. Það er eins og löngu braglínurnar séu sveigjanlegri og því nái hljómur stuðlanna þar sama, þó lengra sé á milli.

Stuðlar verða áhrifaminni í langlínum og ætti þar að vanda betur til þeirra.

Það breytir talsvert hljómi orðanna, hvort samhljóðar fremst í orðinu eru einn, tveir eða jafnvel þrír: fóður, fræ, frjór. Þetta er gott að muna, ef menn vilja vanda mjög til stuðla.

Frá Hveravalla fegurð að Hvítárvatnsströnd —
svo hverfur Urður sjónum og Skuld mér réttir hönd.
(Haukur Eyjólfsson.)

Þetta nefnast rekstuðlar.

Miklu skiptir, að stuðlar séu í þeim orðum, sem mest eru í ljóðlínu hverri:

Hugann grunar, hjartað finnur lögin.
Heilinn greinir skemmra en nemur taugin.
(Einar Benediktsson.)

Það er betra að hafa tilbreytni í stuðlun; hafa til skiptis gnýstuðlun og aðrar tegundir, einnig að hafa ekki sömu stuðla hvað eftir annað.

Hefðin og Arfurinn

Bragfræði og háttatal