Heiti og kenningar

Heiti og kenningar settu mjög svip sinn á fornkvæðin, einkum dróttkvæði. Rímnaskáldin tóku við þessum arfi. Kenningar voru ekki ýkja miklar í rímum lengi vel, en færðust í vöxt, þegar dýrum háttum fjölgaði, á 16. öld og síðan.

Hér verður fátt sagt um heiti og kenningar, en þó verður að gera lítils háttar grein fyrir þessu.

Heiti er orð, sem notað er í stað venjulegs nafns á einhverju: Rekkur, seggur, gumi eru heiti og þýða maður. Mar og ver eru sjávarheiti.

Kenningar eru í rauninni líkingar. Kenning er í tveim hlutum: höfuðorð og kenniorð. Höfuðorð er nafn þess, sem líkt er við, en kenniorðið tengir líkinguna því sem á að lýsa.

Dæmi: Höfuðorð: viður, kenniorð: sverð = sverðs viður = maður.

Þá er rétt kennt, ef líkingin fæst staðizt. Rétt er að kalla skip öldu hest og segja að hann vaði eða syndi hafið. Ef sagt er, að ölduhestur skríði um sjóinn, þá er kenningunni spillt; ormar skríða, en hestar ekki.

Þorbjörn hornklofi yrkir um „bleikan bárufák“, og fer vel á því. Í Friðþjófsrímum er þetta:

Að Sólundum siglu orm
svartan læt ég skríða.

Stundum er tvíkennt og er þá fyrri kenningin höfuðorð: Fiska jörð er sjór; fiskajarðar hestur er skip.

Þríkennt er, ef sagt væri: stýrir fiskajarða fáks. Það er kallað rekið ef þríkennt er. Enn má færa þetta lengra út, og var það altítt í dróttkvæðum, en fágætt í rímum.

Fljótt læra menn að skilja kenningar, því oft segir efnið til, hvað kenningin merkir. En til þess að rekja uppruna hverrar kenningar, þurfa menn að kynna sér Snorra-Eddu.

Heiti eru nú fátíð í ljóðum og kenningar ennþá sjaldgæfari. Þetta er illa farið; góðar kenningar og vel valin heiti prýða skáldskap.

Varasamt er að taka kenningar eftir rímum, þær eru oft rangar. Víða er þó vel kennt í rímum, einkum þeim eldri.

Alltaf verður ljóðamál nokkuð frábrugðið lausu máli; orðaröð önnur og setningar á annan veg. Forðast ber að yrkja á mjög annarlegu máli eða víkja frá því, sem eðlilegt er.

Það fer sjaldan saman að yrkja hratt og yrkja vel.

Hefðin og Arfurinn

Bragfræði og háttatal